17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2924 í B-deild Alþingistíðinda. (3057)

233. mál, fjármagn til yfirbyggingar vega

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í svari mínu áðan notaði ég orðið vegsvalir. — Ég veit ekki hvort hv. þm. má vera að því að hlusta á mig, ég skal bíða þangað til hann er tilbúinn. — Hv. þm. Stefán Jónsson gerði aths. við notkun á orðinu vegsvalir. Það er rétt að ég notaði það, en ég sagði jafnframt „yfirbygging vega“ til að vera alveg öruggur um að hv. þm. skildi við hvað væri átt. Vegagerðin notar gjarnan orðið vegsvalir og hins vegar stundum vegþekju, en það er áreiðanlega þarft að finna í þessu gott heiti sem allir skilja. Ekki er ég að amast við því.

Út af því, sem hefur verið sagt um framkvæmdir í ár, ætla ég ekki að vera með yfirboð. En staðreyndin er sú t. d., að við þm. í Vestfjarðakjördæmi höfum ekki treyst okkur til að taka Óshlíðina fram fyrir t. d. Steingrímsfjarðarheiðina sem sérverkefni. Við höfum raðað þar sérverkefnum þannig að Önundarfjarðarbrúin var fyrst, síðan Steingrímsfjarðarheiðin og þá gæti fyrst komið að Óshlíðinni eða veg yfir eða í gegnum Breiðadalsheiði. Nú er ljóst að þessi verkefni taka mjög langan tíma, og mér er ekki kunnugt um að það hafi verið neinn ágreiningur um það t. d. í okkar kjördæmi. — Og ég veit ekki heldur til þess að þm. Norðurl. e. hafi sett Ólafsfjarðarmúla fremst í sín sérverkefni. Þar er önnur mjög stór sérverkefni á undan ákvörðun þm. sjálfra, þ. e. Víkurskarðið og vegurinn yfir Eyjafjarðarleirur. (StJ: Ég átti við það að þetta væri tekið út af vegáætlun.) Ég kem að því.

Þegar mér var ljóst, að þessir hættulegu staðir, eins og t. d. Ólafsvíkurenni, yrðu ekki lagfærðir fyrr en mjög seint meðal sérverkefnaflokksins í vegáætlun, bað ég Vegagerðina 26. jan. s. l. að gefa mér yfirlit yfir hvað þetta mundi kosta og jafnframt hvernig framkvæma mætti það utan hinnar almennu fjáröflunar til vegáætlunar.

Á þeim tíma var búið að ganga frá fjárl., búið að ganga frá því, hvað færi til vegamála, búið að ganga frá ramma að lánsfjáráætlun, svo að ég vil alls ekki vera að gefa undir fótinn með að unnt sé að taka þetta til viðbótar á árinu 1981 eftir að gengið var frá þeim þáttum. Auk þess veit ég bókstaflega ekki hvað þarf mikið til þess að ná áfanga af viti. Ég nefndi áðan að það er talað um að lausn við Ólafsfjarðarmúla kosti 70–140 millj., vegsvalir ef ég man rétt. Þá er hver metri í þeim talinn kosta 2300–2400 nýkr. Hér er því verið að tala um gífurlega upphæð.

Út af því, sem hv. þm. Skúli Alexandersson sagði áðan um Ólafsvíkurenni, er þess að geta að fram kom í viðræðum, sem ég átti við Vegagerðina, að í Ólafsvíkurenni falla svo gífurlega miklar aurskriður að vegsvalir, vegþekja eða yfirbygging, hvað sem menn vilja kalla það, þyrfti að hafa margfaldan styrkleik borið saman við snjóflóð t. d. í Óshlíð. Því kynnu slíkar framkvæmdir þar að vera mjög kostnaðarsamar. Það er af þeirri ástæðu sem mér hefur skilist á Vegagerðinni að hún vildi skoða aðra lausn þar.

Því miður eru Ólafsvíkurenni og Ólafsfjarðarmúli ekki lengra komin í tillögugerð frá Vegagerðinni. En það er áreiðanlega rétt, sem hefur komið fram bæði hjá mér og hv. þm. Karvel Pálmasyni, að Óshlíðin er líklega einna lengst komin með tillögur til lausnar á þeim vanda sem þar er.