17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2933 í B-deild Alþingistíðinda. (3067)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég sakna þess mjög að hafa ekki verið viðstaddur í dag þegar hæstv. forsrh. fékk málið. En mér kom það satt að segja svo á óvart, að hann ætlaði sér að svara spurningum, að ég átti ekki von á því. Annars, eftir þeim spurnum sem ég hef haft af ummælum hæstv. forseta hér á fundi áður, skilst mér að hann hafi verið reiðubúinn að svara fsp. er ég bar fram með þinglegum hætti fyrir allnokkru. Á fyrirspurnatímum Alþingis síðan hef ég m. a. verið veikur eða veðurtepptur norður í landi, en alla aðra þriðjudaga hef ég verið hér mættur. Ég man ekki hvort ég hef verið fjarverandi tvisvar eða þrisvar, en alla aðra þriðjudaga hef ég verið hér mættur og mér hefur ekki verið gefinn kostur á að bera fsp. mína fram. Á hinn bóginn stóð svo á í dag, að það varð misskilningur á milli mín og forseta þar sem hann sagði mér að ég mundi ekki komast að í dag og átti þá við þennan síðari fund þar sem fyrir liggur þáltill. sem ég átti að mæla fyrir. Tók ég það sem svo, að mér gæfist hvorki kostur á að mæla fyrir fsp.þáltill.

Þarna var sem sagt um misskilning að ræða.

Um hitt var hæstv. forsrh. fullvel kunnugt, að ég kvaddi mér hljóðs í þessari umr., sem nú fer fram, vegna þess að hann svaraði ekki fsp. sem til hans var beint á fundi þingsins um hvort einhver leynisamningur hefði verið gerður á bak við hæstv. utanrrh. þess efnis, að Alþb. hefði neitunarvald varðandi framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Og þetta er auðvitað kjarni málsins. Það skiptir miklu meira máli, hvort þvílíkur leynisamningur hafi verið gerður, en þótt smávegis misskilningur hafi orðið milli mín og hæstv. forseta. Og úr því að hæstv. forsrh. var nú á svarskónum í dag hefði hann átt að manna sig upp og reyna að svara einhverju um þetta atriði.

Nú má auðvitað segja að það skipti ekki máli, ríkisstjórnir geti haft svo og svo marga leynisamninga. — Ég tók eftir því, að hæstv. landbrh. kvaddi sér hljóðs áðan, væntanlega til að svara þessu atriði, hvort honum sé kunnugt um leynisamninginn. — Það má auðvitað segja að aðra varði ekki um þvílíka samninga. Og þó, ef marka má yfirlýsingar utanrrh. í blöðum hvað eftir annað hefur komið fram að hann þykist einfær um að fara með embætti utanrrh., og ef marka má röggsemi hans oft og tíðum áður, þegar honum hefur fundist yfir sig gengið, má ætla einnig í þetta skipti að hann muni reiðubúinn að gefa skýrleg svör, og ég veit að hann mun gera það.

Ég vil svo ítreka þær fsp., sem hv. 5. landsk: þm. bar hér fram, og harma að ég skyldi hafa verið fjarverandi þessa stuttu stund sem hæstv. forsrh. var reiðubúinn að svara beinum spurningum.