24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3048 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

195. mál, jöfnun raforkukostnaðar

Iðnrn. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er nú svo með ýmsar af þeim fsp., sem hér koma á dagskrá þingsins, að röðin kemur ekki að þeim til svara fyrr en stundum eftir dúk og disk, og eru ástæður af ýmsum toga, en sérstaklega þó hversu mikið er um fsp. og tíminn takmarkaður til að svara þeim, miðað við þær miklu umr. sem oft spinnast um þessi efni.

Varðandi þá fsp. sem hér liggur fyrir um jöfnun raforkukostnaðar, og fyrirspyrjandi hefur gert grein fyrir ástæðunum fyrir henni, þá hafa, eins og hann tók fram, þegar verið veitt svör við því með hvaða hætti stjórnvöld telja rétt á þessu stigi mála að bregðast við þeim viðbótarkostnaði, sem dæmst hefur á ákveðnar rafveitur í landinu til þess að mæta tilkostnaði við olíukeyrslu til raforkuframleiðslu vegna orkuskorts. Eftir athugun þessara mála á vegum stjórnvalda og eftir að ræddar höfðu verið mismunandi leiðir í þessum efnum varð að ráði að hækka gjaldskrá rafveitna um sem næmi jafnri auratölu á hverja kwst. til þess að gera þeim kleift að ná þannig inn fyrir kostnaði og fá greiddan að verulegum eða nokkrum hluta þann kostnaðarauka sem um er að ræða. Þegar áætlanir voru gerðar um þetta var miðað við allt að þriggja mánaða tímabil sem þessu orkuskortur gæti varað. Um síðustu mánaðamót, þegar ákvarðanir voru teknar um þetta, horfði á þann veg um tíðarfar að talið var að það ætti að vera unnt að draga úr þessari orkuskömmtum og orkuframleiðslu með olíu, en síðan hafa veðurguðirnir brugðið til hins verra í þessum efnum, þannig að nú á þessum degi þarf að keyra þó nokkuð af olíustöðvum til raforkuframleiðslu. Það munu vera yfir 30 mw. sem framleidd eru þannig á þessum degi, en það hefur verið misjafnt, 33.7 mw. nákvæmt talið eftir upplýsingum sem ég fékk í morgun. En það hefur verið dagamunur á þessu frá því um síðustu mánaðamót og þetta er sem sagt í hámarki miðað við það sem verið hefur.

Þessi ákvörðun um hækkun á gjaldskrám miðaðist við það, að 6 aurar fengjust fyrir kwst. Með því móti var t. d. gert ráð fyrir að rafveitur hér á Suðvesturlandi fengju þann kostnaðarauka greiddan sem þær hafa lagt í þetta vegna greiðslu til járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga sem hætti rekstri samkv. samkomulagi við orkusalann. Og Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða fá upp í þann verulega kostnaðarauka sem þær eiga við að glíma, en hann er raunar mestur hjá þessum tveimur orkuframleiðslufyrirtækjum. Ég tel skylt að það komi fram, að þrátt fyrir þessa gjaldskrárhækkun og miðað við að hún standi í um þriggja mánaða tíma í því formi sem nú er, þá vantar þó nokkuð á að þessi kostnaður sé að fullu greiddur hjá þessum fyrirtækjum. Þarf að líta á það mál þegar þar að kemur og þá e. t. v. í tengslum við verðjöfnunargjald á raforku sem heimild er fyrir að lækka um 3% á miðju ári, en mér þykir mjög líklegt að ekki séu efni til að nýta þá heimild eins og nú horfir og full þörf á því fyrir þessi fyrirtæki að fá einmitt uppi borið það sem út af stendur í þessum kostnaði með þeim hætti. En á þetta mál verður litið nánar þegar séð verður hversu mikill þessi kostnaðarauki verður.

Þær leiðir aðrar, sem til álita voru hjá iðnrn. og ríkisstj. í þessum efnum, voru spurningin um að nota verðjöfnunargjaldsgrunninn og hækka þá gjaldtöku tímabundið. Frá því var horfið. Sú aðferð, sem valin var, að hækka gjaldskrárnar mismunandi hátt í prósentum eftir því hver grunnurinn var fyrir, gerði það kleift að hafa sem næst auratölu á hverja orkueiningu og er auðvitað vænlegra að standa þannig að máli heldur en að mismuna með álagningu á grunn sem er misjafn fyrir, þannig að þessi leið hefur þann kost fram yfir það að hækka verðjöfnunargjaldið eða setja á sérstakan skatt, eins og var til álita að gera, og láta hann gilda um nokkurt skeið, nokkuð fram eftir árinu.

Hinn möguleikinn var að taka lán fyrir þessu og ávísa þessu á framtíðina. Ekki var horfið að því ráði. Hitt er þó ljóst, að nauðsynlegt verður innan ársins a. m. k. að auðvelda þeim rafveitum, sem mest eiga hér undir, rekstrarlega að jafna út þann kostnað sem á þær hefur hlaðist á undanförnum mánuðum, og að því er unnið að athuga stöðu þeirra með tilliti til þess.

Hv. fyrirspyrjandi spurði hvernig dæmið stæði varðandi verðmun á raforku og þá viðleitni til jöfnunar á raforkukostnaði sem stjórnvöld hafa staðið fyrir á undanförnum misserum og árum. Því er til að svara, að eftir þá hækkun, sem varð á gjaldskrám 15. mars, og raunar er það mjög svipað og var eftir hækkunina um síðustu áramót, er mismunurinn á gjaldskrám hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur annars vegar og Rafmagnsveitum ríkisins hins vegar, miðað við 4000 stunda nýtingu á ári, 24.3% eða tæpur fjórðungur. Þessi samanburður fer eftir því hvaða nýtingarstundir eru valdar til samanburðar, og ég vil ekki fullyrða hvað sé hárrétt viðmiðun í því sambandi. Menn nefna tölur frá 3500–4500 stundir á ári, og Rafmagnsveiturnar hafa raunar talið að hærri talan muni eiga við í mörgum tilvikum úti á landi. Þá er þessi munur heldur minni eða 22.7% ef miðað er við 4500 kwst. notkun á ári. Hér hefur því þokað í rétta.átt frá því sem var þegar þessi munur var mestur á árinu 1978, en þá var hann 80–90% á heimilistaxta annars vegar hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og h já Rafmagnsveitum ríkisins hins vegar og raunar Orkubúi Vestfjarða líka. Hjá Orkubúi Vestfjarða er heimilistaxtinn svolítið lægri sem þarna er við að miða, þannig að miðað við 3500 stunda notkun er þar um að ræða rétt um 20% verðmun á kwst. á heimilistaxta miðað við Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

Þess má geta, að til eru rafveitur á landinu með lægri taxta, rafveitur eins og á Eyrarbakka og Stokkseyri og í Hveragerði, svo að dæmi séu tekin, sem eru með raforkuverð samkv. heimilistaxta um 5% undir því sem er hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, og ýmsar rafveitur sveitarfélaga liggja á milli þess, sem er hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, og hins vegar hjá þeim sem hæst raforkuverð greiða, sem eru viðskiptavinir Rafmagnsveitna ríkisins. Því miður er þarna um verulegan mun að ræða enn. Því er nauðsynlegt að vinna að enn frekari jöfnun á þessum verðmun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara lengra út í þessi efni, þó að margt mætti um þetta mál segja fleira, og læt þetta nægja sem svar við fsp.