19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2994 í B-deild Alþingistíðinda. (3137)

249. mál, ólíuleitarmál og hagnýtar hafsbotnsrannsóknir

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Án þess að tjá mig sérstaklega um frv. sem slíkt eða hvort ég fylgi því eins og það er lagt hér fram vil ég segja örfá orð í sambandi við þetta mál, sem er að mínu mati hið merkasta mál og eitt af þeim málum sem á margan hátt eru þess eðlis að þau leita á hugann og menn spyrja gjarnan sjálfa sig hvers sé að vænta í sambandi við olíumálin á næstu árum og hvernig eigi að bregðast við því sem er að gerast á því sviði.

Ég las nýlega í mjög áreiðanlegu bandarísku tímariti um það, hverju menn spá um verðlag á olíuvörum á næstunni. Á s. l. 7–8 árum hefur jarðolían hækkað frá því að vera um 3 dollarar á tunnuna upp í 30–35 dollara og í dag er verðið um 35–36 dollarar á heimsmarkaði. En því er spáð, að eftir fjögur ár eða árið 1985 verði verð á hverri tunnu af jarðolíu komið upp í 80 dollara. Þetta eru fjögur ár og nærri því þrefalt verð á við það sem er í dag. Þessi spá, sem þarna hefur verið gerð, er talin vera aðhaldssöm spá. Hún byggir á því að friður haldist við Persaflóa, sem er náttúrlega geysilega mikið atriði varðandi þróun verðlags á olíuvörum.

Þetta vekur auðvitað upp margar spurningar. Það vekur t. d. upp þá spurningu, hvernig fer um okkar sjávarútveg, okkar fiskisókn. Þurfum við að breyta um gerðir fiskiskipa á tiltölulega stuttum tíma? Verður eins hagkvæmt eftir örfá ár að haga sjósókn á svipaðan máta og við gerum nú eða þurfum við að leggja áherslu á að breyta til með tilliti til þessarar þróunar, ef þróun skyldi kalla, sem þarna blasir við. Þessi mál eru því mjög þýðingarmikil og þarft að hreyfa þessu máli hér á Alþingi.

Þetta vekur einnig upp spurningar um það, hvernig háttað er öryggi okkar í þessum málum og hvernig það öryggi verður best tryggt. Við höfum leitast við núna á seinustu árum að auka öryggi okkar á þessum sviðum með því að dreifa innkaupum á olíuvörum til landsins. Þetta vekur enn fremur þá spurningu, hvort við þurfum ekki að auka olíubirgðir í landinu því að það er ekki eingöngu um að ræða spurningu um verð, heldur einnig spurninguna um það, hvort yfirleitt verði hægt að fá olíu.

Ég hef verið að láta athuga um alllangan tíma hvort æskilegt væri að við Íslendingar gerðumst aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni. Það hefur verið unnið mikið undirbúningsstarf í viðskrn. að því máli og það verður væntanlega rætt í ríkisstj. innan skamms. Ég get vel sagt frá því, að ég er þeirrar skoðunar að það komi mjög til greina að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni til þess að auka öryggi í þessum málum. En ef til þess kemur að ríkisstj. samþykki það, sem ég skal ekkert um segja, það hefur ekki verið rætt í ríkisstj., þá verður það náttúrlega tekið fyrir hér á hv. Alþingi og rætt miklu nánar.

Þetta mál vekur, eins og ég sagði áðan, margar spurningar, bæði um öryggi, um verðlag og hvaða áhrif þessi framvinda orkumálanna er líkleg til að hafa á okkar atvinnulíf og hvort ekki er tímabært fyrir okkur að fara að huga meira að því sem fram undan er í þessum málum, því að það virðist hilla undir byltingu á þessu sviði sem kallar á endurskoðun á okkar atvinnulífi. Það virðast svo örar hækkanir að það sé full þörf á því að gefa þessum málum meiri gaum en gert hefur verið og tímabært að athuga ýmsa þætti í okkar efnahags- og atvinnulífi til þess að vera betur undir það búin að mæta því sem kemur, nema því aðeins að við verðum svo lánsamir að finna olíu hér á okkar landi eða við okkar land. Það mundi að sjálfsögðu breyta mjög stöðu okkar í þessum málum öllum.

En hér er hreyft þörfu máli sem fyllsta ástæða er til að ræða og fjalla um hér á Alþingi.