17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2913 í B-deild Alþingistíðinda. (3040)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur upphafið hér heldur óvenjulegar umr. um þingsköp.

Það er alveg rétt allt sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði um það mál, að hér gengur oft erfiðlega að fá ráðh. til að svara fsp. Nú eru sjö ráðh. nýkomnir af Norðurlandaráðsþingi og ekki var mörgum fsp. svarað þá vikuna sem þeir voru burtu. Raunar var, held ég, á þingfundum yfirleitt ekki staddur nema einn ráðh. þó að þrír ættu að vera á landinu. Það kemur úr hörðustu átt þegar hæstv. forsrh. ætlar að fara að deila á einstaka þm. fyrir að af einhverjum ástæðum séu þeir ekki við nákvæmlega á því augnabliki sem hann vill svara fsp. Ég dreg mjög í efa sannleiksgildi þess, að hann hafi fjórum sinnum krafist þess að þetta mál yrði tekið til umr., eins og margra orða þessa manns upp á síðkastið annarra sem verður að draga í efa.

En tilefni þess, að ég kem hér í ræðustól, er, að hæstv. forsrh. á sæti í Ed. Alþingis. Það er oftsinnis þannig í þeirri hv. deild, næstum því alltaf þegar mikilvæg málefni eru til umr., ekki síst málefni stjórnarinnar, stjfrv., að þá er ekki hægt að koma málum í gegnum nokkra umr. nema við stjórnarandstæðingar hjálpum til. Þetta geta allir þm. í deildinni staðfest og þetta vita allir menn. Þetta gerðist síðast í síðustu viku. Þá nægði ekki einu sinni að ég, sem venjulega er kallaður til að hjálpa þeim, greiddi atkv. með þeim til þess að mál gengi til 3. umr. og það var stórmál. Í öllum þessum tilfellum er hæstv. forsrh. fjarverandi. Hann sést yfirleitt ekki í þeirri deild sem hann á þó sæti í. Að hann skuli svo leyfa sér að koma hér og ráðast á hv. þm. Halldór Blöndal, sem sinnir sínum þingmannsstörfum vel, — þó að ég sé í annarri deild fylgist ég með því, — hann gerir það vissulega og í Sþ. er hann yfirleitt alltaf viðstaddur. Það er miklu meira en hægt er að segja um hæstv. forsrh. Þessi vinnubrögð þessa manns eru með þeim hætti að ég hef aldrei vitað slík hér í þinginu fyrr, að menn fari að vega áfram að öðrum með þessum hætti, — aldrei nokkurn tíma, — og er ég þó búinn að sitja hér ýmist sem varamaður eða kjörinn þm. alllangan tíma.

Ég vil ekki hafa um þetta öllu fleiri orð. En ég endurtek: Í Ed. verðum við stjórnarandstæðingar svo til ætíð að hjálpa til að koma málum í gegn vegna þess að stjórnarþingmenn mæta ekki betur en þetta og forsrh. yfirleitt aldrei. Væru störf þar meira og minna lömuð ef þetta væri ekki gert.