24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3047 í B-deild Alþingistíðinda. (3172)

195. mál, jöfnun raforkukostnaðar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 386 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Skúla Alexanderssyni að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

„Hvernig hyggst ríkisstj. bregðast við þeim vanda, sem blasir við Rafmagnsveitum ríkisins, Orkubúi Vestfjarða og fleirum vegna mikils kostnaðar við raforkuframleiðslu með olíu á þessum vetri?“

Það er alllangt um liðið frá því að fsp. þessi var lögð fram og hefur ýmislegt valdið því að henni hefur ekki verið svarað fyrr. En á þeim tíma, sem þá var, komu eðlilega fram á nær hverjum degi samþykktir og áskoranir utan af landsbyggðinni til stjórnvalda um vissa jöfnun á þeim vanda sem var og er við að stríða vegna hins mikla viðbótarkostnaðar við raforkuframleiðslu af þeim völdum er allir þekkja.

Eins og myndin blasti þá við landsbyggðarfólki, þ. e. viðskiptavinum RARIK, Orkubús Vestfjarða og ýmissa smærri veitna, var tæpast annað að sjá en þessi aukakostnaður mundi með einhverjum hætti lenda á þeim einum af fullum þunga, en þeir slyppu þá jafnframt sem við lægst raforkuverð búa í landinu, nema þá að um vissa jöfnun yrði að ræða, í hvaða formi sem hún kynni þá að verða. Hér var því á þessum tíma um eðlilegar áhyggjur þess fólks að ræða sem býr við orku- og kyndingarkostnað sem er langt umfram það sem er t. d. hér á þessu landssvæði.

Stjórnvöld hafa nú ákveðið hvernig með skuli fara og spurningunni er því í raun og veru að mestu svarað nú þegar. En nátengt þessu vaknar upp sú spurning, hvernig til hefur tekist með jöfnun raforkuverðs almennt, hversu langt menn hafa þar náð í jöfnunarátt almennt, og ef hæstv. iðnrh. kæmi inn á það í leiðinni, hver hlutföllin eru t. d. í dag miðað við Reykjavík annars vegar og viðskiptasvæði RARIK hins vegar, miðað við þann hrikalega mismun sem áður var þar, þá væri það gott, þær upplýsingar yrðu vel þegnar, um leið og hæstv. ráðh. gerði þá grein fyrir því fyrirkomulagi sem fsp. lýtur sérstaklega að.