04.11.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

48. mál, jarðhitaleit á Vestfjörðum

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil koma hér til þess að lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. En ég get ekki stillt mig um að harma það, að þegar þessar umræður um iðnaðarmál og jarðhitamál fara fram skuli vera svo ástatt hér á hv. Alþ., að hvorki er hér mikill fjöldi þingmanna né heldur — og það er kannske aðalatriðið — hefur hæstv. iðnrh. haft möguleika til að vera hér og taka þátt í þessum umræðum. Þetta mál, sem hér er nú til umræðu, þessi þáltill. um jarðhitaleit á Vestfjörðum gæfi einmitt ástæðu til þess að fá að ræða við hæstv. iðnrh. sem stýrir þessum mikilvægu málum.

Um leið og ég tek undir það, sem fram kemur í þessari þáltill., vil ég nota tækifærið til að minna á þann gífurlega vanda sem við blasir viða um land varðandi þetta atriði sem hér er minnst á. Ég tel það ákaflega slæmt, þegar augu allra beinast að því að stuðla að framkvæmdum eða ráðstöfunum til þess að nýta innlenda orku og draga úr hinum mikla kostnaði af erlendum orkugjöfum, sem við verðum að flytja inn í landið, að þá skuli ekki vera hægt að stíga markvissari spor í þá átt að reyna að stuðla að því að jarðhitaleit og rannsóknir á jarðhita verði virkari en nú gerist.

Ég get ekki stillt mig um að segja frá því, að eins og á Vestfjörðum erum við, sem eigum heima á Snæfellsnesi, á svokölluðum köldum svæðum, eins og jarðfræðingar gjarnan hafa sagt á undanförnum árum. Samt sem áður var gerð þar jarðhitaleit að frumkvæði sveitarfélaga á þessu svæði. Voru boraðar fimm hitastigulsholur á svæðinu frá Stykkishólmi að Ólafsvík. Allar þessar holur eru jákvæðar að því leyti, að þær sýna nægjanlegt hitastig eða frá 105 og upp í 115°C/km, sem er talið alveg fullnægjandi sem jarðhitalíkur. Hins vegar skortir á að vita hvar hitinn liggur á þessu svæði, hvort hann er virkjanlegur og hvernig. Um þetta hefur verið beðið nú í nokkur ár og raunar verið reiknað með því á hverju ári allt frá árinu 1978, að úr þessu fengist skorið.

Því miður hefur ekki orðið úr þessari sjálfsögðu borun. Ég vil minna á það hér í leiðinni, og það hefði verið ástæða til að ræða það mál á breiðum grundvelli við hæstv. ráðh., að Orkustofnun og ekki síst Rafmagnsveitur ríkisins hafa gjarnan viljað fara inn á þá braut, að í staðinn fyrir jarðborun á þessum óvissusvæðum, sem þeir vilja meina að séu, væri farið inn á fjarvarmaveitur, þ.e. að nýta raforkuna til þess að hita upp þessi svæði. Það hefur verið byrjað á þessu á Austfjörðum og raunar á Ísafirði einnig, og komin er fjarvarmaveita á Höfn í Hornafirði og verið að vinna að fjarvarmaveitu á Seyðisfirði og undirbúningi víðar á Austfjörðum. Á sama hátt hefur verið stuðlað að undirbúningi á Snæfellsnesi fyrir þéttbýlið þar.

Þetta er mál sem þarf að ræða, ekki hvað síst vegna þess, að við höfum ekki fengið fram ákveðna stefnu í orkuverði. Á Höfn í Hornafirði er búið að gera samning um orkuverð sem er nokkuð hagstætt miðað við olíu- og rafmagnsverð, en það er alger óvissa um framhaldið bæði á Seyðisfirði og á Neskaupstað, og svo aftur á Snæfellsnesi. Það eru ný viðhorf komin fram, og liggja nú fyrir, þannig að RARIK vill hækka þetta grunnverð, sem veldur miklu meiri óvissu í sambandi við hagkvæmni fjarvarmaveitnanna. Þetta er atriði sem ég tel að við alþm. þurfum að sameinast um, að reyna að ná fram meiri stefnumörkun um þetta nú á yfirstandandi þingi, bæði að sameinast um það að fá fjármagn til nauðsynlegra rannsókna, jarðborana í grennd við þéttbýlið sem hér hefur verið nefnt, og til þess þurfum við sjálfsagt að krukka í fjárlögin. Að vísu hefur Orkustofnun enn ekki sundurliðað það áform sem hún stefnir að í fjárlögum ársins 1981, en alla vega geri ég mér fulla grein fyrir því, að það fjármagn, sem þar liggur fyrir dugir hvergi nærri til þeirra nauðsynlegu borana sem ég hef hér minnst á og raunar kom fram hjá hv. frsm. þessarar tillögu.

Hér er mikið í húfi. Ég vil minna á það t.d., að á þéttbýlisstöðunum á Snæfellsnesi, sem að þessum jákvæðu hitastigulsholum liggja, eru um 3500 íbúar.

Ég vonast til þess, að hæstv. iðnrh. fregni þessar umræður hér og hann leggi því lið, að rannsakaðir verði til hlítar möguleikar á því að auka jarðhitaleit og jarðhitaboranir á árinu 1981, bæði á því svæði, sem hv. frsm. minntist hér á, og einnig á því svæði, sem ég hef nefnt og við höfum reyndar fullt loforð fyrir a.m.k. s.l. tvö ár.

Þetta er mikið mál sem ég tel að megi ekki gleymast í umræðum um fjárhagsvanda almennt. Þetta er þýðingarmikill þáttur í orkumálum og í þeim áformum, sem allir eru sammála um, að reyna að nýta vel þá innlendu orku sem fyrir hendi er, til þess að spara þann gjaldeyri sem við verðum að eyða í innflutta erlenda orku.