17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2922 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

233. mál, fjármagn til yfirbyggingar vega

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa mig sammála þeim hv. þm. sem hér hafa talað um þessa fsp. og nauðsyn þess, að þau framkvæmdarverkefni, sem hér er rætt um, verði tekin sem sérstök verkefni.

Ég vil einnig taka undir orð hæstv. ráðh. um það, að kannske sé ekki höfuðatriðið að ráðist verði í framkvæmdir nú þegar á þessum stöðum. Aðalatriðið hlýtur að vera að þessi mál séu vel könnuð áður en framkvæmdir eru hafnar.

Það, sem kom mér fyrst og fremst til að koma hér upp, var sú fullyrðing hæstv. ráðh., að það lægi þegar raunverulega fyrir, að ekki yrði um það að ræða að vegsvalir, eins og hann nefndi það, yrðu byggðar í Ólafsvíkurenni. Mér finnast þetta miklar og sérstakar fréttir og vondar fréttir fyrir okkur Hellissandsbúa, ef það liggur þegar fyrir að sú lausn sé ekki fær, því að okkur sýnist að hinar leiðirnar, sem nefndar hafa verið, annaðhvort vegur í sjó eða vegur í gegnum Enni, séu fjarlægir möguleikar.

En þegar rætt er um Ólafsvíkurenni og veginn um Ólafsvíkurenni tel ég ástæðu til þess að nefna hér aðra leið að Hellissandi en um Ólafsvíkurenni. Er nauðsynlegt að unnið sé að því, um leið og verið er að gera rannsóknir á, hvað best er að gera í Enni og stefnt að því að gera þann veg sem öruggastan, að athuga leiðina fyrir Jökul. Ég legg áherslu á að í þeirri vegáætlun sem nú er verið að undirbúa verði ætlað allverulegt fjármagn til þess að gera þann veg miklu betri en nú er. Sérstaklega er þar um að ræða að koma veginum upp úr snjó. Hreppsnefndin í Breiðuvikurhreppi og hreppsnefndin í Neshreppi hafa lagt á þetta mikla áherslu og leggja á það enn þunga áherslu að tekinn verði fyrir góður áfangi í þeim vegi til þess að tryggja umferð fyrir Jökul við þær aðstæður að Enni er lokað. Mér sýnist samkv. þeim upplýsingum, sem hér hafa komið fram að það sé fjarlægt að búast við að kominn verði öruggur vegur um Ólafsvíkurenni. Á þeim tíma förum við fram á að Vegagerðin eða ríkið sjái um að vegur að Hellissandi verði ekki eins hættubundinn og nú er, þegar ekki er um aðra leiða að ræða en fara undir Enni, og vegurinn fyrir Jökul verði endurbyggður. Aðallega er þar um að ræða að koma honum upp úr snjó. Sú vegagerð þjónar jafnframt því að tryggja byggð í Breiðuvíkurhreppi og halda uppi samgöngum við þá sveit, sem er eini hreppurinn á Snæfellsnesi sem nýtur ekki þeirrar þjónustu að ríkið annist þar snjómokstur.