17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2938 í B-deild Alþingistíðinda. (3074)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er, að mér þykja þessar umr. orðnar hinar furðulegustu. Fyrir nokkrum vikum var spurt spurningar og henni beint til forsrh., félmrh. og mín. Hún fjallaði þá fyrst og fremst um hvort leynisamningur væri til sem takmarkaði ákvarðanavald utanrrh. í varnarmálum. Því var svarað. Það gerði hæstv. forsrh. Ég hafði engu við það svar að bæta. Svarið var rétt. Þetta hefur verið staðfest hér af utanrrh. og af landbrh. Báðir þessir ráðh. hafa sagt nákvæmlega rétt frá þessum málum. Nú er verið að reyna að útvíkka þetta, að því er mér skilst, og mér m. a. borið á brýn að ég hafi gert samkomulag ásamt öðrum formönnum flokkanna sem aðrir í ríkisstj. vita ekki um. Ég vil taka það skýrt fram, að það er ekki til neitt slíkt samkomulag — alls ekkert.

Hér kemur hv. 3. þm. Vestf. upp og upplýsir að sér hafi tekist að kíkja yfir öxlina á fjmrh. og mér og séð eitthvert blað ganga á milli okkar. Þetta eru hinar furðulegustu njósnir. Þetta fer nú að nálgast Watergate, ég verð að viðurkenna það.

Hér var svo spurt að því, hvort við hefðum þrír gert samkomulag sem aðrir vissu ekki um. Það er alrangt. Ekkert slíkt samkomulag er til.

Svo var verið að spyrja að því áðan, hvort ríkisstj. hefði sett sér einhverjar starfsreglur. Vitanlega hefur hún gert það. Hafa ekki allar ríkisstj. gert það? Til dæmis: Er það eitthvert leyndarmál, að samkomulag er um að forsrh. noti ekki þingrofsrétt einn? Er það einhver leynisamningur?

Ég hef setið í tveimur ríkisstjórnum. Í þeirri fyrri voru mál stundum afgreidd með atkvæðum. Ég vil segja fyrir mitt leyti að það tókst ekki vel. Menn voru hlaupandi út um hvippinn og hvappinn til að gera grein fyrir atkvæðum sínum í fjölmiðlum. Ég vil fyrir mitt leyti forðast að mál verði afgreidd þannig í þessari ríkisstj. Er það eitthvað illt, eitthvað sem varðar þjóðarheill?

Ég vísa til þess, sem hæstv. utanrrh, sagði áðan um réttindi og skyldur ráðh. samkvæmt stjórnarskrá. Því er að sjálfsögðu fylgt. Ég vil taka það skýrt fram, að það er ekki til neinn samningur, a. m. k. sem ég veit um, nema einhverjir aðrir hafi gert hann, a. m. k. enginn samningur sem ég hef undirskrifað, um að mér beri að leggja t. d. sjávarútvegsmál yfirleitt fyrir ríkisstj. Hann er ekki til. Ég hef ekki undirskrifað slíkan samning.

Ég vel að sjálfsögðu hvaða mál í sjávarútvegi ég legg fyrir ríkisstj. vegna þess að ég vil hafa samstöðu um mikilvægustu málin. Mér dettur ekki í hug annað en að leita samkomulags í ríkisstj. t. d. um hvernig oddamaður við fiskverðsákvörðun beiti atkvæði sínu — það held ég að fyrri sjútvrh. hafi einnig gert, a. m. k. þeir sem ég þekki til, — eða um almenna stefnu í fiskveiðimálum eða t. d., svo að ég nefni fleira, aflakvóta í þorskveiðum. Þetta met ég sjálfur vegna þess að ég tel grundvallarskilyrði fyrir góðu samstarfi í ríkisstj. að um þessi mál sé samstaða. Þarf þetta að vera einhver leynisamningur?

Ég verð að segja það, að mér finnst þetta orðinn hinn mesti farsi. Vitanlega ákveður utanrrh. sjálfur hvort og þá hvaða mál hann telur nauðsynlegt, ef þau eru einhver, að ræða í ríkisstj. Um það hefur að vísu skapast hefð sem er nokkuð önnur en um aðra ráðh. Varnarmál hafa yfirleitt, að því er mér er tjáð, ekki verið rædd í ríkisstjórnum og ekkert frekar í þessari en annarri ríkisstj. sem ég hef setið í. Um einstaka fagráðherra hefur hins vegar skapast fremur sú hefð, að mikilvæg atriði í ráðuneytum þeirra eru rædd í ríkisstj. Mál þar þurfa fremur en mál utanrrh. að fá atfylgi á Alþingi og því nauðsynlegt að tryggja að allir flokkar, sem að ríkisstj. standa, standi saman um þau. Þetta hefur eflaust ráðið mjög hvernig að þessum málum er unnið.

Nei, í þessari ríkisstj, er fullkomin eining um að leysa mál eins og frekast er unnt með einingu, með samstöðu, en ekki hefja um þau opinberar deilur. Við getum kannske sagt að það sé vegna þess að ríkisstj. hefur ekki þann meiri hluta á þingi að hún hafi efni á slíku. Við getum kannske skýrt það þannig. En ég tek undir það, sem hæstv. utanrrh. sagði, að vitanlega verður hver ráðh. að meta fyrir sig hvort hann fær það fylgi við sín mál að hann geti við það unað.

Svo get ég ekki séð að ég hafi fleira um þetta furðulega mál að segja.