24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3059 í B-deild Alþingistíðinda. (3187)

377. mál, greiðslufrestur á tollum

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði, að eðli málsins samkv. þyrfti að skoða málið betur, og tilgreindi einhverjar afsakanir og skýringar á því, hvers vegna málið þyrfti enn að tefjast. Þær afsakanir og þær skýringar voru auðvitað fyrir hendi fyrir einu ári, og hæstv. fjmrh. átti þá að geta sagt sér sjálfur að þær væru þess eðlis, að hann hefði ekki átt að lofa upp í ermina á sér. Sannleikurinn er sá, að þessar skýringar og þessar afsakanir eru haldlausar. Nefndarálit það, sem skilað var í ágúst 1978 að tilhlutan þáv. fjmrh., Matthíasar Á. Mathiesen, í þeirri ríkisstj. sem ég veitti forstöðu, var að okkar mati svo vel unnið að það var unnt að taka ákvarðanir á grundvelli þess nefndarálits þegar í stað og flytja málið á þinginu 1978–1979. Það var ekki gert og það var ekki heldur gert fyrr en á síðasta þingi af hálfu okkar sjálfstæðismanna. Og þá voru undirtektir svo góðar af hálfu hæstv. fjmrh. og af hálfu hæstv. forsrh., að hvorugur þeirra sá neina meinbugi á framkvæmd málsins og hétu að koma málinu í framkvæmd og undirbúa það á s. l. sumri og koma því í framkvæmd nú í vetur.

Nú eru alls konar vandkvæði útlistuð af hálfu hæstv. fjmrh., — vandkvæði sem er auðvitað hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma að leysa og ráða fram úr. Þetta er því ekki nein afsökun fyrir seinagangi í vinnubrögðum hæstv. fjmrh. og brigðum á fyrirheitum sem hann hefur gefið hér á þingi.