19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2992 í B-deild Alþingistíðinda. (3135)

249. mál, ólíuleitarmál og hagnýtar hafsbotnsrannsóknir

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hér er um mikið mál að tefla, en tíminn takmarkaður og þess vegna ætla ég ekki að lengja þessar umr. nú. En að gefnu tilefni frá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni get ég staðfest það, að unnið hefur verið að framkvæmd þeirrar þál. sem gerð var hér á Alþingi s. l. vor, ég man nú ekki dagsetninguna, um landgrunnsmál á Rockall-svæði og þar um kring og sérstaklega að leitað verði samstarfs við Færeyinga um það. Og ég get staðfest að það er rétt sem hann sagði, að borist hefur jákvætt svar frá Bretum, þeir eru tilbúnir að ræða þessi mál, og frá Írum hefur borist fsp. um, hvaða atriði það væru sem við mundum vilja ræða við þá, og við höfum gefið þeim svör í því efni. En svar er ekki endanlega komið frá þeim. Ég geri ráð fyrir að það svar verði jákvætt líka og þessar þjóðir verði þannig reiðubúnar að ræða við okkur um þessi málefni. Í því felst auðvitað ekki annað og meira. Það felst ekki í því að þær taki neina efnisafstöðu til málaleitunar okkar.

Við Færeyinga hefur verið haft náið samstarf, eins og hv. þm. gat um, og ég fyrir mitt leyti er vongóður um að það takist. Þessi mál verða athuguð af sendinefnd á hafréttarráðstefnunni, þar sem sendinefndinni mun falið að reyna viðræður við þessa aðila eða sendinefndir þeirra ríkja sem hér eiga hlut að máli. Að sjálfsögðu geri ég ekki ráð fyrir að nein lausn fáist í þeim efnum á þessari ráðstefnu, en það ætti að verða tækifæri til þess að skýra sjónarmiðin. Ég geri ráð fyrir því, að á eftir verði að taka upp formlegar viðræður við þessar þjóðir, annaðhvort allar saman, sem væri mjög æskilegt, eða þá hverja í sínu lagi.

Sáttanefndin, sem hefur unnið að tillögugerð varðandi hafsbotnsréttindi á Jan Mayen-svæðinu, hefur verið að starfi, sérfræðingaálit hefur verið fengið og ég geri mér vonir um að innan tíðar geti línur eitthvað skýrst í því máli.

Fleira ætla ég ekki að segja um þetta mál á þessu stigi.