17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2950 í B-deild Alþingistíðinda. (3085)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst athyglisverðast við þessar umr., sem nú eru búnar að standa á þriðja klukkutíma og fjalla um utanríkismál að verulegu leyti, að enginn af hv. þm. Alþb. hefur opnað hér munn öðruvísi en að gjamma fram í. Það hefði einhvern tíma þótt tíðindum sæta að hér á Alþingi stæðu yfir umr. utan dagskrár um utanríkis- og varnarmál án þess að einn einasti þm. úr Alþb. treysti sér til að koma upp í ræðustól og tala um þau mál. Hvað er nú um allar stóru yfirlýsingarnar, öll stóru orðin utan þingsala um þessi mál? Hvað er með allar stóru yfirlýsingarnar í Þjóðviljanum um þessi mál? Af hverju þora þessir hv. þm. ekki í umræðum í dag á Alþingi að opna munn til að segja eitt einasta orð um þessi mál hér? (EJK: Þeir eru hræddir um stólana.) Skyldi það vera vegna þess að fyrir dyrum stendur, að því er mér er tjáð, á morgun skoðunarferð af hálfu utanríkismálanefndar Alþingis á Keflavíkurflugvöll. Ætli það sé svo, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., vilji ekki, daginn áður en hann fer í slíka ferð, segja of mikið hér á Alþingi um þessi mál? (Félmrh.: Skyldi ekki vera?) Skyldi það vera að svo væri? Ég heyri það að hæstv. félmrh. hyggur að svo sé. Og líklega þekkir hann betur innviði þingmannsins Ólafs Ragnars Grímssonar en ég. (FrS: Oj bara.) Já, oj bara, segir hv. þm. Friðrik Sophusson.

Það skyldi nú ekki vera að með þessari þögn séu þm. Alþb. að búa betur í haginn, svo þeir geti kyngt enn þá meira en þeir hafa gert til þessa, með því að þegja hér þunnu hljóði daginn áður en þeir taka sér reisu til Keflavíkurflugvallar til að skoða þar mannvirki ásamt, að ég hygg, góðum veitingum á þeim góða bæ. (Gripið fram í.) Það skyldi ekki vera að þetta væri a. m. k. meðal annars ástæðan fyrir því kjarkleysi og þeim eymdarskap sem þessir hv. þm. sýna í umr. á Alþingi um þetta mál.

Mig langar til að spyrja hæstv. félmrh., formann Alþb., og hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, formann þingflokks Alþb., hvort þeir séu sammála hæstv. utanrrh. í því að hann hafi óskorað vald til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli, eins og hann hefur lýst yfir að hann teldi sig hafa. Eru þessir hv. þm. sammála þessari túlkun hæstv. utanrrh. um þessi málefni? Ég skora á þessa hv. þm. að koma hér upp í ræðustól til að segja skýrt og skorinort hvort þeir séu sammála þessari túlkun eða ekki. Hafi þeir ekki kjark til að gera það verður að líta svo á að þögn sé sama og samþykki.