04.11.1980
Neðri deild: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er leitt að hv. þm. Karvel Pálmason gat ekki verið við umr. í gær, sem stóð fram undir miðnætti, og það er enn þá furðulegra að enginn Alþfl.-maður skuli hafa verið við eftir að þeir hafa tvisvar beðið um frest á meðferð málsins. Í gærkvöld komu einnig fram þessi ósannindi, að ég hefði ekki rætt við fulltrúa sjómanna. Ég las hér upp í gær bréf frá oddamanni nefndarinnar. Ég er því miður ekki með það núna, en þar segir Ólafur Davíðsson nokkurn veginn.

Að beiðni sjútvrh. boðaði ég alla aðila í verðlagsráði sjávarútvegsins á fund sjútvrh. og mér er kunnugt um og það kom fram á fundi n., að hann ræddi við þá alla m.a. Ingólf Ingólfsson, sem ég, segir Ólafur Davíðsson, boðaði á fund ráðh. að hans ósk.

Umræddur fundur með Ingólfi Ingólfssyni fór fram kl. 2 föstudaginn 3. okt. Það var að mörgu leyti fróðlegur fundur. Við ræddum ítarlega um þessi mál. Ég gerði honum þá grein fyrir því, hvert mér sýndist stefna með olíugjaldið, miðað við afkomu útgerðar. Ég gerði honum grein fyrir fundi í ríkisstj., sem var fimmtudaginn 2. okt., og þeirri niðurstöðu að ekki yrði um annað að ræða, þar sem ekki væri samkomulag um annað, en að halda olíugjaldinu og hækka það. En mér þótti einnig fróðlegt að á þessum fundi kom fram að Ingólfur Ingólfsson hafði lagt fram till., sagði hann mér, þegar 1974 um að taka olíugjaldið af óskiptu eftir mæli. Auðséð er því að hann hefur hugsað mikið um þessi mál. — Ég vil alls ekki ætla að Ingólfur Ingólfsson hafi sagt ósatt á fundi n., en þarna er einhver mikill misskilningur á ferðinni. Ljósrit af yfirlýsingu Ólafs Davíðssonar skal ég afhenda hv. þm.

Ég vil jafnframt geta þess, að ég ræddi einnig við formann Sjómannasambands Íslands, Óskar Vigfússon. Hann kom til mín að morgni þriðjudagsins 7. okt., kl. 8.30. Þá gerði ég honum grein fyrir því, hvernig þessi mál stæðu. Óskar á ekki sæti í Verðlagsráði sjávarútvegsins, en mér þótti um svo viðamikið mál að ræða og mál sem mér, eins og ég hef margsagt hér, er ekki ljúft að flytja, að ég vildi einnig ræða við hann um málið og gera honum grein fyrir nauðsyn þess að finna aðra leið.

Ég vona því að þessi ósannindi eða misskilningur sé leiðrétt. Ég vona að um misskilning sé að ræða.