17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2940 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og allir þm. vita er þröngt setinn bekkurinn í þessum litla sal þegar sitja hér 50 þm. og 10 ráðh., og eins og við stöndum hér og sitjum er miklu líklegra, að hæstv. sjútvrh. gæti kíkt yfir öxlina á mér, enda situr hann fyrir aftan mig þar sem ég stend í ræðustól, fremur en ég gæti kíkt yfir öxlina á honum.

Ég varð einfaldlega áhorfandi að því ásamt fleiri hv. þm., þegar þessi mál voru rædd fyrir nokkrum dögum og hvað harðast gengið eftir því, hvort slíkt samkomulag á milli formanna flokka væri til, að þá fór hæstv. fjmrh. í tösku sína og sótti þangað lítið blað með undirskriftum þriggja nafnkenndra manna og sýndi blaðið hv. formanni Framsfl., sem mér fannst nú ekkert bregðast sérstaklega vel við því skjali. Ég spurði bæði hv. formann Alþb. og hæstv. fjmrh. hvort þetta væri hið margumtalaða samkomulag. Þeir hafa hvorugir svarað því neinu, hvorki játandi né neitandi, en báðir glott í kampinn með svipuðum hætti og hæstv. félmrh. gerði rétt í þessu og gerir nú.

Ég ítreka það, að hér hefur verið komið fram og sagt og margoft tekið af hæstv. sjútvrh. og öðrum ráðherrum, að það ríkir samkomulag í ríkisstj. um að hæstv. forsrh. beiti ekki þingrofsvaldi sínu nema allir aðilar ríkisstj. standi að þeirri ákvörðun. Vel má vera að það samkomulag sé skriflegt eða þá munnlegt, um það veit ég ekki.

Ég leyfi mér að ítreka fsp. mína, sem ég bar fram áðan. Ég hef ekki spurt um sérstakt samkomulag um einhverja afmarkaða málaflokka. Ég hef spurt þeirrar einföldu spurningar, hvort samkomulag hafi verið gert milli forsvarsmanna þeirra afla sem standa að núv. ríkisstj., hæstv. forsrh. og formanna tveggja stjórnarflokkanna, Alþb. og Framsfl., um að mál verði ekki látið fram ganga í ríkisstj. ef einn aðili ríkisstj. beitir sér alfarið gegn því. Það er auðvitað alveg ljóst að slíkur málatilbúnaður gæti, eins og mál eru í pottinn búin, ekki verið nema á einu sviði, þ. e. á sviði utanríkismála. Þetta er mjög einföld spurning sem ég ber fram í annað skiptið: Er samkomulag um það eða hefur það verið gert af hálfu forsvarsmanna þeirra afla, sem að ríkisstj. standa, að mál verði ekki látin ganga fram ef einn flokkurinn, sem á aðild að ríkisstj., beitir sér alfarið gegn því? Ef slíkt almennt samkomulag hefur verið gert þýðir það að Alþb. hefur neitunarvald gegn hvaða framkvæmdum sem hæstv. utanrrh. hefði í hyggju að beita sér fyrir í sínu rn. En e. t. v. er þetta deila um keisarans skegg eftir að hæstv. utanrrh. hefur upplýst það sjálfur, að jafnvel þótt slíkt samkomulag kunni að vera til, sem hæstv. ráðh. augsýnilega veit ekki um, muni hann ekki láta það hafa nein áhrif á gerðir sínar í því rn. sem hann veitir forstöðu. Það er auðvitað mergurinn málsins.