17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (3055)

233. mál, fjármagn til yfirbyggingar vega

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í senn þakka fyrirspyrjanda og hæstv. samgrh. fyrir svör við þessari fsp., sem vissulega snertir afskekktasta byggðarlagið í Norðurlandskjördæmi eystra þar sem eru Ólafsfirðingar sem búa við mikla nauð í samgöngumálum. Ég hlýt að vekja athygli á því, að þar eru erfiðleikarnir ekki fyrst og fremst í tengslum við snjóflóðahættu, heldur er vegurinn fyrir Ólafsfjarðarmúla lífshættulegur á sumri sem vetri. Þarna hafa orðið hörmuleg slys af völdum grjóthruns.

Af hálfu þm. Norðurl. e. hefur þrásinnis verið um það rætt að freista þess að útvega fé til að tryggja veginn fyrir Ólafsfjarðarmúla utan fjárlaga og utan vegáætlunar að reyna að knýja fram að þetta verkefni verði tekið sérstaklega fyrir. Þá höfum við að sjálfsögðu hugsað til þeirra Bolvíkinga, — ekki þarfar fyrir reglulegar heimsóknir tveggja Matthíasa, heldur vegna þess að þar eru aðstæður ákaflega svipaðar. Vegurinn fyrir Óshlið er torveldur með svipuðum hætti og hættulegur eins og vegurinn fyrir Ólafsfjarðarmúla.

Ég leyfði mér að kalla fram í fyrir hæstv. samgrh. þegar hann nefndi þarna vegsvalir. Það var ekki af orðhengilshætti, heldur vegna þess að ég tel ákaflega mikilvægt að hugmyndirnar til úrbóta séu nefndar nokkurn veginn réttum nöfnum til þess að menn geri sér ljósari grein fyrir þeim verkfræðilegu og fjárhagslegu viðfangsefnum sem þarna eru á döfinni. Svalir eru sambærilegar við þann pall sem hæstv. ráðh. gengi og mun ganga fram á til þess að láta lýðinn hylla sig eftir afreksverk á sviði stjórnmálanna, en þekjur eru aftur á móti til þess fallnar að hlífa fyrir því sem að ofan kemur úr loftinu. Sessunautur minn, hv. þm. Tryggvi Gunnarsson, skaut nú að mér enn heppilegra og réttara heiti yfir það fyrirbæri sem hér er verið að hugsa um. Þar gætu verið vegupsir sem slúta fram yfir veginn.

Þau ár, sem ég hef átt sæti á þingi, hafa vegagerðarmenn verið að impra á þeim möguleika að hlífa vegunum á þennan hátt, vernda vegfarendur fyrir grjóthruni og snjóflóðum með þeim hætti að setja traustar þekjur eða upsir yfir vegi á hættulegustu stöðunum. Um þetta hefur verið rætt þessi ár og því miður er mér ekki kunnugt um að tilraunir séu hafnar nú þegar með gildi ráðstafana af þessu tagi. Umhugsunartíminn og aðdragandinn er orðinn býsna langur. Ég hlýt nú að taka undir með hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánssyni þegar hann hvatti til þess, að nú yrði hin andlega atlaga að þessu viðfangsefni stytt og tekin ákvörðun um hvenær hafist skuli handa.

Ég hef gilda ástæðu til þess að ætla það, að við Íslendingar höfum verið heldur afturhaldssamir og huglitlir þegar við höfum rætt um möguleika til þess að komast með vegina okkar í gegnum fjöll. Þær tilraunir, sem hér hafa verið gerðar, og þær litlu framkvæmdir sem hér hafa átt sér stað í gerð jarðganga hafa verið að fremur litlum efnum og í lítið lagt. Vegagerðarmenn upplýsa okkur um það, að við gætum fengið það sem þeir kalla „stóra borinn“, og taka raunar þar kafla úr sögunni frægu um Búkollu, þar sem stóra skessan sendir litlu skessuna heim eftir stóra bornum hans föður síns til þess að komast í gegnum fjall. Nú eru borar af þessari tegund til og í notkun annars staðar við gerð á jarðgöngum. Þá er við það miðað að þurfa ekki endilega að sneiða fjallaxlir eða eggjar, þar sem okkar lausagrjót er síst til þess fallið að gera göng í gegnum fjöllin, heldur hægt að komast með skemmri tíma í gegnum hin þéttari berglög. Það er býsna dýrt fyrirtæki að fá slíkan bor til landsins og nota hann hérna, en ég hygg að það væri vel ef yfirmenn samgöngumála huguðu að því, að verkefni eru miklu fleiri hér á landi en þessi þrjú — verkefni fyrir slík tæki til þess að gera með jarðgöng. Það væri vel ef gerð væri áætlun um að nýta slíkan bor til að bæta vegakerfi okkar á miklu fleiri stöðum en þar sem brýn lífshætta kallar á slíkar framkvæmdir.

En ég ítreka það, að ég er þeirrar skoðunar að við hljótum að taka út úr þessi þrjú verkefni, a. m. k. lagningu á öruggum vegi fyrir Ólafsfjarðarmúla, og verða okkur úti um sérstakar fjárveitingar til að geta gengið í þessi verkefni hið allra fyrsta og á sem myndarlegastan hátt.