04.11.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

9. mál, iðnaður á Vesturlandi

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Mig langaði að leggja nokkur orð í belg í þessari umr. um eflingu iðnaðar á Vesturlandi.

Ég byrja á því að lýsa yfir að ég styð þessa þáltill., sem borin er fram af öllum þm. Vesturlands. Sennilega fæ ég þó ekki tækifæri til þess að fylgja henni í gegnum þingið því að ég er hér aðeins gestur í nokkra daga, en eigi að síður vildi ég segja hér nokkur orð.

Það er ánægjulegt til þess að vita, að samstaða skapist um það, eins og hér kemur fram, að allir þm. í kjördæminu skuli leggjast á eitt um að vilja efla iðnað á Vesturlandi og gera um það iðnþróunaráætlun. Ég held sannast sagna að ekki verði á markvissan hátt unnið að uppbyggingu iðnaðar, hvort heldur sem er á Vesturlandi eða annars staðar, öðruvísi en að undangenginni slíkri áætlunargerð. En af því að almenn umræða um iðnaðarmál blandast inn í þessa umræðu, þá ætla ég að víkja aðeins að því nokkrum orðum.

Ég er sammála því sjónarmiði, sem hér hefur komið fram í umr. og hefur komið fram í þingsölum á mörgum umliðnum árum, að það sé nokkuð víst, að iðnaðurinn muni á komandi árum vega þyngra í okkar atvinnulífi, verða meiri hornsteinn í uppbyggingu atvinnulífsins. Þarna kemur ýmislegt til. Þó að erfitt sé að sjá langt fram í tímann um þróun einstakra atvinnugreina, þá ber flestum saman um að í landbúnaðinum verði um að ræða töluverða fækkun á atvinnutækifærum á næstu árum, jafnvel þó menn væru ekki að hugsa um að draga framleiðsluna saman vegna tæknivæðingar þar. Og flestar spár hníga í þá átt, að vinnuafl í fiskveiðum muni að mestu standa í stað. Í fiskiðnaðinum má hins vegar gera ráð fyrir að töluverð aukning atvinnutækifæra geti orðið, en þar eru vitaskuld ýmsir möguleikar vannýttir sem þjóðin þarf að spreyta sig við á næstu árum. Ýmis fyrirferðarmikil þjónustustarfsemi, eins og byggingariðnaður, mun á næstu árum ekki taka við sama hlutfalli aukningar og verið hefur á síðustu 10 árum.

Þannig mætti halda áfram að telja rök fyrir því, að mikil nauðsyn, knýjandi nauðsyn er á því, að þjóðin fari að hugleiða hvernig hún muni á komandi tímum byggja upp almennan iðnað í landinu. Og ég verða að segja það sem mína skoðun, að ég tel það í raun og veru Alþingi Íslendinga til skammar, að enn skuli ekki hafa verið mótuð í landinu nein iðnaðarstefna. Þetta kom hér fram einmitt hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni áðan, að það hefur ekki verið mótuð eða samþ. á Alþ. nein stefna um iðnþróun. Og það sýnir kannske hvað við höfum sofið á verðinum í þessum efnum, á sama tíma og þm. tala um það í skálaræðum og við hvers kyns tækifæri, að iðnaðurinn þurfi að taka við mannaflaaukningu næstu ára og áratuga. En sem betur fer, segi ég, er mikil von til þess, að á þessu verði hið fyrsta breyting, þar sem unnið hefur verið að því að undanförnu af hálfu iðnrn. í samvinnu við samtök iðnaðarins að móta stefnumörkun til langs tíma í þessum efnum. Tillaga um þetta efni var kynnt á síðasta þingi en fékk ekki afgreiðslu, enda mjög langt liðið á þing þegar hún var lögð fram. Tillagan verður væntanlega kynnt á þessu þingi og vonandi afgreidd. En sem sagt, ég tel að þessi almenna iðnaðarumræða hafi meira verið í nösunum á hv. þm. í gegnum árin. Það hefur skort þarna verkin, og það eru verkin sem þurfa að tala í þessum efnum eins og reyndar á mörgum öðrum sviðum.

Það verður að segjast alveg eins og er, að við búum við hagkerfi sem fyrst og fremst snýst í kringum okkar sjávarútveg og þá lífsbjörg sem þaðan er að fá. Það er í sjálfu sér ekkert einkennilegt, og ég held að þetta sé meginskýringin á því að svona er. Og þetta er á margan hátt eðlilegt. En eigi að síður erum við grunnhyggnir í þessum efnum að hyggja ekki betur að uppbyggingu iðnaðar.

Síðan hefur það gjarnan verið svo, að þegar eitthvað bjátar á í þessari burðarstoð atvinnuveganna, sjávarútveginum og fiskvinnslunni, þá hlaupa menn upp til handa og fóta, a.m.k. úr sumum flokkum, og vilja fyrst og fremst stóriðju í landið, stóriðju og aftur stóriðju. Þetta mynstur í atburðarásinni þekkjum við. Ekki er ég með þessum orðum mínum að leggjast gegn því, að við leggjum á næstu árum og áratugum áherslu á uppbyggingu stóriðju. Vitaskuld hljótum við að gera það. Við hljótum að leita allra leiða til að beisla orkuna sem býr í fallvötnum landsins og jarðvarmanum í iðrum jarðar til uppbyggingar stóriðju, en í þeim efnum verður að fara á margan hátt að með gát og hyggja að hverju spori, og jafnvel þó að þar verði stigið töluvert skref á næstu árum, þá er alveg ljóst að almenn iðnaðaruppbygging þarf að eiga sér stað samhliða. Til þess liggja ýmsar ástæður sem ekki er hægt að rekja í stuttu máli. Ég vil aðeins minna á eitt atriði er tengist því sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Þó ekki væri nema af þeim sökum, að við þurfum að skapa vaxandi þjóð girnileg atvinnutækifæri á næstu árum, þurfum við að greiða fyrir uppbyggingu almenns iðnaðar í landinu. Stóriðjan leysir ekki þann vanda.

Ég vildi víkja að þessu almennum orðum, af því að almenn iðnaðarumræða var komin hér á dagskrá, þó að ég hafi satt að segja ekki búið mig undir að halda hér langa ræðu. Áður en ég fer úr stólnum vil ég þó víkja að einu atriði sem ég get ekki skilið við. Það er atriði sem tengist félagslegri hlið iðnþróunar og allt of sjaldan er rætt um, þegar iðnaðarmál ber á góma.

Það kom fram í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar hér á dögunum, þegar verið var að tala um nýja skatta á innflutt sælgæti, að sælgætisiðnaðurinn væri vafalaust láglaunaiðnaður. Þetta er rétt. Það, sem ég vildi segja, er að það er ótrúlegt hvað launin í okkar almenna iðnaði eru lág. Ástandið í þeim efnum kallar m.a. á það, að Alþ. sinni miklu betur en það hefur gert aðbúnaðarmálum iðnaðarins á Íslandi, þó ekki væri nema af þessum ástæðum.

Ég hafði tækifæri til þess á liðnu sumri af sérstökum ástæðum að kynna mér sérstaklega þessi launakjör. Ég vissi reyndar vel að þau væru slök, en ætlaði varla að trúa því sem kom á blaðið þegar ég hafði framkvæmt mína útreikninga. Ég ákvað að bera saman launakjör í almennum verksmiðjuiðnaði á Íslandi og launakjör í almennri verkamannavinnu og til þess hafði ég aðallega tvenn gögn, sem á að vera hægt að styðjast við, þegar menn vilji skoða atriði eins og þessi. Það er Fréttabréf Kjararannsóknarnefndar, sem birtir ársfjórðungslega niðurstöður sínar af fjölmennu úrtaki um kaupgjald í öllum helstu atvinnugreinum landsins. Að þessu standa báðir aðilar vinnumarkaðarins. Síðan hafði ég upplýsingar frá Framkvæmdastofnun um greiddar tekjur, árstekjur, í tilteknum atvinnugreinum til samanburðar. Við athugun á þessum samanburði um launakjör í almennum verksmiðjuiðnaði og við almenna verkamannavinnu kom upp sú hryllilega staðreynd, — ég vil segja hryllilega staðreynd, — að launin á hverja greidda klukkustund í hinum almenna verksmiðjuiðnaði eru 40–45% lægri en í almennri verkamannavinnu. Ég hef sýnt ýmsum þessa útreikninga mína og borið þetta undir fróða menn, og það hefur enginn treyst sér til að hnekkja þessum niðurstöðum.

Þetta er slíkt alvörumál, að það er ekki sæmandi Alþingi að láta sem þetta sé ekki að gerast. Og hver er ástæðan fyrir þessu? Vafalaust er ástæðan fyrir þessu sú, að það skortir mikið á að jafnréttismálum hafi þokað nægilega, en það er staðreynd, að milli 70–80% af vinnuafli í verksmiðjuiðnaðinum er kvenfólk. Það eru konur, sem búa við þessi lélegu launakjör. Það er kominn tími til að þær rísi upp og krefjist jafnréttis í þessum efnum sem öðrum.

Á þetta vildi ég minnast í leiðinni og ég hvet Alþ. til þess á þessu þingi að fjalla rækilega um þær till. Það frv. sem hér verður væntanlega lagt fram um íslenska iðnaðarstefnu, þar sem gert er ráð fyrir því að móta nýtt umhverfi fyrir íslenskan iðnað. Í frv. er ýmsum gömlum málum hreyft, en einnig ýmsum nýmælum, sem eiga að skapa iðnaðinum á Íslandi nýja stöðu til átaks og uppbyggingar, og af ýmsum ástæðum, sem ég hef minnst á í ræðu minni, hvet ég alþm. til þess að samþykk ja það sem allra flestir og skapa um það einingu á þessu hv. Alþingi.