19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2987 í B-deild Alþingistíðinda. (3130)

262. mál, lagmetisiðnaður

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er fróðlegt að heyra yfirlýsingar hv. 3. þm. Norðurl. e. um viss grundvallaratriði í stjórnmálunum sem komu fram hjá honum áðan. Hann tekur greinilega undir þau sjónarmið, sem við Alþb.-menn höfum verið með á liðnum árum, að leggja ætti á það áherslu, að menn stæðu saman, og koma í veg fyrir að lögmál frumskógarins gildi sem allra mest. Þó að ég búist við að hann hefði fengið heldur lága einkunn hjá Milton Friedman og því fólki og Hannesi Hólmsteini, þá fagna ég ummælum hans.

En að öllu gamni slepptu vil ég láta það koma fram hér út af orðum hans um þessi mál áðan, að þann tíma sem ég var í viðskrn. leit ég þannig á, að hér væri um að ræða einkarétt Sölustofnunar lagmetis gagnvart löndum þar sem ríkisstofnanir eru aðalkaupendur. Ég byggði þetta á því sem ég gat lesið mér til úr umr. sem fram fóru um lögin um Sölustofnun lagmetis hér á Alþingi á sínum tíma. Þann tíma aftur sem Ólafur Jóhannesson var í viðskrn., árin 1974–1978, mun í einu eða tveimur tilvikum hafa verið farið á einhvern hátt á svig við þessi ákvæði, og af þeim ástæðum óskaði ég eftir mati lagadeildar Háskóla Íslands á þessu ákvæði núgildandi laga. Það var Björn Þ. Guðmundsson prófessor sem samdi fyrir mig álitsgerð um þetta efni, og hann kvað upp þann úrskurð af sinni hálfu, að það væri tvímælalaust að Sölustofnun lagmetis ætti að hafa einkarétt þegar um væri að ræða útflutning til Austur-Evrópulandanna. Það var alveg ótvírætt að hans mati. Og á grundvelli þess skrifaði ég Sölustofnun lagmetis bréf, þegar ég var í viðskrn., jafnframt því sem ég sendi stofnuninni, ef ég man rétt, greinargerð Björns Þ. Guðmundssonar um málið.

Á það ákvæði, sem er í þessu frv., er tæplega hægt að líta að mínu mati sem verulega opnun á þessum lagaákvæðum. Skírskotað er í raun og veru til gildandi laga um innflutnings- og gjaldeyrismál sem voru sett vorið 1979. Í þeim lögum er gert ráð fyrir því grundvallaratriði, að þegar viðskrn. heimilar útflutning á einstökum vörum á viðskrn. að gæta að tvennu: í fyrsta lagi því, að verðið sé sambærilegt við það sem best er hægt að fá á hverjum tíma, og í öðru lagi á að gæta að því, að skil á greiðslum til Íslendinga, íslenska útflytjandans, yrði sem best. Það er þetta tvennt sem viðskrn. á að taka tillit til í sínum almennu störfum í sambandi við útflutningsleyfi.

Talsverðar umræður hafa verið að undanförnu um útflutningsleyfi, eins og kunnugt er, til ýmissa landa, m. a. Grikklands og Spánar, og ég ætla í sjálfu sér ekki að fara út í þau mál nánar hér þó það gæti verið fróðlegt fyrir menn að ræða þau. En það er alveg ljóst að viðskrn. hefur fyrst og fremst þarna tvíþætta skyldu. En í þessu frv. aftur sem við erum að ræða hér, er gert ráð fyrir að það sé heimilt að veita öðrum aðila útflutningsleyfi til Austur-Evrópuríkjanna þegar um er að ræða meðmæli Sölustofnunar lagmetis. Ég held að þetta sé í raun og veru nægileg þrenging á þessum heimildum til þess að tryggt eigi að vera að ekki geti átt sér stað undirboð, hætta á því að Íslendingar verði af fjármunum vegna þess að menn séu að bjóða niður hver fyrir öðrum. Þannig held ég að þetta ákvæði frv. komi mjög vel heim og saman við þau félagslegu sjónarmið sem ég og hv. 3. þm. Norðurl. e. höfum í þessum efnum.