17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2915 í B-deild Alþingistíðinda. (3043)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er misskilningur hjá síðasta ræðumanni að stjórnarskrárnefnd hafi ekki starfað vel. Hún hefur þegar skilað tveimur skýrslum til þingflokkanna, sem þingflokkarnir hafa ekki svarað. Það er ljóst að hún hefur starfað mjög vel.

Það er rétt, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði áðan, að það hefur verið góð samvinna milli stjórnar og stjórnarandstöðu í deildum þingsins. Hún hefur m. a. komið fram í Ed. eins og hann lýsti. Hún kemur líka fram í því, að það er ekki unnt að taka brbl. ríkisstj. til umr. í Nd. fyrr en seinni hluta þessarar viku vegna þess að tveir hv. þm. Sjálfstfl., þeir Matthías Bjarnason og Matthías Á. Mathiesen, héldu báðir á fund norður til Bolungarvíkur og óskuðu eftir að meðferð málsins yrði frestað meðan þeir væru að halda sinn Bolungarvíkurfund, og vegna þess, að okkur er ljóst að Bolungarvíkurfundir eru mikilvægir fyrir þann hluta Sjálfstfl. sem er í stjórnarandstöðu, urðum við auðvitað við þessari ósk.

Þannig eru mörg dæmi um það, að menn vinna saman hér um að koma málum fram, hvort sem það er sá ágæti stuðningur, sem við fáum oft frá Eyjólfi Konráð Jónssyni í Ed., eða sá skilningur, sem Nd. sýnir þessum tveimur þm. Sjálfstfl., Matthíasi Bjarnasyni og Matthíasi Á. Mathiesen, að geyma umr. um brbl. í rúmu hálfa viku vegna þess að þeir eiga mikilvægum fundahöldum að sinna í Bolungarvík einkum og sérstaklega með tilliti til þess, að landsfundi tiltekins stjórnmálaflokks hefur nú verið frestað og a. m. k. annar ef ekki báðir af þessum tveimur ágætu mönnum, sem nú hafa verið í Bolungarvík, hafa verið orðaðir við formennsku í flokknum. Við teljum nauðsynlegt að allir þeir, sem til greina komi, fái að halda þær Bolungarvíkurræður sem þeir telja nauðsynlegar.