24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (3178)

208. mál, afkoma ríkissjóðs 1980

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á árinu 1977 beitti ég mér fyrir því, að fjmrn. gerði Alþingi grein fyrir afkomu ríkissjóðs samkv. tölum ríkisbókhaldsins fyrir næstliðið ár. Miklar breytingar höfðu þá verið gerðar á vinnubrögðum fjmrn., m. a. hjá ríkisbókhaldinu, sem leiddu til þess, að allar upplýsingar um stöðu ríkissjóðs svo og einstök ráðuneyti og stofnanir þeirra og þar með allar tekjur og öll útgjöld ríkissjóðs voru fyrir hendi vikulega. Mér fannst þá eðlilegt að fjmrn. eða fjmrh. f. h. fjmrn. gæfi Alþingi svo fljótt sem auðið væri eftir hver áramót fyrstu upplýsingar um afkomu ríkissjóðs, þ. e. tekjur liðins árs og ógreidd gjöld, síðan væri gerð ríkisreiknings hraðað og A-hluti hans lagður fram á Alþingi fullbúinn áður en þingi væri slitið.

Fyrsta skýrslan var gefin í mars 1977. Voru í þeirri skýrslu ýmsar þjóðhagsstærðir sem skoðun var gerð á með tilliti til þeirra talna sem fram komu um útkomu ríkissjóðs árið 1976. Önnur skýrslan var gefin í febr. 1978 varðandi útkomu ríkisfjármála 1977. Og fyrrv. fjmrh., Tómas Árnason, lagði í marsmánuði 1979 fram skýrslu um afkomu ríkissjóðs 1978, að vísu ekki með öllum þeim sömu upplýsingum sem verið höfðu í fyrri skýrslum. Skýrsla vegna 1979 var aldrei gefin, e. t. v. vegna þess ástands sem var í stjórnmálunum hér hjá okkur þá. Og skýrsla hefur enn ekki verið gefin fyrir árið 1980.

Ég er enn sömu skoðunar, að slíka skýrslu skuli fjmrh. gefa og leggja fram á Alþingi svo fljótt sem verða má. Ég tel það fremur óviðurkvæmilegt, að alþm. verði að lesa í ritum gefnum út af öðrum stofnunum en fjmrn. um afkomu ríkissjóðs, en það hefur einmitt gerst nú.

Í Hagtölum mánaðarins, mánaðarriti Seðlabanka Íslands, marshefti, sem er nýútkomið, má lesa hverjar tekjur ríkissjóðs 1980 voru, 366.1 milljarðar gkr., og gjöld 368.9 milljarðar og þá greiðsluhalli 2.8 milljarðar gkr. Það er lakari afkoma ríkissjóðs sem nemur 5.7 milljörðum gkr. en fjárlög 1980 gerðu ráð fyrir. Það hafði að vísu verið gefin út fréttatilkynning fyrstu daga janúarmánaðar, heldur óljós, miklum mun óskýrari en þær fréttatilkynningar sem gefnar höfðu verið út undir sömu kringumstæðum áður, en kunnugir gátu lesið út úr þeirri yfirlýsingu að skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hafði aukist um 3.4 milljarða kr. á árinu 1980. Fyrir því spyr ég hæstv. fjmrh. á þskj. 401: Hvenær má vænta skýrslu fjmrh. um afkomu ríkissjóðs 1980, samkv. bráðabirgðatölum ríkisbókhalds?