19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2993 í B-deild Alþingistíðinda. (3136)

249. mál, ólíuleitarmál og hagnýtar hafsbotnsrannsóknir

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv. sem hér er til umr. og gerir ráð fyrir því, að skipuð verði nefnd til að kanna möguleika á olíuvinnslu á landgrunni okkar.

Það er ekki óeðlilegt að fram komi slíkar hugmyndir, þegar við búum við eins mikla orkukreppu í heiminum og öllum er ljóst af atburðum undangenginna missera og ára, og þá komi upp þær hugmyndir einnig hér hjá okkur, að við könnum hvort svipað geti háttað til á okkar landgrunni eins og komið hefur í ljós hjá nágrönnum okkar Norðmönnum. Nú er það vitað, að þessar rannsóknir hafa verið mjög litlar hér á okkar svæði. Það kemur reyndar fram í skýrslu, sem prentuð er sem fskj. með þessu frv., frá hæstv. iðnrh. um könnun á setlögum á landgrunninu út af Norðurlandi, að þessum jarðlögum hér svipar nokkuð til þess sem hefur verið á öðrum stöðum í heiminum þar sem kolvetni hafa safnast fyrir í setlögum. En hér er aðeins um mjög grófa mynd að ræða og þarf að vinna miklu meira að ýmiss konar rannsóknum á því sviði.

Í skýrslu ráðh. kemur jafnframt fram, að hann hefur hugsað sér að hlutast til um að samdar verði reglur um rannsóknir á auðlindum landgrunnsins og þau mál öll verði könnuð miklu nánar. Það kann að vera að það megi flýta þessu máli með því að stofna sérstaka nefnd til að kanna þessi mál eða fela það að öðru leyti Orkustofnun sem hefur haft með okkar orkumál að gera að allmestu leyti, t. d. hvað varðar leit eftir heitu vatni og slíkar rannsóknir. Það kemur reyndar fram í frv. hjá hv. flm., að þeir gera ráð fyrir að við Orkustofnun verði sett á fót deild sem annist framkvæmd þessara rannsókna.

Ég vil aðeins taka undir það með flm., að ég tel að hér sé um mjög áhugavert mál að ræða sem beri að skoða ítarlega, en jafnframt verður að hafa mjög í huga öll mengunar- og umhverfissjónarmið í því sambandi. Og þá kemur einnig upp sú sérstæða aðstaða sem hér gæti verið við tilraunaboranir, þ. e. ef hægt væri að bora tilraunaborholur og leita nánari upplýsinga á landi, ef það væri t. d. hægt í Flatey á Skjálfanda, en það eru einmitt svæðin út af Eyjafirði og Skjálfanda sem hvað líklegust eru talin til að gefa góða raun í þessu skyni.

Ég vil aðeins ítreka það og lýsa því yfir, að ég tel að hér sé hreyft mjög þörfu máli og að okkur beri að kanna allar leiðir í þessu sambandi og athuga gaumgæfilega hvort land okkar eða landgrunn búi yfir þeim auðæfum, sem hér gæti verið um að ræða, og að þetta mál verði skoðað mjög ítarlega.