24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3060 í B-deild Alþingistíðinda. (3189)

377. mál, greiðslufrestur á tollum

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil þakka þann stuðning sem hefur komið fram við þetta mál. Ég vissi að hann er mikill hér á þingi. Ég þarf aðeins að taka það fram, að í fyrsta skipti, sem hér var haldinn verulegur fundur um þetta mál af hálfu innflytjenda, í apríl 1977, skipaði þáv. fjmrh., hv. núv. þm. Matthías Á. Mathiesen, nefndina margumræddu. Hún skilaði af sér í ágúst 1978 og þá var ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar orðin starfsstjórn þannig að þá var ekkert hægt að gera meira í málinu að sjálfsögðu.

Tollstjóri átti sæti í þessari nefnd ásamt ríkisendurskoðendum þannig að það er alveg ljóst að fulltrúarnir úr ríkiskerfinu, ef ég má nota það orð, voru gerkunnugir málinu. (Gripið fram í: Og ritari nefndarinnar skrifstofustjóri ráðuneytisins.) Og ritari nefndarinnar skrifstofustjóri rn., er upplýst hér.

Ég vil aðeins að lokum skora á hæstv. ráðh. annaðhvort að lýsa yfir stuðningi við frv. okkar fimm þm. eða að leggja fram næsta haust frv. um þessi mál. Og enn fremur, sem kannske er mikilvægasti þátturinn í þessu, og ég held að hann hafi verið sá sem kannske hefur tafið mest fyrir, að taka tillit til málsins við sjálfa fjárlagagerðina.