18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2964 í B-deild Alþingistíðinda. (3107)

140. mál, árangur nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt Ragnhildi Helgadóttur, sem var 1. flm. þessa máls, meðan hún sat hér á þingi, og hv. 2. þm. Suðurl., Steinþóri Gestssyni, svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela menntmrn. að kanna eða láta kanna svo sem enn er frekast kostur, hver áhrif nýlegra breytinga á skólahaldi og skipulagi skóla hafa orðið á ástundun og árangur nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum.“

Á síðasta áratug hafa verið gerðar ýmsar breytingar á skólahaldi og skipulagi skóla og ýmsar tilraunir á því sviði sem í mörgu eru frábrugðnar því sem áður tíðkaðist. Við þessar breytingar og tilraunir var þess ekki gætt sem skyldi, að eftir á yrði unnt að meta hver áhrif þær hefðu á árangur skólastarfsins og allan skólabrag. Þetta er einkum bagalegt þar sem um beinar tilraunir í skólastarfi var að ræða, en óhjákvæmilegt virðist að meta árangur reglulega svo að unnt sé að breyta tilraunum ef þörf krefur. En jafnvel þar sem meiri háttar breytingar hafa verið gerðar til frambúðar er full ástæða til að fylgjast náið með áhrifum þeirra svo að unnt sé að lagfæra það sem betur mætti fara þótt ekki sé ætlunin að hverfa frá þeirri nýskipan, sem komið hefur verið á, eða gera á henni stórvægilegar breytingar. Um leið og breytingar og tilraunir voru gerðar á síðasta áratug hefði þurft að staðla einhvern mælikvarða sem gert hefði kleift að bera saman hið fyrra skólahald og hið nýja. Þannig hefði verið æskilegt að staðla próf í nokkrum mikilvægum greinum áður en grundvallarbreytingar voru gerðar á skólakerfinu, svo að síðar mætti halda sams konar próf til samanburðar. Jafnframt hefði verið æskilegt að fylgjast náið með áhrifum breytinganna á skólasókn. Þá hefði verið æskilegt að leita leiða til að meta hvort breytingarnar hefðu áhrif á líðan nemenda.

Í grunnskólalögum er gert ráð fyrir því, að menntmrn. fylgist með tilraunum í skólastarfi og meti með þeim hætti sem hér er lagt til. Slíkt starf hefur þó ekki hafist svo að orð sé á gerandi. Menntmrn. gaf að vísu út skýrslu vorið 1978 um framkvæmd grunnskólalaganna til skólaársins 1977–1978, en í henni er aðeins að finna upplýsingar um framkvæmdir í skólamálum, en ekkert um árangur þeirra. Ýmis vitneskja, sem afla hefði mátt ef ráð hefði verið tekið í tíma, er nú glötuð. Þó má enn bjarga ýmsu, sem leynist í gögnum skólanna, og styðjast við fyrri reynslu sem enn er ekki týnd. Einnig mætti leita umsagnar reyndra kennara og foreldra.

Æskilegast væri að slík könnun á námsárangri næði til sem flestra þátta skólastarfsins, en þó má vænta skjótari árangurs ef aðeins er leitað eftir fáum en mikilvægum þáttum. Má þar sérstaklega nefna eftirfarandi atriði: a) þekkingu nemenda á íslenskri tungu, b) þekkingu nemenda í reikningi, c) skólasókn, d) fjarvistir nemenda vegna veikinda, e) almennt heilsufar nemenda og viðhorf þeirra til skólans.

Könnun eins og sú, sem hér er lagt til að gerð verði, er mikilvæg nú m. a. vegna þess, að án efa heldur skólakerfið áfram að breytast og aðlagast daglegu lífi manna á hverju tíma. Til þess að geta jafnan brugðist rétt við er nauðsynlegt að fylgjast vel með öllum breytingum skólakerfisins og taka ákvarðanir með hliðsjón af þróun þjóðlífsins í heild.

Ég hef nú lesið hér þá grg., sem fylgir frv., til þess að hv. þdm. gefist kostur á að glöggva sig betur á málinu og rifja upp aðdraganda þess, en töluvert er síðan þessi tillaga var lögð fram hér á þinginu. Um þau atriði, sem hér er sérstaklega fjallað um, vil ég almennt segja það, að breytingarnar á skólahaldi hafa orðið svo miklar nú síðustu 3–4 árin að við, sem hættum kennslu á árinu 1976 í gagnfræðaskólum, erum naumast lengur dómbærir á það sem fram fer í skólunum. Ég hef ástæðu til að ætla að enn hafi ekki tekist að koma framhaldsskólunum í það horf sem nauðsynlegt er til þess að þeir geti tekið við af hinum nýja grunnskóla, eins og til er ætlast, og get tekið dæmi af því, bæði hér í Reykjavík og raunar líka annars staðar, að margt er handahófskennt í framkvæmd framhaldsskólanna og námskröfur vægast sagt á reiki eða mjög tilviljanakennt til hvers er ætlast.

Í þessu sambandi vil ég rifja það upp, að í þann mund sem grunaskólalögin voru sett hafði veruleg breyting orðið í gagnfræðaskólum. M. a. hafði tekist að koma gagnfræðaskólaprófinu fyrir í skólakerfinu þannig að það hafði orðið skilgreinda þýðingu, var próf sem mark var takandi á, og reynslan af 4. bekknum var mjög góð síðustu árin sem hann var. Fjórðubekkingar þroskuðust mikið þennan síðasta vetur. Þeir fundu að þeir áttu erindi í skólann og á marga lund voru það skemmtilegustu nemendurnir sem maður kenndi á þeim árum. Með grunnskólanum var 4. bekkurinn lagður niður og samtímis því var námskröfum breytt í 3. bekk, sem nú heitir 9. bekkur, þannig að öllum var gert að fara yfir sama námsefni. Þó lá það fyrir á þeim tíma, eins og reyndar líka núna, að nemendur voru afskaplega misvel undir það búnir, bæði hvað undirbúning varðaði og almennan þroska, að leggja á sig samsvarandi nám á árunum eftir fermingu. Þar sem tilraunir voru gerðar, t. d. varðandi reikning, kom líka í ljós að bestu nemendur gátu tileinkað sér þá reikningskunnáttu á hálfum vetri sem þeir, sem verr voru undir búnir, höfðu enga möguleika til að tileinka sér á tveim vetrum. Ef við berum saman t. d. árangur af reikningsprófi í hinum almennu landsprófsdeildum á miðjum áttunda áratugnum og niðurstöður í reikningi á gagnfræðaprófi, þá sjáum við að yfirleitt var það svo í landsprófsdeildum að nemendur höfðu góð tök á þessari námsgrein, en því fór víðs fjarri í 4. bekk. Ég held þess vegna að það sé síst að ástæðulausu sem hér er sérstaklega bent á þekkingu nemenda í reikningi, enda held ég að ég muni það rétt að ýmsar tilraunir hafi verið gerðar um reikningskennslu á síðustu árum og námsefninu verið breytt.

Varðandi þekkingu nemenda á íslenskri tungu vil ég sérstaklega segja það, að þar hefur mjög verið dregið úr kröfunum, og það, sem kannske er bagalegast, er að ekki er við grunnskólapróf, hið samræmda próf, gerð tilraun til þess að mæla þekkingu nemenda eða hvernig þeim hefur tekist að tileinka sér það námsefni sem þeir hafa fjallað um yfir veturinn, heldur virðist þetta vera einhvers konar gáfnapróf og matið á námsárangrinum eftir því. Mér er það t. d. minnistætt síðasta árið sem ég kenndi — þá var grunnskólaprófið komið upp — að ég gaf hæsta nemanda, sem ég kenndi, 8.6, en þegar sú einkunn kom að sunnan var búið að hækka hana upp í 10. Gat ég aldrei skilið hvernig á því stóð, en var náttúrlega þakklátur fyrir hönd nemandans fyrir þessa ofrausn sem honum var sýnd.

Að vísu er það svo að einstaka kennari, gamall, íhaldssamur og fastur fyrir, kennir enn þá íslensku með gamla laginu. Mér skilst líka á nemendum t. d. í menntaskólum og fjölbrautaskólum, að þeir nemendur, sem hafa þvílíka kennara, gamla í hettunni, séu betur undirbúnir en aðrir. Ég held raunar að nauðsynlegt sé að taka sérstaklega fyrir hversu íslenskukennslu er háttað, og ég efast stórlega um að ástæða sé til að láta þá menn, sem hafa ákveðið námsskrár og námsefni í tungunni á undanförnum árum, koma neitt nálægt endurskoðun námsefnisins eins og allt er í pottinn búið.

Varðandi skólasókn er kannske margt að segja. Þar sem ég þekki best til, í gagnfræðaskólanum á Akureyri, hefur skólasókn frekar batnað nú hin síðustu ár og kemur þar fleira til en þær tilraunir sem fjallað er um í þessari þáltill. En ég vænti þess, að annars staðar sé reynslan kannske önnur. Mér er t. d. ekki ljóst hvaða áhrif fjölbrautaskólakerfið hefur í þessum efnum, og vafalaust eru til einstök dæmi um að nemendur hafa ekki fundið sig í því kerfi og beinlínis hrökklast úr skóla af þeim sökum.

Hér er fjallað sérstaklega um fjarvistir nemenda vegna veikinda og almennt heilsufar nemenda, sem er forvitnilegt að fá nánari upplýsingar um, og að síðustu viðhorf nemenda til skólanna. Það hefur verið breytingum undirorpið á síðustu árum og raunar á fleira að líta í því sambandi heldur en grunnskólalögin ein.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að fara um þetta fleiri orðum. Ég vil aðeins undirstrika það, að ég hef vissar hugmyndir um að við séum á villigötum í sumum námsgreinum, eins og t. d. í íslensku. Ég tel afskaplega lofsvert að reynt skuli vera að ná fótfestu í sambandi við reikninginn. Að síðustu vil ég sérstaklega fara viðurkenningarorðum um þær miklu framfarir sem orðið hafa t. d. í kennslu á erlendum tungumálum, en á hinn bóginn held ég að höfuðmeinsemdin í skólamálum hjá okkur núna sé sú, að námið er ekki nógu markvisst. Okkur hættir til að stefna öllum nemendum inn í sama básinn, ef svo má segja, varðandi bóklegt efni, án tillits til þeirrar hæfni sem nemendur hafa til þess að tileinka sér bóklegt nám, og þá að sjálfsögðu með þeim afleiðingum að bóklegri námstíminn nýtist ekki sem skyldi þeim nemendum sem betri möguleika hafa á að tileinka sér það nám. Auðvitað eru nemendur mismunandi undir það búnir að takast á hendur erfitt bóklegt nám og sumir hafa engan áhuga á því. Þetta er alveg eins og um fullorðið fólk. Sumt fólk er bókhneigt, annað er kannske verklagið eða hefur meiri ánægju af því að fást við slíka hluti.

Og svo að síðustu þetta: Ég tel mig hafa vissu fyrir því, að framhaldsskólinn sé ekki undir það búinn að taka við nemendum úr grunnskóla og að nauðsynlegt sé að koma þar við einhvers konar umbótum. Miðað við þá reynslu, sem ég hef sem kennari, mundi ég einkum mæla með því, að sú hugmynd, sem gamli gagnfræðabekkurinn, 4. bekkur gagnfræðanámsins, var reistur á, verði endurvakin og þannig reynt að blása nýju lífi í námsvilja og námskraft þessara unglinga.