17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2917 í B-deild Alþingistíðinda. (3047)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt, að þetta hafa að nokkru leyti verið gagnlegar umr. undanfarnar mínútur. Það er að vísu ekkert nýtt, — við hlýðum á það svo að segja vikulega, — að þeir flokksbræður, sjálfstæðismenn hér á Alþingi, taka snerpur og reyna að gera upp sín mál, en það er heldur hinn hlutinn sem ég held að menn ættu að veita athygli.

Það er ekkert nýtt að einstaka þm. vanti hér á fundi. Til þess geta legið ýmsar ástæður og full rök geta verið á bak við það að menn geta ekki mætt. En þetta á ekki bara við um óbreytta þm. Þetta á ekkert síður við um hæstv. ráðh. Og þetta á ekki bara við hér í Sþ. Þetta á líka við í báðum deildum þingsins. Ekki er verið að ræða fyrirspurnir þá. Þá er verið að ræða stjfrv. og annað og mörg eru þess dæmin, a. m. k. sem ég veit um í Nd. Alþingis, að viðkomandi ráðh., sem lagafrv. heyrir undir og hann flytur, er ekki viðstaddur umr. um það mál. Þess eru mörg dæmi.

Ég er ekki að draga þetta hér fram til að reyna að klekkja á einum eða neinum. Auðvitað ætti það að vera frumskylda hvers og eins og ráðh. að koma til fundar á eðlilegum tíma þegar fundir eru haldnir, þó að vissulega hljóti að koma upp undantekningartilvik í því sem öðru og fullkomlega eðlileg. En mér hefur fundist það allir of oft koma fyrir að ekki aðeins hæstv. ráðh. séu fjarverandi umr. um mál sem þeir sjálfir flytja, heldur verði hvað eftir annað að slíta fundum á Alþingi vegna þess að hæstv. ráðh. eru ekki við. Í gær var í Nd. Alþingis aðeins 10 mínútna fundur og þá virtist ekkert liggja fyrir. Þó voru á dagskrá mál sem tilheyrðu ríkisstj. Og af hverju voru þau ekki rædd? Ég spyr. Það er ekki einungis í þessu einstaka tilviki, sem varð til að þessar umr. hófust, hægt að snupra menn fyrir að vera fjarstaddir þingfundi. En það á ekki heldur að vera neitt feimnismál að ræða það frekar en annað hér. Það er ástæðulaust að vera að leyna einu eða neinu í þeim efnum.

Ég þakka hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að vekja sérstaka athygli á því, hversu Bolungarvík er mikils metin hér í þingsölum og á landsmælikvarða. Það er ekkert nýtt að hann hugsi gott til þess landshluta, enda á hann þar sterkar rætur frá fyrri tíð, þó ekki sé nú. Það er þó eftir sem áður ánægjulegt að bæði hann og aðrir taka tillit til þess þegar þarf þar, að mér skildist, að vinna merkileg verk, flytja merkilegar og stefnumótandi ræður. Ég þykist vita hvað hann átti við þegar hann talaði um það merkilega í sambandi við þessa tvo hv. þm., Matthíasana báða. Hann hefur þá hugsað til formanns Sjálfstfl. og hinnar stefnumarkandi ræðu hans þar vestra á síðasta ári.

En fyrir alla muni: Hæstv. ráðh. geta ekki sett sig á háan hest og sett ofan í við óbreytta þm. hér. Það má segja að kannske eigi við um allflesta að þeir séu einhvern tíma á þingtíma fjarverandi þingfundi, en til þess liggja margar orsakir og eðlilegar. En það er ástæða til að undirstrika það, að hæstv. ráðh. hafa ekkert sérstakt fram yfir aðra þm. að því lútandi. Þeir eru ekki neinir sérstakir englar að því er varðar þingsetu og fundasetu og því síður hvað það varðar að taka þátt í umr. þó að þeir eigi mál sem um er verið að ræða hverju sinni.