17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2919 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

233. mál, fjármagn til yfirbyggingar vega

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Hafi ég náð rétt tölum sem hæstv. ráðh. var hér með, þá sýnist mér þetta vera í kringum 18 millj. gkr. Nú kom það ekki fram í svari hæstv. ráðh., hvort þessum fjármunum hefur verið varið af þessum tiltekna lið, en sé svo sýnist mér hafa verið ærið misskipt fjármagni til þessara tveggja staða.

Nú minnir mig að þm. Norðurl. e. hafi á sínum tíma ákvarðað framlag til þessa liðar af fjárveitingum sem áttu að fara í það kjördæmi til almennrar vegagerðar. Ég þori ekki um þetta að fullyrða, en ef þessu fjármagni hefur verið varið af liðnum til tilrauna í vegagerð er þarna æðimikill munur á. Ég skal ekki deila á það út af fyrir sig, en ég ítreka þá brýnu nauðsyn sem á því er að finna lausn á þessu máli, hefja framkvæmd í þessu máli. Ég tek undir það með hæstv. samgrh. að þarna er einn staðurinn enn kominn inn sem er Ólafsvíkurvegurinn. Þarna er um að ræða þrjá staði, og held ég að Alþingi verði og hljóti að taka þá til meðferðar og láta hefja þar framkvæmdir með sérstökum hætti og hljóti að fjármagna þær fyrir utan hið almenna vegafé. Það verður ekki gert með öðrum hætti en fá til þess fjármuni utan hins almenna vegafjár.

Þetta er mikið öryggismál á öllum þessum stöðum, að ég hygg. Ég þekki að vísu mest til að því er varðar Óshlíðina, en ég hygg að margt sé sameiginlegt með öllum þessum stöðum að því er varðar öryggisatriði og mikil nauðsyn á því að þetta verði gert. Ég treysti því og trúi, að það fáist á þeirri vegáætlun, sem verður afgreidd hér áður en þingi lýkur, fjármunir sem tryggja að farið verði í að vinna þessi verk. Mér er ljóst að það tekur nokkurn tíma að framkvæma til fulls það sem þarna þarf að gera, og kannske verður því seint lokið að fullu, en það er brýn nauðsyn að íbúar þessara svæða fái um það vitneskju og sjái að að þessu máli verður unnið áfram og með meiri hraða og meira fjármagni en gert hefur verið hingað til. Það er ljóst að íbúar þessara svæða una því ekki lengur að þarna verði ekki tekið myndarlegar á en gert hefur verið og að það sjáist fjárveiting í þessu skyni á vegáætlun þeirri sem væntanlega verður afgreidd hér áður en það þing, sem nú situr, fer heim á komandi vori.