24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3061 í B-deild Alþingistíðinda. (3191)

377. mál, greiðslufrestur á tollum

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Á seinustu dögum ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar skilaði sú nefnd því áliti sem hér hefur verið til umr. Það var því mjög eðlilegt að sá aðili, sá einstaklingur sem tók við embætti fjmrh., fengi tækifæri til að skoða þetta mál og ekki aðeins það, heldur var mér kunnugt um að fulltrúar þeirra samtaka, sem mestan áhuga hafa haft á þessu máli, gengu á fund þáv. fjmrh., Tómasar Árnasonar, til að ræða við hann um það. Hann lýsti því fyrir þeim, að þetta mál væri í skoðun hjá ríkisstj. og síðan yrði tekin afstaða til þess þegar þar að kæmi.

Ég taldi eðlilegt, þar sem þetta mál var skoðað fyrir frumkvæði ríkisstj. og fjmrn., að nýr fjmrh. fengi tækifæri til að kynna sér málið. Ég vonaðist síðan til þess, að fjmrh. eða ríkisstj. flytti málið þegar liði á þingið 1978–1979. Það reyndist hins vegar ekki. Þess vegna var það að þessi frumvörp voru síðan flutt sem þmfrv. á næsta þingi þar á eftir. Mér kemur það ákaflega mikið á óvart, ef hæstv. núv. fjmrh. hefur hvorki frétt af né séð þetta nefndarálit fyrr en hann kom í fjmrn. sem fjmrh. í núv. ríkisstj. Ég veit að þetta mál hafði verið til umræðu á fundum ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, sem hann sat í sem ráðh., að vísu ekki fjmrh. Ég vil undirstrika það, að allar þær umsagnir, sem fjh.- og viðskn. hefur fengið í sambandi við þessi frv., verða að sjálfsögðu sendar rn., ef fjmrn. hefur ekki fengið þær sem mér finnst afar einkennilegt, þ. á m. umsögn Seðlabanka Íslands. Ég held, miðað við það sem mér heyrist, að mjög góður vilji sé hér í þingi til að ná þessum málum fram. Þá ættum við að taka höndum saman, fulltrúar í fjh.- og viðskn. og fulltrúar fjmrn., fara í gegnum þetta mál og reyna að fá það lögfest áður en þingi lýkur. Það er ábyggilega hægt ef sá vilji er fyrir hendi sem hér hefur komið fram hjá fulltrúum stjórnarinnar.