19.03.1981
Neðri deild: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2996 í B-deild Alþingistíðinda. (3141)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í framhaldi af umr. þeim sem fram fóru hér í gær um hvaða samkomulag kunni að hafa verið gert milli aðila stjórnarsamstarfsins, þá komu fram í því máli nýjar upplýsingar í gærkvöld og í morgun sem gerðu það að verkum að ég óskaði eftir því við hæstv. forseta þessarar deildar að fá að taka hér til máls utan dagskrár og beina ákveðinni fsp. að gefnu tilefni til hæstv. sjútvrh., formanns Framsfl. Hæstv. forseti deildarinnar hafði ekkert á móti því, að ég fengi þessa heimild, né heldur hæstv. sjútvrh. er ég ræddi við hann í morgun. Mér bárust hins vegar fréttir af því nú alveg nýverið, að það ætti ekki að heimila þessar umr. Ég vil spyrja hæstv. forseta úr ræðustóli hvort þetta sé rétt, að hæstv. forseti neiti að heimila þessar umr., og þá á hvaða röksemdum hann byggir þá afstöðu sína. (Forseti: Hefur hv. þm. lokið máli sínu?) Nei. (Forseti: Ég geymi það þangað til orðið verður laust.) Gott og vel, herra forseti. Þá vit ég gjarnan fá að skýra herra forseta frá því, áður en hann svarar, hvaða ástæður lágu til þess að ég fór þess á leit við hæstv. forseta að fá að taka hér til máls utan dagskrár um þetta mál, þó að það hefði verið rætt í gær.

Eins og menn vita fóru í gær fram umr. utan dagskrár þar sem leitað var svara við því, hvort í gildi væri eitthvert samkomulag milli aðila stjórnarsamstarfsins sem gefur einum aðila þess neitunarvald gagnvart framkvæmdum í málaflokki sem heyrir undir ráðh. úr öðrum flokki. Ég spurði hvort samþykki allra þyrfti að koma til svo að meiri háttar framkvæmdir eða ákvarðanir verði teknar. Engin skýr svör fengust þá önnur en þau, að samið hefði verið um að hæstv. forsrh. beitti ekki þingrofsvaldi sínu nema með samþykki allra, sem er vanalegt, og í öðru lagi komu þær upplýsingar fram m. a. hjá hæstv. ráðh., formanni Framsfl., að ríkisstj. hefði sett sér einhverjar ótilteknar starfsreglur sem hann ræddi um eins og væri alvanalegt.

Herra forseti. Ég hef spurst fyrir um það — ég er að rökstyðja beiðni mína hér til herra forseta — ég hef spurst fyrir um það hjá ráðherrum úr ríkisstjórnum allar götur síðan viðreisnarstjórnin var stofnuð, hvort nokkur fordæmi séu til um að starfsreglur, einhvers konar umferðarreglur í ríkisstj., hafi verið samþykktar, hvort nokkur fordæmi séu fyrir því að ríkisstj. hafi samþykkt einhverjar starfsreglur aðrar en þær sem liggja fyrir í reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Engin þessara ríkisstjórna hefur nokkurn tíma gert slíka samþykkt, þannig að þetta er þá í fyrsta skipti sem ríkisstj. og ráðherrar hafa sett sér einhverjar slíkar starfsreglur og þess vegna eðlilegt að spurt sé um hvað þessar starfsreglur fjalli.

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Varaþm. formanns Framsfl., Finnbogi Hermannsson, skýrði frá því í Dagblaðinu í gær, að í gildi væri slíkur samningur milli aðila stjórnarsamstarfsins sem veitti einum aðilanum neitunarvald. Ég hafði samband við þennan varaþm. í gærkvöld og í morgun og hef eftirfarandi eftir honum orðrétt, með hans leyfi:

„1. Frétt Dagblaðsins um samkomulag stjórnarflokkanna hefur verið lesin fyrir mig. Ég staðfesti að allt það, sem þar er eftir mér haft, er rétt eftir haft.

2. Ástæðan fyrir því, að ég skýrði frá samkomulaginu sem gert var milli oddvita hinna þriggja aðila ríkisstjórnarsamstarfsins, er sú, að ég tel fyrirhugaðar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli vera brot á því samkomulagi, í þeim anda, að enginn einn aðili geti tekið ákvörðun um slíkt stórmál sem ríkisstj. þarf öll um að fjalla.“

Og í þriðja og síðasta lagi, hæstv. forseti: „Ég tel ótvírætt,“ segir varamaður formanns Framsfl. á Alþingi,

„að Alþb. geti stöðvað þessar framkvæmdir með tilvísan til samkomulagsins um að engar meiri háttar ákvarðanir verði teknar í ríkisstj. nema með samþykki allra aðila stjórnarsamstarfsins, með sama hætti og ég tel að aðrir aðilar samstarfsins geti með sama hætti stöðvað ákvarðanir, sem þeir eru á móti og telja vera meiri háttar, með vísan til þessa samkomulags.“

Hæstv. forseti. Þegar slíkar upplýsingar hafa komið fram, á þá að meina mér að beina fsp. til formanns Framsfl. og fá tafarlaus svör hans við því, hvort þarna sé rétt með farið og hvað felist þá í þessum samstarfsreglum? Og hver er ástæðan fyrir því að meina mér að bera slíkar spurningar fram?