17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2935 í B-deild Alþingistíðinda. (3070)

Umræður utan dagskrár

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa því yfir, að mér finnast þetta öðrum þræði allsérkennilegar umr. Hins vegar ætti ég kannske að byrja á því að þakka það traust sem hv. þm. Eyjólfur Konráð sýnir okkur sumum hverjum óbreyttum þm. Hins vegar er það oft og tíðum hæpið að draga menn í dilka á opinberum vettvangi. Það er ekki víst að það sé alltaf heppilegt.

Hæstv. utanrrh. hefur nú skýrt frá ýmsum atriðum þessa máls og að mínum dómi er það raunar að bera í bakkafullan lækinn að bæta þar við. Ég tel mér þó skylt að greina frá viðhorfum mínum til þessa máls.

Ég hef aldrei vitað til þess, eftir að núverandi stjórnarsamstarf kom til sögunnar, að um væri að ræða nokkuð það sem mætti kalla leynisamning um eitt eða neitt, — a. m. k. ekki að því leytinu að okkur stafaði einhver hætta af slíkum samningum. Það liggur alveg ljóst fyrir, enda getum við ekki reiknað með því, að núv. hæstv. ráðh. okkar séu slík börn að gera samninga á bak okkur hinum almennu þm. Við vitum það allir að við erum bundnir sannfæringu okkar einni saman og engu öðru. Því væri ekkert um það að ræða að koma í bakið á okkur.

Ég vil jafnframt segja það, að ef til hefði komið vitneskja um einhverja leynisamninga er alveg ljóst, a. m. k. að því er varðar mig, að ég hefði ekki látið undir höfuð leggjast að bregðast við því með réttum hætti. En ég enda þessa tölu á þann veg, að ég veit ekki til þess að um sé að ræða neitt leynimakk eða neina leynisamninga að því er varðar þetta stjórnarsamstarf. Stjórnarsáttmálinn er okkur öllum kunnur. Hann er opinbert plagg. Hann getum við lesið. Það kann að vera að ýmislegt þar megi túlka á fleiri en einn veg, en um pólitíska kúgun verður ekki að ræða vegna leynisamninga sem ekki eru til.