24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3043 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

199. mál, samráð stjórnvalda við samtök launafólks og atvinnurekenda

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það vekur nú athygli mína að hlaupið er fram hjá fyrstu þrem dagskrármálunum, en mér skildist að áhersla hefði verið lögð á það í síðasta fsp.-tíma að reynt yrði að halda sig við prentaða dagskrá. — Annars vil ég segja það út af þeim ummælum, sem hæstv. forsrh. viðhafði þá, að hingað til hefur það verið athugasemdalaust af þm. ef maður hefur veikindaleyfi, og hingað til hefur ekki heldur verið amast við því, þó að maður fylgdi gömlum samstarfsmönnum sínum til grafar eða væri veðurtepptur norður á Akureyri og hefði fjarvistarleyfi.

Í síðasta fsp.-tíma vildi svo til að ég misskildi ummæli hæstv. forseta á þann veg, að mín mál kæmust ekki á dagskrá þann dag. Af þeim sökum var ég ekki viðbúinn því að mæla fyrir þeirri fsp. sem hér er, enda orðinn þreyttur á því að hafa með mér tilskilin plögg og geta ekki mælt fyrir fsp. hér í hv. deild.

Það er afskaplega eðlilegt að þessi fsp. skuli fram komin. Við minnumst þess, að á s. l. ári hafði hæstv. ríkisstj. frumkvæði að því að semja um grunnkaupshækkanir til handa opinberum starfsmönnum, og við minnumst þess einnig, að þegar ríkisstj. var mynduð voru engin orð látin falla á þá lund, að efnahagskerfið þyldi ekki grunnkaupshækkanir handa launþegum. Ef ræður hæstv. forsrh. eru skoðaðar, eftir að almennir kjarasamningar voru gerðir á síðasta ári, kemur enn fremur í ljós að hann taldi að í þeim samningum, sem gerðir voru við opinbera starfsmenn, fælust engin þau ákvæði er hefðu í för með sér aukna verðbólgu fyrir launafólk í landinu. Og við minnumst þess enn fremur, að eftir að framfærsluvísitalan hafði verið reiknuð út hinn 1. nóv. s. l., um svipað leyti og Þjóðhagsstofnun sendi frá sér lauslega áætlun um breytingar verðlags og launa og kaupmáttar á árinu 1981, sendi forsrn. frá sér fréttatilkynningu þess efnis, að verðbólga færi nú mjög hjaðnandi í landinu.

Ég man eftir því á þessum dögum, að ýmsir menn nátengdir verkalýðshreyfingunni hér á Alþingi — og raunar einnig í blöðum — höfðu við orð að lítið samráð hefði verið haft um efnahagsráðstafanir sem boðaðar voru. Og mér er kunnugt um það, að ekkert samráð var haft varðandi brbl. 31. des. við Alþýðusamband Íslands sem slíkt og ekki heldur fyrir þann tíma. Ég veit ekki hvort eitthvað hefur verið talað við einstaka menn um það, en við Alþýðusamband Íslands sem slíkt og við Verkamannasamband Íslands sem slíkt var áreiðanlega ekkert samráð haft. Og eftir þeim ummælum, sem Kristján Thorlacius, formaður BSRB, hefur viðhaft varðandi þessi mál, held ég að ljóst sé að við hann var ekki heldur samráð haft um þær efnahagsráðstafanir.

Ólafslög svonefnd eru nr. 13 10. apríl 1979 og fjalla um stjórn efnahagsmála. Þar segir í II. kafla, 3. gr.: „Efla skal reglubundið samráð og samstarf stjórnvalda og launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda í efnahags- og kjaramálum.“ Í 4. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þátttakendur í samráði samkv. 3. gr. skulu vera fulltrúar launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda og opinberra aðila. Samráðsfundi má halda bæði með fulltrúum einstakra samtaka og fulltrúum ríkisstj. og öllum samráðsaðilum í senn. Skipa skal starfshópa til að vinna að einstökum málaflokkum á vegum ríkisstj.“ Í 5. gr. er síðan þetta samráð nánar útfært.

Fsp. mín til forsrh. liggur fyrir á þskj. 391 um samráð stjórnvalda við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda. Þar sem tími minn er búinn skal ég ekki endurtaka hana eða hafa efni hennar eftir hér, en ég vil að lokum segja vegna hinnar óvæntu uppákomu hæstv. forsrh. s. l. þriðjudag:

Óvænt margur upphefð fær

er fer nær um geðhrif þín.

Gunnar, veistu vel mig slær

ef verð ég fjær þú saknar mín.