04.11.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

9. mál, iðnaður á Vesturlandi

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. alþm. fyrir undirtektir í sambandi við þetta mál sem ég vona að verði til þess að það fái nú greiðan gang í gegnum hv. Alþ. Á því er full þörf.

Það hefði mátt segja margt og miklu meira um þá möguleika, sem eru fyrir hendi á Vesturlandi, og eins um það vandræðaástand, sem að mínu mati ríkir í sambandi við iðnaðaruppbyggingu okkar hér á landi og ekki hvað síst í sambandi við iðnað í landinu almennt. Og ég vil sérstaklega taka undir með síðasta hv. ræðumanni, 2. þm. Reykv., að það er ótrúlegt að við skulum standa í þeim sporum í dag, þrátt fyrir allar umr. á undanförnum árum, þrátt fyrir öll þau sterku rök sem fram hafa verið sett fyrir nauðsyn þess að byggja upp iðnað á Íslandi, — að við skulum standa enn í dag í þeim sporum, að það er ekki til samræmd iðnaðarstefna í okkar landi.

Við höfum sannarlega átt því láni að fagna, ef má orða það svo, að okkar höfuðatvinnuvegir, sjávarútvegur og landbúnaður, hafa staðið undir atvinnuuppbyggingu liðinna ára að mestu leyti. Við getum einnig státað af því, að við höfum mjög mikla framleiðni í sjávarútvegi sérstaklega og þar eru enn vaxandi möguleikar til fullnýtingar á sjávarfangi. Um þetta hefur verið mjög mikil samstaða meðal þjóðarinnar og menn hafa lagt sig fram um það að ná árangri á þessu sviði. Og þar er vonandi bjart fram undan. Samt sem áður verður ekki undan því skotist, að við höfum sofið á verðinum eins og kom fram í sambandi við uppbyggingu iðnaðar í landinu.

Ég vil aðeins nota þetta tækifæri enn á ný til þess að skora á hv. alþm. og fyrst og fremst þá hæstv. ríkisstj. — því miður eru allir ráðh. farnir — að láta nú hendur standa fram úr ermum og leggja fram sem allra fyrst tillögur um iðnaðarstefnu fyrir þjóð okkar. Ég tel, að það sé mjög mikilvægt, og ég vonast til þess, að á því verði ekki löng bið úr þessu.

Ég vil svo þakka á ný undirtektir og vonast til þess, að þessi till. okkar nái fram að ganga sem allra fyrst.