17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2918 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

233. mál, fjármagn til yfirbyggingar vega

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 463 hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi fsp. til hæstv. samgrh.:

„Hversu miklu fjármagni hefur verið varið til að kanna möguleika til að byggja yfir gil á Óshlíðarvegi og í Ólafsfjarðarmúla?“

Ástæða þessarar fsp. er sú, að við afgreiðslu vegáætlunar hér á Alþingi 16. maí 1972 var gert ráð fyrir því, að varið væri af liðnum til tilrauna í vegagerð fjármagni til þess að kanna möguleika á að byggja yfir gil á Óshlíðarvegi og einnig á Ólafsfjarðarvegi. Nú þarf ekki að taka það fram, vænti ég, við hv. þm. að á báðum þessum stöðum er það brýn nauðsyn og beinlínis knýjandi að fundin verði lausn til þess að forða frá stórkostlegri hættu á slysum, og því er spurt, vegna þess að tiltölulega lítið virðist hafa gerst í þessum málum og meira að segja Vegagerð ríkisins hefur neitað því, að Alþingi hafi ákvarðað fjárveitingu til þessa verkefnis. Ég hygg þó að nú sé orðið ljóst, að við afgreiðslu vegáætlunar 1972 var bæði í nál. fjvn. svo og í framsöguræðu formanns fjvn. sérstaklega tekið fram að verja ætti af liðnum til tilrauna í vegagerð fjármagni til að kanna möguleika á að byggja yfir þessa tilteknu staði með tilraunagerð. Því er fsp. fram lögð.