23.03.1981
Efri deild: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3005 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

258. mál, ný orkuver

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. til l. um ný orkuver, sem hér er til umr., er flutt af okkur sex sjálfstæðismönnum í Ed., Eyjólfi Konráð Jónssyni, Agli Jónssyni, Guðmundi Karlssyni, Lárusi Jónssyni, Salome Þorkelsdóttur, auk mín. Einnig standa að flutningi frv. þrettán þm. Sjálfstfl. í Nd.

Þetta frv. kveður á um framkvæmdir í virkjunarmálum. Gert er ráð fyrir heildaráætlun um tiltekin verkefni sem lokið verði á þeim áratug sem núna er að hefjast.

Um fátt er meira rætt um þessar mundir en orkumálin. Ekki er það að ófyrirsynju, svo þýðingarmikil sem þessi mál eru. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að fyrsta rafmagnsveitan hér á landi var stofnuð árið 1904. Þróun rafveitumála í þau tæp 80 ár, sem liðin eru frá þeim tíma, má með nokkrum rétti skipta í þrjú tímabit.

Fyrsta tímabilið, 1904–1933, mætti nefna frumbýlingsár í orkubúskap þjóðarinnar. Á þeim tíma eru byggðar aðeins smáar stöðvar og sveitarfélögin eru hvert út af fyrir sig með sína smástöð og litla rafveitu sem aðeins nær til íbúa þess eina sveitarfélags. Alls voru þessar kaupstaða- og kauptúnarafveitur orðnar 38 að tölu þegar 30 ár voru liðin frá byggingu fyrstu rafstöðvarinnar, í Hafnarfirði. Hin stærsta þessara rafveitna var að sjálfsögðu Rafmagnsveita Reykjavíkur. Orkuver hennar, Elliðaárstöðin, varð árið 1933 rúm 3 mw., er síðasta aukning vatnsaflsstöðvarinnar fór fram. Samtals var afl þeirra 38 rafstöðva, sem þá voru í landinu, 5 mw., en árleg orkuvinnsla rúmlega 10 gwst.

Annað tímabil í þróun raforkumálanna hér á landi má segja að standi frá árinu 1933 til 1965, en árið 1933 voru sett lög um virkjun Sogsins. Í þeim lögum var tekið fram að Sogsvirkjuninni bæri að láta í té raforku til almenningsnota í nálægum héruðum, auk Reykjavíkur. Síðan risu upp samvirkjanir af þessu tagi víðsvegar um landið og í lok þessa tímabils voru 8 aðskilin samveitusvæði á landinu.

Samanlagt afl í raforkuverum allra rafveitna árið 1964 var orðið um 150 mw. eða um það bil 30 sinnum meira en það var 30 árum áður. En orkuvinnslan var í lok tímabilsins um 650 gwst. á ári eða rúmlega 60 sinnum meira en í upphafi þessa tímabils.

Þetta rúmlega 30 ára tímabil má kenna við samvirkjanir og samveitur. Þróunin á þessum árum gekk hvarvetna í þá átt að tengja saman nálæg veitukerfi og virkja sameiginlega fyrir stærri og stærri svæði víðs vegar um landið.

Með setningu laga um Landsvirkjun árið 1965 má segja að hefjist þriðja tímabilið í þróunarsögu raforkumálanna hér á landi. Í þeim lögum var Landsvirkjun heimilað að reisa allt að 210 mw. raforkuver í Þjórsá við Búrfell ásamt aðalorkuveitum og gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatnasvæði Þjórsár ofan virkjunarinnar til þess að tryggja rekstur hennar. Þegar hér var komið var Sogið fullvirkjað, en hafin virkjun á nýjum stöðum til að fullnægja aukinni raforkuþörf þjóðarinnar. Þá var talið að raforkunotkunin yxi svo ört að hún tvöfaldaðist á hverjum tíu árum. Reiknað var með að áður en tíu ár væru liðin yrði að vera lokið við að virkja afl til viðbótar er næmi öllu því afli sem þá væri fyrir hendi í orkuverum landsins, þannig mundi raforkunotkunin halda áfram að vaxa hér á landi næstu áratugi. Til að fullnægja þessum þörfum yrði að gera stærri og stærri virkjanir og að Soginu fullvirkjuðu væri að því komið að virkja stórár landsins.

Forsendan fyrir þessari virkjunarstefnu á sinni tíð var að komið væru upp orkufrekum iðnaði er byggðist á hinni miklu ónotuðu vatnsorku landsins. Þannig fylgdist að ákvörðun um Búrfellsvirkjun og byggingu álverksmiðjunnar í Straumsvík. Þannig var mögulegt að hagnýta hagkvæmasta virkjunarkostinn sem tiltækur var á þeim tíma. Auk þess var hér fyrst lagt út á braut stóriðjunnar sem nú hefur sýnt mikilvægi sitt fyrir þjóðarbúið og aflað verðmætrar reynslu sem í haginn hlýtur að koma við stóriðjuáform á komandi tímum.

Árið 1971 voru sett lög sem heimiluðu Landsvirkjun að reisa allt að 170 mw. raforkuver í Tungnaá við Sigöldu og allt að 170 mw. raforkuver í Tungnaá við Hrauneyjafoss. Enn voru framkvæmdir í virkjunarmálum tengdar við hagnýtingu orkunnar til orkufreks iðnaðar. Þannig kom til járnblendiverksmiðjan á Grundartanga. Allt er þetta svo kunnugt og í svo fersku minni að hér skal ekki rakið sérstaklega. (StJ: Það er nú aldeilis verðmæt reynsla.)

Auk virkjana Landsvirkjunar hafa á tímabilinu 1965–1981 verið reistar vatnsaflsvirkjanir, svo sem Lagarfossvirkjun og stækkanirnar við Andakílsá, Laxá, Mjólká og Skeiðsfoss. Framkvæmdir í vatnsvirkjunum námu því alls á tímabilinu um 520 mw. í uppsettu afli eða um 35 mw. á ári að meðaltali.

Nú er svo komið að uppsett afl í vatnsvirkjunum verður orðið samtals 680 mw. þegar með er talið 140 mw. afl í Hrauneyjafossvirkjun, sem nú er í smíðum. Framkvæmdir þær sem gert er ráð fyrir samkvæmt frv. sem hér er til umr., nema samtals 710 mw. eða um 70 mw. að meðaltali á ári miðað við 10 ára framkvæmdatíma. Hér er um rúmlega tvöföldun að ræða frá því afli sem fyrir er, og af því má marka hve hér er um mikið átak að ræða þar sem gert er ráð fyrir að þessum framkvæmdum verði lokið á einum áratug. Þó er þetta í anda þess sem menn gerðu ráð fyrir þegar lögin um Landsvirkjun voru sett árið 1965 þegar gert var ráð fyrir að það þyrfti að tvöfalda uppsett afl í rafvirkjunum landsins á 10 ára tímabili á næstu áratugum, eins og það var orðað í grg. með frv. að lögum um Landsvirkjun.

Forsendan fyrir þessum framkvæmdum nú er sú, að þörf sé fyrir þá aukningu orkunnar sem hér um ræðir. Þegar þörfin er metin þarf margs að gæta. Fyrst ber að líta á orkuspá þá sem gerð hefur verið. Orkuspárnefnd Orkustofnunar hefur unnið það verk.

Nefndin hefur byggt orkuspá sína á spá Framkvæmdastofnunar ríkisins um mannfjölda á Íslandi fram til 1990 og spá þeirrar stofnunar um skiptingu mannafla á einstakar atvinnugreinar á sama tímabili. Enn fremur hefur verið gengið út frá því, að fólksfjölgun verði hlutfallslega hin sama í öllum landshlutum sem spáin er greind eftir. Þetta táknar að gert er ráð fyrir að byggðastefnan nái þeim árangri að ekki verði röskun á búsetu milli landshluta í framtíðinni. Þá er gert ráð fyrir áframhaldandi hagvexti sem lýsir sér í spánni sem vaxandi orkunotkun á hvern starfsmann í atvinnulífinu, en hana má telja forsendu þeirrar framleiðniaukningar sem er nauðsynleg undirstaða hagvaxtar þegar til lengdar lætur. Gert er ráð fyrir svipuðum vexti orkunotkunar á starfsmann og hann hefur reynst vera hér á landi að undanförnu, en jafnframt höfð hliðsjón af nýlegum spám um þetta frá nágrannalöndunum. Orkuspáin tekur ekki til afgangsraforku til neinna nota, enda hefur sala hennar ekki áhrif á stærð og tímasetningu nýrra virkjana.

Orkuspáin felur í sér mat á því, hver verða muni eftirspurnin eftir raforku á hverjum tíma ef notendur hafa frjálst val. Hún tekur ekki mið af því, að notkuninni verði haldið niðri, hvorki með beinni skömmtun eða annars konar boðum og bönnum yfirvalda né heldur vegna þess að orkuver, flutningslínur og dreifikerfi anni ekki álaginu.

Þá er orkuspáin miðuð við þá forsendu hvað húshitun varðar að forgangsraforka komi í stað olíu til hitunar húsrýmis í strjálbýli og í þéttbýli þar sem möguleikar á öflun jarðvarma eru taldir litlir eða vafasamir sem stendur. Gert er ráð fyrir að þessi breyting á hitunaraðferð eigi sér stað að langmestu leyti fyrir árið 1985. Þörfin fyrir rafmagn til húshitunar í hverjum landshluta er áætluð fyrir hvern byggðakjarna landshlutans og strjálbýlið í hverri sýslu og metið að hve miklu leyti hægt sé að nýta jarðhita til húshitunar. Þau svæði, sem ekki njóta hitaveitu samkvæmt þessari áætlun, eru skráð sem rafhitunarsvæði og einnig þau svæði þar sem hitaveituframkvæmdir eru í óvissu af einhverjum ástæðum.

Gert er ráð fyrir mikilli aukningu á raforkunotkun til heimilisnota á hvern íbúa og því til viðbótar kemur aukning vegna fólksfjölgunar. Reiknað er með að tveir þættir hafi einkum áhrif á raforkunotkun í þjónustugreinum og iðnaði, þ. e. starfsmannafjöldinn annars vegar og aukning í vélvæðingu, sem kemur fram í aukinni raforkunotkun á starfsmann, hins vegar. Áhrif aukins mannafla í iðnaði og þjónustu að viðbættri aukinni orkunotkun á starfsmann valda þeirri aukningu í þessum greinum sem áætlunin reiknar með.

Reynslan ein getur skorið úr um það, að hve miklu leyti orkueftirspurn hins almenna markaðar fer eftir spá orkuspárnefndar. Í forsendum spárinnar er þess getið, að ekki sé gert ráð fyrir að raforka komi í stað olíu að neinu marki til hins almenna iðnaðar, en það gæti haft marktæk áhrif til hækkunar á spánni. Orkueftirspurn kann að vera varlega metin í fleiri tilfellum. En í þessu sambandi er mest um vert að hafa í huga að spáin gerir hvorki ráð fyrir, að aukið verði við orkufrekan iðnað af neinu tagi, né að raforka komi í stað innflutts eldsneytis til annars en húshitunar.

Samkvæmt orkuspánni er einnig gert ráð fyrir að almenn notkun raforku fyrir árið 1981 nemi 311 mw. í afli, en árið 1991550 mw. Spáin gerir ráð fyrir að á sama tíma sé orkunotkun á áburðarverksmiðjunnar, álversins og járnblendiverksmiðjunnar óbreytt eða samtals 199 mw. í afli. Alls nemur þetta árið 1981 534 mw. í afli, þegar stofnkerfistöp eru meðtalin, og árið 1991 784 mw. í afli. Samkvæmt þessu eykst aflþörfin á þessu tíu ára tímabili um 250 mw., en samkvæmt frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að uppsett afl aukist um 710 mw. á þessum sama tíma. Er þá ekki meðtalið 140 mw. afl þeirrar virkjunar við Hrauneyjafossvirkjun sem nú er í smíðum. Aukning í uppsettu afli fram yfir það, sem orkuspáin gerir ráð fyrir í aukningu aflnotkunar á þessum tíma, nemur því allt að 600 mw. Forsendan fyrir þessari miklu aukningu í uppsettu afli er að orkan verði hagnýtt í orkufrekum iðnaði.

Þegar litið er á raforkuna á þessu sama tímabili sést að án nýrrar stóriðju eykst orkuþörfin úr 3.4 í 4.7 twst. á ári. Með þeim virkjunum, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, og Hrauneyjafossvirkjun, sem í smíðum er, aukast möguleikar til nýrrar stóriðju sem nemur í lok tímabilsins allt að 2.5 til 3.0 twst. árlegri orkunotkun. Til samanburðar skal þess getið, að núverandi stóriðja notar tæpar 2 twst á ári.

Markmið okkar er að efla hagsæld og velferð þjóðarinnar. Til þess þarf að auka þjóðarframleiðsluna, sem er eina örugga undirstaðan að batnandi lífskjörum hér á landi. Þetta er þeim mun brýnna að hafa í huga þar sem flestir eru sammála um að lífskjörin séu nú lakari hér á landi en í nágrannalöndunum. Greinilegt sjúkdómseinkenni er búferlaflutningur Íslendinga til annarra landa sem við höfum orðið að horfa upp á á undanförnum árum.

Staðreyndin er að það hefur dregið úr vexti þjóðarframleiðslunnar að undanförnu. Þó að fjárfestingin sé mikil skilar hún of lítilli framleiðsluaukningu. Á sama tíma fjölgar fólki stöðugt við atvinnustörf, þannig að eitthvað hlýtur að vera bogið við arðsemi fjárfestingarinnar eða framleiðniþróunina í landinu. Hér er því brýnt viðfangsefni við að fást.

Ásamt gæðum lands og sjávar eru orkulindirnar þau gæði sem okkur eru verðmætust. Þrátt fyrir hinar miklu framfarir, sem orðið hafa á þessari öld, höfum við ekki enn þá beislað 10% af nýtanlegri vatnsorku landsins. Augljóst er að Íslendingar eiga í orkulindum sínum stórkostleg náttúruauðæfi, sem þar að auki eru óþrjótandi, en annars staðar í heiminum fæst meginhluti orkunnar úr lífrænu eldsneyti sem gengur óðum til þurrðar. Það er því höfuðatriði að nýta þessa miklu auðlind, sem fólgin er í orkulindum landsins, til að örva hagvöxtinn. Samkeppnisstaða íslenskrar vatnsorku hefur stórbatnað vegna þverrandi orkulinda og hækkandi orkuverðs í heiminum. Um leið fer þeim stöðum mjög fækkandi sem boðið geta upp á ódýra vatnsorku. Komið er að nýjum þáttaskilum í íslenskri hagsögu.

Áður urðu þvílík þáttaskil með byltingu þeirri sem hófst í sjávarútvegi landsmanna upp úr síðustu aldamótum og líta má á sem upphaf nútímaefnahagsþróunar á Íslandi. Þrátt fyrir sterka stöðu og mikilvægi sjávarútvegsins verðum við að hafa í huga að framleiðniaukningu, sem byggist á örum vexti framleiðsluverðmætis í fiskveiðum og fiskvinnslu, eru takmörk sett. Spurningin er hvort sjávarútvegur og fiskvinnsla geta aukið framleiðsluverðmæti sitt í sama mæli og við höfum átt að venjast. Vafalaust verður um framleiðsluaukningu að ræða, jafnvel þó að ekki takist að auka framleiðslu sjávarafurða í þeim mæli að heildarframleiðni í þjóðfélaginu geti aukist í samræmi við kröfur um bætt lífskjör. Hér er það náttúran sjálf sem setur sjávarútveginum takmörk. Órækasta merkið um, að komið geti að hinum náttúrlegu mörkum, eru aflatakmarkanir þær sem nú eru og dulið atvinnuleysi í fiskveiðunum sjálfum. En með útfærslu fiskveiðilögsögu okkar höfum við lagt grundvöll að fiskverndar- og fiskveiðistefnu sem tryggt getur viðgang og vöxt sjávarútvegsins. Það er því ekki um að ræða að ýta sjávarútveginum til hliðar sem atvinnugrein. Hann hlýtur að vera áfram sem hingað til styrkasta stoðin í efnahagslífinu. En gera verður ráð fyrir að við hliðina á sjávarútveginum komi annar jafnþýðingarmikill atvinnuvegur þar sem verðmætasköpunin byggist á hinum miklu orkulindum sem þjóðin ræður yfir. Á þann veg væri lagður grundvöllur að nýrri framfarasókn í íslensku efnahagslífi sem væri sambærileg við þá tæknibyltingu sem hófst í íslenskum sjávarútvegi í upphafi þessarar aldar og hefur síðan verið undirstaða efnahagslegrar velferðar þjóðarinnar. Það er þetta sem liggur til grundvallar umræðum um orkufrekan iðnað eða stóriðju.

Hagkvæmni orkufreks iðnaðar byggist fyrst og fremst á hlutfallinu á milli orkukostnaðar annars vegar og flutningskostnaðar á hráefni og fullunninni vöru hins vegar. Ef flutningskostnaður á hráefni er tiltölulega mikill miðað við verðmæti vörunnar er tilhneiging til þess að iðnaðurinn verði staðsettur nálægt hráefnislindunum, en þessu er öfugt farið ef um dýra vöru er að ræða, þar sem flutningskostnaður á hráefni og fullunninni vöru er tiltölulega lítill hluti af framleiðsluverðmæti, en orkukostnaðurinn að sama skapi mikill. Þetta hefur í aðalatriðum leitt til þess, að þjóðir, sem búa yfir hagkvæmum orkulindum, en vantar hráefni, hafa tekið upp í stórum stíl framleiðslu á vörutegundum eins og áli og kísiljárni, þar sem orkukostnaðurinn er verulegur hluti framleiðslukostnaðar, en flutningskostnaður tiltölulega lítill miðað við heildarverðmæti. Þetta er leið fyrir lönd, sem búa yfir mikilli en staðbundinni orku, til þess að breyta henni í útflutningsvöru. Fleiri framleiðsluvörur koma hér að sjálfsögðu til greina, svo sem magnesíum og ýmsar tegundir af járnblendi aðrar en kísiljárn. Flest bendir þó til þess, að við núverandi aðstæður — að því er varðar orkuverð, flutningskostnað og markaðsmöguleika — sé fyrst og fremst um þrjár vörutegundir á sviði orkufreks iðnaðar að ræða sem sé ótvírætt hagkvæmt að framleiða hér á landi, en þær eru ál, kísiljárn og hreinn kísilmálmur. Framleiðsla allra þessara vara krefst mikillar orku, þær eru mjög verðmætar miðað við þyngd og flutningskostnað og eftirspurn eftir þeim hefur verið vaxandi.

En hagnýting orkulinda landsins getur einnig orðið með öðrum hætti en til gjaldeyrisöflunar í formi útfluttrar iðnaðarvöru. Hafa verður í huga að Íslendingar flytja inn orku í miklum mæli sem eldsneyti. Um helmingur þeirrar orku, sem nú er notuð í landinu, er innflutt orka. Þetta er umhugsunarefni þegar haft er í huga að enn er óvirkjaður mestur hluti þeirrar orku sem mögulegt er að virkja í landinu. Vandamál það, sem hér er við að fást, er fyrst og fremst að koma orkunni í nýtanlegt form sem eldsneyti.

Vetni er nú talið líklegt til að leysa af hólmi núverandi eldsneyti. Það gæti í vissum tilfellum orðið um að ræða annað eldsneyti en vetni, en þá yrði vetnisframleiðslan eftir sem áður undirstaða undir framleiðslu eldsneytisins. Eina hráefnið, sem þarf í vetni, er vatn og til framleiðslunnar er hægt að nota næstum hvaða orkulind sem er. Við Íslendingar eigum mikið vatn og nógar orkulindir til vetnisframleiðslu. Við þurfum því að vera viðbúnir að hagnýta þessa möguleika í orkumálum okkar um leið og leyst verða þau tæknilegu vandamál sem enn standa í vegi fyrir að fyrirætlanir þessar verði að veruleika.

Það er ekki talinn vafi á að orkubúskapur heimsins eigi eftir að taka stórkostlegum stakkaskiptum áður en þessi öld er liðin. Gert er ráð fyrir þeim möguleika að olía muni ganga til þurrðar fljótlega upp úr aldamótum. Talið er að kol og jarðgas muni endast eitthvað lengur. Með sívaxandi orkunotkun er því augljóst að mannkynið verður áður en þessi öld er liðin að hefjast handa um að nýta í verulegum mæli orkulindir sem fram til þessa hafa verið lítið eða ekkert nýttar.

Allt þetta ber að hafa í huga þegar metið er hve stór átök beri nú að gera í virkjunarmálum okkar Íslendinga. Þá horfum við fram til þeirra möguleika til gjaldeyrissparnaðar sem geta verið fólgnir í hagnýtingu orkulinda landsins í framleiðslu innlends eldsneytis, auk möguleikanna til gjaldeyrisöflunar í útflutningi í formi iðnaðarvöru.

Ég ætla ekki hér að fara að ræða almennt um stóriðju eða einstakar framkvæmdir í stóriðjumálum. Hér vík ég aðeins að þessum málum vegna þess hve stóriðjan er mikil forsenda fyrir þeim virkjunarframkvæmdum sem lagðar eru til með frv. því sem við hér ræðum.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram á þessu þingi till. til þál. um stefnumótun í stóriðjumálum. Þar er lagt til að sett skuli á stofn nefnd til stefnumótunar í stóriðjumálum. Nefndina skipi sjö menn kjörnir hlutfallskosningu á Alþingi og að loknum hverjum alþingiskosningum. Verkefni nefndarinnar eru tiltekin.

Í fyrsta lagi skal nefndin kanna hagkvæmni framleiðslugreina, sem til álita koma á sviði orkufreks iðnaðar, með tilliti til orkuverðs, flutningskostnaðar og markaðsmöguleika.

Í öðru lagi skal nefndin kanna möguleik á á samvinnu við erlenda aðila á sviði tækni, markaðsmála og fjármögnunar í stóriðju.

Í þriðja lagi skal nefndin gera tillögur um stóriðjuframkvæmdir sem hagkvæmt þykir að stofna til. Skal þar kveða á um eignaraðild fyrirtækja, fjármögnun, orkuöflun, orkuverð og önnur rekstrarskilyrði og staðsetningu iðjuvera.

Gert er ráð fyrir að nefndinni sé heimilt að leita samvinnu við hvern þann aðila sem hefur sérþekkingu á málum er varða störf hennar.

Með þessari till. er lögð áhersla á að í orkulindum landsins sé að finna grundvöll að nýrri sókn til betri lífskjara, líkt og sjávarútvegurinn var í upphafi þessarar aldar. Bætt lífskjör og atvinnuöryggi landsmanna eru höfuðmarkmið þeirrar atvinnustefnu sem fylgja þarf. Það er því meginverkefni nú að hagnýta hin gífurlegu verðmæti sem fólgin eru í orkulindum landsins.

Ég skal nú gera grein fyrir efni frv. sjálfs og einstakra greina þess.

Framkvæmdir þær, sem frv. þetta felur í sér, eru: Raforkuver allt að 330 mw. í Jökulsá í Fljótsdal, raforkuver allt að 180 mw. í Blöndu, raforkuver allt að 130 mw. við Sultartanga og stækkun Hrauneyjafossvirkjunar um allt að 70 mw. Eins og ég hef áður greint frá nema þessar framkvæmdir samtals 710 mw. Hér er því um að ræða stærsta átakið sem enn hefur verið gert til þess að nýta orkulindir landsins til verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið.

Tillögur um orkuframkvæmdir þær, sem frv. þetta felur í sér, grundvallast á hagkvæmnisútreikningum sem fyrir liggja. Ég sé ekki ástæðu til þess að gefa sundurgreinda lýsingu á hinum einstöku framkvæmdum í framsögu fyrir frv. þessu. Ég leyfi mér að vísa til grg. frv. sjálfs þar sem er að finna lýsingu á Fljótsdalsvirkjun, Blönduvirkjun, Sultartangavirkjun og stækkun Hrauneyjafossvirkjunar. Ég vísa einnig til ítarlegra fskj. sem fylgja frv. og fjalla um þetta efni. Hér er byggt á grg. Orkustofnunar, Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og ráðgjafaraðila þeirra.

Auk þess sem 1. gr. frv. kveður á um framkvæmdirnar sjálfar er þar heimilað að fela virkjunaraðilum að gera nauðsynlegar ráðstafanir á viðkomandi vatnasvæði til að tryggja rekstur virkjananna, enn fremur að leggja aðalorkuveitu frá orkuverum til tengingar við aðalstofnlínur og meiri háttar iðjuver.

Virkjunarframkvæmdir þær, sem frv. fjallar um, eru mjög fjárfrekar og ekki framkvæmanlegar nema með miklum lántökum. Til að greiða fyrir þeim er ríkisstj. heimilað samkv. 2. gr. frv. að ábyrgjast lán er virkjunaraðilar koma til með að taka. Ríkisstj. er einnig heimilað að taka lán í þessu skyni og endurlána virkjunaraðilum. Samkvæmt frv., er þessi aðstoð ríkisins við virkjunaraðila bundin við upphæð allt að 3500 millj. kr. til greiðslu stofnkostnaðar þeirra mannvirkja sem um er að ræða. Upphæð þessi, 3500 millj. kr., er miðuð við verðlag í ársbyrjun 1981. Þá var gert ráð fyrir að virkjunarkostnaður framkvæmda, sem frv. felur í sér, væri sem hér segir: Fljótsdalsvirkjun 1510 millj. kr., Blönduvirkjun 740 millj. kr., Sultartangavirkjun 890 millj. kr. og stækkun Hrauneyjafossvirkjunar 100 millj. kr. Tölur þessar eru settar fram með fyrirvara og gefa ekki tæmandi upplýsingar um kostnaðarsamanburð milli hinna einstöku framkvæmda. Auk þess er ótalinn kostnaður við byggingu flutningslína og annarra orkuvirkja sem eru ómissandi fyrir hinar einstöku virkjanir.

Gera verður ráð fyrir að menn séu sammála um að leggja verði áherslu á framkvæmdir í orkumálum. Verður meira að segja að ætla að mönnum sé alvara þegar þeir tala um að framkvæmdir í orkumálum eigi að hafa forgang. Þetta helgast af því, að hvergi er að finna meiri arðsemi í fjárfestingu en einmitt í orkumálum. Þess vegna er enginn vafi að okkur ber að gera ítrasta átak í þessari fjárfestingu. Á þeirri forsendu er frv. þetta lagt fram.

Það verður naumast fært þessu frv. til foráttu að of lítið sé að gert í þessum efnum. Hins vegar eru takmörk fyrir öllu og þá einnig því, hve þjóðin getur ráðstafað miklu fjármagni og hve hröð uppbyggingin getur orðið í orkuframkvæmdum. En ekki verður með rökum sagt að of langt sé gengið með þeirri tillögugerð sem í frv. þessu felst. Við skulum minnast þess, að uppbyggingin hefur áður verið hröð í orkumálunum. Á tímabilinu 1966–1980 var meðalfjárfesting í raföflunarkerfinu um 20 milljarðar kr. á ári, miðað við verðlag í des. 1979. Á tveim síðustu árum, árið 1979 og árið 1980, er áætlað að fjármunamyndun í rafvirkjunum og rafveitum hafi numið samtals 75 milljörðum kr. á verðlagi hvors ár. Þegar slíkar staðreyndir eru hafðar í huga hljótum við að álykta sem svo, að fjárfesting, sem nemur að meðaltali 35 milljörðum kr. á ári, miðað við verðlag í janúar s. l., þurfi ekki að vera nein ofraun á næstu 10 árum ef mönnum er alvara með tali sínu um að orkumálin eigi að hafa forgang.

Í 3. gr. frv. er kveðið svo á að fella skuli niður aðflutningsgjöld og söluskatt af efni, tækjum, vélum og aðalorkuveitum til virkjananna sem frv. fjallar um. Þessi niðurfelling gjalda nær þó ekki til vinnuvéla vegna framkvæmdanna. Þó er fjmrh. heimilt að fresta innheimtu aðflutningsgjalda og söluskatts af vinnuvélum eða hluta þeirra gegn þeim tryggingum sem hann metur gildar. Þó falla gjöld þessi niður ef vélarnar og tækin eru flutt úr landi að loknum framkvæmdum. Þetta eru hliðstæð eða sams konar ákvæði og sett hafa verið í lög um virkjunarframkvæmdir og þarfnast ekki frekari skýringar.

Þá er gert ráð fyrir að virkjunarframkvæmdum samkvæmt frv. verði lokið á 10 árum eða, eins og það er orðað í grg. með frv., áður en þeim áratug, sem nú er að hefjast, er lokið. Það gefur auga leið að þetta er meira en að segja það. Þessi áætlun er það stíf að engan tíma má missa. Þess vegna er kveðið svo á í 4. gr. frv. að undirbúningi að byggingu orkuveranna svo og framkvæmdunum sjálfum skuli hraðað svo sem kostur er. Til þess að þetta megi verða er nauðsynlegt að hefjast þegar handa og hvar sem við verður komið. Þarf því að ráðast til atlögu við öll viðfangsefnin í senn. Þetta þýðir að strax verði efnt til sjálfra framkvæmdanna þar sem því verður við komið, eins og stækkun Hrauneyjafossvirkjunar, en þar sem því er ekki að heilsa verði strax að hraða undirbúningi og ljúka honum svo fljótt sem verða má til þess að framkvæmdirnar sjálfar geti hafist.

Samkv. frv. skal reisa raforkuver allt að 330 mw. í Jökulsá í Fljótsdal, þ. e. Austurlandsvirkjun, þegar ákvörðun hefur verið tekin um að setja á stofn stóriðju á Austurlandi. Það er engin tilviljun, að hér er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun hefjist ekki fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um að setja á stofn stóriðju á Austurlandi. Í þessu efni vísa ég til þess sem ég hef áður sagt um stóriðju og þá forsendu sem hún er fyrir hinum miklu virkjunarframkvæmdum sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Á Austfjörðum er gert ráð fyrir stærstu framkvæmdinni. Á Austfjörðum er að finna líklega um helming þess hagkvæmasta vatnsafls sem óvirkjað er enn á Íslandi. Þegar gera á stórátak til hagnýtingar orkulinda landsins hlýtur að koma til stórvirkjunar á Austfjörðum, eins og lagt er til með frv., en grundvöllur fyrir slíkri stórvirkjun er ekki fyrir hendi nema fyrir fram sé fundinn markaður fyrir orkuna. Þann markað er ekki að finna nema í formi stóriðju.

Þannig hafa þeir, sem raunhæft hafa litið á fyrirætlanir um stórvirkjun á Austfjörðum, gert sér grein fyrir að hún yrði ekki reist nema jafnhliða stóriðju til að nýta orkuna. Þegar á Alþingi 1973–1974 bar hv. þm. Austfirðinga, Sverrir Hermannsson, fram till. til þál. um beislun orku og orkusölu á Austurlandi. Þar var lögð áhersla á að ljúka sem fyrst rannsóknum á byggingu Fljótsdalsvirkjunar eða fyrsta áfanga Austurlandsvirkjunar. Jafnframt var lagt til að leitað yrði eftir kaupanda að raforku með stóriðju staðsetta í Reyðarfirði fyrir augum, eins og það var orðað í þessari þáltill. Þannig verður Fljótsdalsvirkjun ekki aðskilin frá fyrirætlunum um stóriðju á Austfjörðum. Með því að stóriðjan er forsendan fyrir þessari virkjunarframkvæmd veltur nú mikið á því, að unnið sé markvisst og af einurð til undirbúnings að stofnun stóriðjufyrirtækis, en jafnframt þessu verður að ljúka sem fyrst verkhönnun að Fljótsdalsvirkjun og láta það verkefni ekki liggja í láginni meðan unnið er að undirbúningi stóriðjuframkvæmdanna. Það tekur sinn tíma að undirbúa stóriðjuframkvæmdir og tíminn hefur að undanförnu farið fyrir lítið. En þó að ekki hafi verið áður endanlega gengið frá stofnun stóriðjufyrirtækis á Austurlandi ber að leggja áherslu á að hafist verði handa í sjálfu virkjunarmálinu með því að ganga frá útboðum á verkinu og vinna annað til undirbúnings, eins og gert var við Búrfellsvirkjun þó að ekki væri endanlega búið að ganga frá samningum um álverksmiðjuna í Straumsvík.

Frv. gerir ráð fyrir að ekki verði hafnar framkvæmdir við Blönduvirkjun fyrr en tryggð hafa verið nauðsynleg réttindi vegna virkjunarinnar, eins og það er orðað. Þessi fyrirvari um framkvæmd þessa er til kominn vegna þeirrar andstöðu er fram hefur komið úr hópi heimamanna vegna spjalla á landi og nytjum þess. Það er ekki að ófyrirsynju að þessi fyrirvari er hafður á. Menn minnast deilunnar um Laxárvirkjun og til þess eru vítin að varast þau.

Eins og ekki þarf að taka fram hafa staðið yfir umfangsmiklar viðræður milli stjórnvalda og heimamanna um virkjun Blöndu. Eru þar til athugunar og umræðu mismunandi virkjunarkostir eftir áhrifum mannvirkjagerðar á umhverfi og nytjar lands. Tillaga sú, sem þetta frv. felur í sér um orkuver í Blöndu, er borin fram í trausti þess, að þessum athugunum og umræðum ljúki hið fyrsta á þann veg að hagkvæmni virkjunarinnar verði tryggð svo að um raunhæfan virkjunarkost verði að ræða. Er þá ekkert til fyrirstöðu að virkjunarundirbúningi verði lokið svo að framkvæmdir geti hafist.

Frv. þetta kveður ekki á um forgang framkvæmda, áfangaskipti eða röðun orkuvera sem reisa skal. Það er gert ráð fyrir að hagkvæmni- og öryggissjónarmið ráði gangi framkvæmda og þau vinnubrögð verði viðhöfð að þeim verði öllum lokið á framkvæmdatímabili heildaráætlunar um byggingu allra virkjananna. Það gæti verið beinlínis til þess að tefja og torvelda framkvæmd þessarar áætlunar um virkjunarframkvæmdir ef í lögum væri kveðið á um röðun framkvæmda. Þetta leiðir af því, að nú liggur ekki ljóst fyrir í öllum tilfellum hvenær verði lokið undirbúningi framkvæmda eða skilyrðum fyrir framkvæmdum verði fullnægt. Þess vegna verður að vinna að þessum verkefnum eftir því sem í ljós kemur hvernig þau liggja fyrir til úrlausnar. Slík vinnubrögð eru besta tryggingin fyrir því, að ljúka megi framkvæmdunum öllum á hinum tilsetta tíma.

Frv. gerir ráð fyrir að Landsvirkjun eða landshlutafyrirtæki skuli reisa og reka raforkuver þau sem það mælir fyrir um að reist verði. Virkjunaraðilinn er því ekki fastbundinn í öllum tilvikum. Ekki kemur þó annar aðili til greina en Landsvirkjun að því er varðar raforkuverið í Sultartanga og stækkun Hrauneyjafossvirkjunar.

Hins vegar gegnir öðru máli um raforkuverin í Blöndu og Jökulsá í Fljótsdal. Fyrir fram er ekki gefið að Landsvirkjun sé aðili að þessum virkjunum, sem eru utan núverandi orkuveitusvæðis Landsvirkjunar. Þess vegna gerir frv. ráð fyrir að landshlutafyrirtæki gætu átt kost á að reisa og reka þessar virkjanir. Með landshlutafyrirtækjum er hér átt við sameignarfélög ríkis og viðkomandi sveitarfélaga eða sameignarfélög sveitarfélaga. Ef engin landshlutafyrirtæki yrðu stofnuð í þessum tilgangi bæri að fela Landsvirkjun að reisa og reka þessar virkjanir.

Hér er gert ráð fyrir þeim möguleika að landshlutafyrirtæki geti orðið stofnuð. Þátttaka sveitarfélaga í landshlutafyrirtækjum þýðir að þau verða ekki stofnuð nema að vilja þeirra. Enn fremur hljóta viðkomandi sveitarfélög að hafa um það að segja, hvernig fer um eignaraðild, hlutverk, stjórnun og almenna uppbyggingu hvers landshlutafyrirtækis. Slík fyrirtæki geta því orðið með mismunandi móti eftir aðstæðum og viðhorfum í hinum einstöku landshlutum. Þess vegna er ekki að finna í þessu frv. almenn ákvæði sem kveða á um þessi efni. Það ber og að hafa í huga að hvert landshlutafyrirtæki fyrir sig hlýtur að verða stofnað með sérlögum.

Um þessi efni, sem varða skipulag orkumála, vísa ég til frv. til orkulaga sem flutt var af okkur sjálfstæðismönnum í hv. Ed. á þessu þingi og er enn til afgreiðslu í iðnn. Það er í samræmi við þá stefnu í skipulagsmálum raforkuvinnslunnar, sem þar er að finna, að hér er gert ráð fyrir að Rafmagnsveitur ríkisins verði ekki virkjunaraðili að þeim framkvæmdum sem frv. gerir ráð fyrir.

Í orkulögum segir að það þurfi leyfi Alþingis til að reisa og reka raforkuver stærra en 2 mw. Í samræmi við þetta hafa verið sett lög um ný orkuver. Þau lög hafa að forminu til verið heimildarlög þar sem tilteknum virkjunaraðila hefur verið heimiluð tiltekin virkjun eða ríkisstj. heimilað að fela tilteknum aðilum að virkja.

Í þessu frv., sem við nú ræðum, er aftur á móti ekki um heimild að ræða til ríkisstj., heldur fyrirmæli um það sem gera skal. Það er engin tilviljun að þessi háttur er viðhafður á frv. sem nú er til umr. Það er til þess að leggja áherslu á þá stefnu frv. að hraða beri orkuverunum, bæði undirbúningi og framkvæmdunum sjálfum. Það er til þess að leggja áherslu á að enginn vafi geti leikið á því, að reisa skuli öll þau orkuver sem hér um ræðir. Þess vegna er hér ekki um heimild að ræða til handa ríkisstj., heldur bein fyrirmæli. Það eru fyrirmæli um að enginn dráttur verði á málinu. Það eru fyrirmæli um framkvæmdir strax.

Í þessu sambandi skulum við hafa í huga að það hefur dregist úr hömlu að ákveða næstu virkjunarframkvæmdir. Þetta seinlæti stingur í stúf við fyrri vinnubrögð í þessum efnum. Það er t. d. nú unnið að framkvæmdum við Hrauneyjafossvirkjun sem heimilaðar voru fyrir einum áratug með lögum frá 1971.

Ég geri ráð fyrir að það geti orðið víðtæk samstaða um að viðhafa þessi vinnubrögð og hraða sem frv. kveður á um. Ég geri ráð fyrir að víðtæk samstaða sé um framkvæmdir þær sem frv. fjallar um. Þessar ályktanir dreg ég af almennum umræðum og yfirlýsingum stjórnvalda á undanförnum mánuðum og misserum. Viðbrögð við frv. þessu benda og til hins sama. Ég skil afstöðu málgagna ríkisstj. og ummæli einstakra ráðh. á þann veg, að í raun og veru megi vænta samstöðu um meginstefnu þessa frv. Þá vildi ég mega bera það traust til núv. ríkisstj. að hún leggi lóð sitt á vogarskál samstöðu en ekki sundrungar í máli sem allir ættu að vera sammála um.

En hafa ber í huga að ekki er nægilegt að vilja framkvæmdir þær í rafvirkjunum sem ráð er fyrir gert í frv. Menn verða að hafa vilja til að skapa forsenduna fyrir þessu risaátaki í orkumálunum. Menn verða að vilja stóriðju til hagnýtingar orkunnar. Það þýðir að fara verður af alefli í undirbúning stóriðjuframkvæmda.

Ef menn vilja ekki stóriðju er tómt mál að tala um slíkar framkvæmdir í virkjunarmálum sem þetta frv. felur í sér. Þá getum við farið okkur hægt í virkjunarmálunum og miðað framkvæmdir við áætlaða aukningu í almennri notkun, heimilisnotkun, húshitun og smáiðnaði. Þetta er stefna út af fyrir sig. En þetta er röng stefna, vegna þess að þá hagnýtum við okkur ekki svo sem kostur er okkar miklu orkulindir til verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið.

En verst af öllu er sú stefna eða réttara sagt stefnuleysi að ætla stórvirkjanir án stóriðju eða vilja sem stærstar virkjanir með sem minnstri stóriðju. Slíkt er mótsögn í sjálfu sér sem leiðir til sjálfheldu í framfarasókn þjóðarinnar til atvinnuöryggis og hagsældar.

Frv. það, sem við nú ræðum, markar stærsta sporið sem tekið hefur verið í virkjunarmálum landsmanna. Stefna þess í framkvæmd þýðir þáttaskil í íslenskri hagsögu. Hér er á ferð mál hafið yfir hversdagsleik og dægurþras. Hér er mál til að sameinast um.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. iðnn. að lokinni þessari umr.