17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (3080)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í raun og veru hef ég engu við það að bæta sem ég sagði áðan, en vegna margendurtekinna óska frá hv. þm. Eyjólfi Konráð skal ég draga saman það sem ég sagði áðan.

Í fyrsta lagi upplýsti ég, sem ég hygg að allar ríkisstjórnir hafi gert, að við höfum gert okkur starfsreglur. Sé ég ekki að það sé leyndarmál. Hins vegar dettur mér ekki í hug að fara að rekja hér þá starfshætti sem ráðherrar í þessari ríkisstj. hafa sett sér eða hvort það er skriflegt eða bókað í fundargerðabókum ríkisstj. eða munnlegt. Við höfum sett okkur að leysa ágreining eins og frekast er unnt. Við höfum t. d. tíðkað það mjög að setja þriggja manna ráðherranefndir í mál. Er eitthvað ljótt við það — eða tíða fundi einstakra ráðh. um mál sem viðkvæm eru og menn vilja leysa? Ég sé ekki að það sé mál sem hv. þm. geti krafið mig eða aðra upplýsinga um.

En hvað hefur staðið á þessu svokallaða leyniplaggi sem fór á milli mín og fjmrh? Best er að spyrja hv. 3. þm. Vestf. um það. Aðalatriðið í þessum umr. öllum er vitanlega það, að engar reglur hafa verið settar sem takmarka réttindi og skyldur ráðherra frá því sem stjórnarskrá og lög gera ráð fyrir. Það er vitanlega aðalatriði málsins. Margupplýst er með svörum allra þeirra ráðherra, sem hér hafa staðið upp, að svo er og það er aðalatriði málsins. Ef þarna væri um eitthvað að ræða sem takmarkaði réttindi og skyldur ráðh. umfram það hefðu þm. ástæðu til að krefjast slíkra upplýsinga, en ekki er um það að ræða.

Ég hef einnig svarað því sem kom fram áðan og byggðist á einhverjum misskilningi og vangaveltum, að formenn flokkanna, þ. á m. ég, hefðu gert eitthvert samkomulag, jafnvel þó það væri bara um starfsreglur, sem væri fram hjá öðrum ráðherrum gert. Það er alrangt. Ekkert slíkt er til. Þetta er kjarni málsins og ég fæ ekki betur séð en þeim spurningum, sem hér hafa komið fram, sé fyllilega svarað.