19.03.1981
Neðri deild: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3001 í B-deild Alþingistíðinda. (3146)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil strax við t. umr. þessa máls lýsa andstöðu minni við þetta frv. Ég er algerlega andvígur því. Ég held að almennt séu ekki bara þm., heldur menn almennt sammála um að það er mjög óeðlilegt gjald sem hér er um að ræða. Ég minni á, eins og raunar hv. síðasti ræðumaður, að nú er þetta í annað skipti sem hæstv. sjútvrh. leggur til að framlengja það gjald sem hann sjálfur hefur talið og telur enn að sé mjög óréttlátt og raunar vitlaust.

Síðast þegar þetta gjald var hér til umr. og var framlengt að tillögu hæstv, ráðh. lýsti hann yfir að hann teldi að þetta gjald þyrfti að afnema, hann væri mótfallinn því og það yrði að finna einhvern annan grundvöll í staðinn fyrir þetta gjald. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta nú. Ég á sæti í þeirri nefnd sem þetta mál fer til, þannig að það gefst frekara tækifæri til að ræða einstök atriðið í sambandi við þetta mál. En ég vil minna á — og þá sér í lagi hæstv. ráðh.— að fyrir um ári gaf hann loforð um það vestur á fjörðum í sambandi við lausn á kjaradeilu sjómanna sem þá stóð yfir, að þetta gjald yrði afnumið. Þetta loforð varð m. a. og kannske ekki síst til þess að sú kjaradeila sjómanna, sem þá stóð yfir, leystist, en nokkru eftir að það gerðist, þ. e. á s. l. hausti, leggur hæstv. ráðh. til að gjaldið sé hækkað frá því sem það var þegar hann gaf loforðið um að það skyldi afnumið. Og enn leggur hann til að olíugjaldið verði 7.5%.

Það eru ekki síst sjómannasamtökin og sjómannastéttin sem eru alfarið andvíg þessari gjaldtöku eins og hún er í pottinn búin. Mér finnst það nánast vítavert af hæstv. sjútvrh., eftir þau loforð sem hann gaf við lausn kjaradeilu sjómanna fyrir vestan fyrir um tæpu ári, að hann skuli leggja til að þetta gjald verði áfram innheimt óbreytt. Og hann á ábyggilega eftir, hæstv. ráðh., að heyra hljóð úr horni frá samtökum sjómanna og sjómannastéttinni um meðferðina á þessu máli.

Ég skal ekki, herra forseti, ræða þetta frekar nú. En ég taldi rétt að strax við 1. umr. málsins kæmi fram andstaða mín við frv.