04.11.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

48. mál, jarðhitaleit á Vestfjörðum

Flm. (Finnbogi Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka undirtektir hv. þm. við þessa þáltill. og þar sem ég verð ekki hér langa hríð í viðbót treysti ég því, að þingið fylgi þessu máli eftir. En það mætti kannske aðeins víkja að því, að þetta er, eins og hv. síðasti ræðumaður orðaði það, angi af miklu stærra máli sem ég tel vera mjög brýnt. Og eins og kom hér fram í umræðum fyrir viku, munu rannsóknarstörf ævinlega þurfa að vera svona 10 árum á undan framkvæmdum eða svo. Ég held því að það sé mjög brýnt, einkanlega eins og stefnir í orkumálum heimsins, eð leggja mjög mikla áherslu á frekari rannsóknir til að nýta auðlindir okkar. Það er ekki nóg að ræða um það á hátíðis- og tyllidögum að við eigum hér gnægð óbeislaðrar orku. Við verðum að takast á við þann vanda og þá ábyrgð sem því fylgir að nýta þessa orku, jafnvel þótt einhverjir aðrir aðilar verði að koma þar til.

Það er svo ósk mín og von, að við Íslendingar getum borið gæfu til að vera þar ævinlega í fararbroddi og með meirihlutaeign í slíkum fyrirtækjum. – Að öðru leyti þakka ég góðar undirtektir.