18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2956 í B-deild Alþingistíðinda. (3095)

256. mál, vegarstæði milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs

Sveinn Jónsson:

Herra forseti. Hér er að mínu mati á ferðinni till. sem vart getur flokkast undir þingkjaftæði. Mér er nær að halda að hér séu margar till. fluttar sem eru meira kjaftæði en þetta. En það, sem flm. benti réttilega á, er hversu brýnt það er fyrir Vopnfirðinga og byggðina fyrir norðan Hellisheiði að komast í betra samband við suðurhluta þessa svæðis, sem sagt Fljótsdalshérað fyrir sunnan Hellisheiði — og þá líka norður um þó að þessi till. fjalli ekki sérstaklega um þá leið. En það er tengingin við Fljótsdalshérað sem skiptir gífurlega miklu máli, ekki aðeins fyrir Vopnfirðinga, heldur skiptir líka talsverðu máli fyrir okkur Héraðsbúa að fá þarna tengingu norður um. En að sjálfsögðu er það enn þá mikilvægara fyrir þá Vopnfirðinga, því að við vitum að vel geta þeir tímar komið að hafís leggist að strönd og loki höfnum þar og áfram norður um. Þá gæti verið mikilvægt að eiga möguleika á því að sækja suður um. Sú rannsókn, sem hér er verið að fara fram á, verður að leiða í ljós hvaða leið þarna sé hagkvæmust og best að fara.

Það er rétt sem flm. benti hér á, að það er leiðin fyrir Búr og upp Fagradal og yfir Hellisheiði sem helst hefur verið til athugunar, og það er mjög athyglisvert, að það er ekki meira en 4 km leið sem þar er í meira en 200 m hæð yfir sjó. Leiðin fyrir sjálft Búrið hefur verið talin illfær, en með nútíma sprengitækni er ekki talið dýrt fyrirtæki að gera þar mjög góðan veg. Mér er kunnugt um það, að verkfræðingar Vegagerðar ríkisins á Austurlandi hafa kynnt sér þetta mál fyrst og fremst að eigin frumkvæði. Til þess hafa þeir ekki fengið neinn sérstakan fjárstuðning, en að sjálfsögðu þarf að veita hér fé og taka á þessu máli af alvöru svo að af einhverjum framkvæmdum geti orðið og þetta mál nái fram að ganga.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, en vil lýsa mig fylgjandi þessari till. og lýsa því yfir, að ég tel mikilvægt að hún fái hér jákvæða og skjóta og góða afgreiðslu í þingi.