18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2960 í B-deild Alþingistíðinda. (3100)

256. mál, vegarstæði milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég reyndist forspár um það, er ég kvaddi mér hljóðs, að hæstv. samgrh. mundi gefa tilefni til þess, að ég gerði smáathugasemd við ræðu hans sem síðar kom. Hann kvaðst vera andvígur sérverkefnum í vegagerð á borð við hafísveginn utan vegáætlunar. Og það er náttúrlega mála sannast að ástæðan fyrir því, að þm. Norðurlands eystra og Austfirðinga beittu sér sérstaklega fyrir því, að tekið yrði fyrir það verkefni að tengja með vetrarfærum vegi hafnirnar á Norðausturlandi, var sú að ekki var reiknað á vegáætlunum — þrátt fyrir talsvert langa reynslu — með þeim möguleika að hafís bannaði hafnir á landi hér og torveldaði flutninga. Það var sem sagt mjög svo rökstudd og vitræn ástæða fyrir því að þm. þessara svæða, sem tíðast hafa orðið fyrir því í ellefu aldir að hafís bannaði flutninga, beittu sér fyrir því að þetta verkefni yrði tekið út úr og því flýtt umfram það sem áður hafði verið ráðgert á vegáætlun eða við áætlanir Vegagerðar ríkisins yfirleitt um það, með hvaða hætti vegir yrðu byggðir upp á landi hér.

Ég kannast við Hellisheiði. Þrisvar hef ég gert tilraun til þess í júlímánuði að aka yfir hana á venjulegum fólksbíl, en sæmilega duglegum. Einu sinni hefur mér tekist það. Minnir mig það ekki rétt, hæstv. samgrh., að hæstv. ráðh. hafi ekki sjálfur verið í bílnum sínum þegar hann fór þessa leið, heldur hafi hæstv. ráðh. fengið duglegan bílstjóra til að aka bílnum yfir heiðina? (Gripið fram í : Hvernig fór þá ráðh. ef hann var ekki í bílnum?) Það var ekki vegna þess, hygg ég, að hann hafi ekki treyst sér til að aka þessa leið, hann er duglegur bílstjóri, heldur hafði hann ekki tíma til að fara þá leið, ef mig minnir rétt. En þetta er tröllavegur. Það er hægt að komast hann tvo mánuði á árinu, þegar sæmilega viðrar og ekki er mjög blautt, á öflugum bifreiðum með drifi á öllum hjólum. Á þurrkdögum komast snjallir bílstjórar þetta á venjulegum fólksbílum. Ég hef það fyrir satt að það hafi hvorki verið þm. Austf. né verkfræðingar sem valið hafi þetta vegarstæði forðum, heldur hafi það — svo sem títt hefur við borið við vegarlögn á Íslandi — verið sauðkindin sem leiðina valdi og menn síðan — sem oft ber við í íslenskri sögu — fetað í spor hennar þessa leið.

Það getur varla verið á valdi þm. kjördæmisins að fella úrskurð um það, hvort þessi leið milli Vopnafjarðar og Héraðs sé hin æskilega fyrir vandaða vegagerð. Í þáltill., sem hér um ræðir, er svo ráð fyrir gert að landsstjórnarmönnum verði falið að stuðla að því að hin besta leið verði valin, rannsókn á bestu leið yfir heiðina. Slíkt hlýtur náttúrlega að koma til þeirra vegagerðarmanna, til Vegagerðar ríkisins að framkvæma þessa athugun. Og ég fæ ekki séð hví ekki mætti veita sérstaka fjárupphæð til þess að leita að vegarstæðinu. Þótt það kunni e. t. v. ekki að hafa verið gert í Vestfjarðakjördæmi, þá er mér ljóst að akbrautir eða ökuleiðir hafa verið kannaðar í ýmsum héruðum án þess að til kæmi sérstök fjárveiting á vegáætlun eða reiknað hafi verið inn í heildarfjárveitingu til þess kjördæmis. Það er ég viss um að hefur verið gert, gæti jafnvel nefnt dæmi þess.

En aðeins í lokin vil ég vekja athygli á því, að enn hefur ekki verið lokið lagningu hafísvegarins svonefnda. Það hefur enn ekki komið til þess að framkvæmdir hæfust að gagni sunnan Helkunduheiðar sem — svo sem þm. vita — skilur á milli Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu. Þarna er enn ólokið verkefni sem gefið hefur verið fyrirheit um, að lagður verði vetrarfær vegur til þess að tryggja hafnirnar á Norðausturlandi, ef hafís bæri að garði með meðfylgjandi veðráttu á næstu árum. svo sem e. t. v. er yfirvofandi á þessu vori. Það hefur úrslitaþýðingu fyrir byggðir Norður-Þingeyjarsýslu að slíkt vegarsamband komist á við Vopnafjörð og síðan áfram suður á firðina ef vel á að vera.

Ég vil aðeins í lokin skjóta því að hv. þm. þeirra Austfirðinga, að einhvern veginn fór það svo, þegar rætt var um fjárveitingar í hafísveginn á sínum tíma, að þá virtust þeir hafa meiri áhuga á því að lagður yrði vegur um Vopnafjarðarheiði upp á hringveginn heldur en treysta sambandið með sjó fram til annarra hafna. Nú vænti ég þess, að nokkur hugarfarsbreyting hafi orðið hjá þeim í þessu máli síðan. En umfram alla muni vil ég stuðla að því, að fundið verði gott vegarstæði með sjó fram milli Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðar svo að fara megi jafnt á vetri sem sumri.