17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2938 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

Umræður utan dagskrár

Jón Helgason:

Herra forseti. Það var beint spurningum til mín áðan og ég skal reyna að svara þeim. Að vísu er mér ekki alveg ljóst um hvað þarna er verið að spyrja, og ég mun ekki geta gefið skýrari svör en t. d. hæstv. utanrrh. gaf. Ég vil að mestu leyti vísa í hans svar. (EKJ: Fyrirgefðu. Hann talaði eingöngu um utanríkismál. Ég spurði um hvort leynisamningurinn héti eitthvað.) Ég hef engan leynisamning í höndum og get þess vegna ekki skýrt frá innihaldi slíks. Ég hef ekkert slíkt sem ég get sagt frá. Mér skilst á þeim ummælum, sem hér hafa farið hjá fyrirspyrjendum og ræðumönnum, að um það sé að ræða að Alþb. hafi verið tryggt neitunarvald á málum í ríkisstj. Ég skil satt að segja ekki almennilega hvernig þetta er hugsað, því að ég held að það sé öllum ljóst, að þessi ríkisstj. styðst ekki við mikinn meiri hl. á Alþingi. Hún má ekki missa stuðning margra þingmanna, hvað þá ráðh. Ef það er eitthvert mál, sem er borið upp í ríkisstj., sem einhver ráðh. vill alls ekki sætta sig við, þá er augljóst að hann hefur stöðvunarvald. Það hafa allir ráðh. möguleika á að segja af sér og hætta að styðja ríkisstj., hvort sem eitthvað væri skrifað á blað um það eða ekki, þannig að vitanlega er það neitunarvald sem menn hafa þannig. Menn geta stöðvað framgang mála. (EKJ: Spurningin er: Er eitthvert samkomulag? Er eitthvað á blaði?) Ég veit það ekki. Ég hef það ekki í höndunum. Ef ég færi að fullyrða eitthvað um það væri það eitthvað sem ég byggi til.

En sem sagt: Þó eitthvað væri á blaði sé ég ekki annað en að það væri það sama og það stöðvunarvald sem er hjá ráðh. hvort sem er eins og hæstv. utanrrh. gaf í skyn áðan. Ef menn sætta sig ekki við eitthvað í ríkisstj., sem styðst við svona lítinn þingmeirihluta, hefur hver ráðh. vitanlega stöðvunarvald.