24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3062 í B-deild Alþingistíðinda. (3193)

377. mál, greiðslufrestur á tollum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hv. þm. Albert Guðmundsson hefur upplýst það hér, að hann hafi unnið að þessu máli frá árinu 1962 og hann hafi rætt við alla fjmrh. um þetta brýna hagsmunamál. Mér þætti vænt um ef hv. þm. Matthías Á. Mathiesen vildi upplýsa hvernig stóð á því, að í þau fjögur ár sem hann var fjmrh. var ekkert gert í þessu máli utan það eitt, að mánuði áður en gengið var til kosninga og umboð ráðh. skyldi renna út lét hann nefnd skila áliti um málið. Hvaða skýringar eru til á því, að í fjögurra ára ráðherratíð Matthíasar Á. Mathiesens var jafnslælega unnið að þessu brýna hagsmunamáli? Ljóst er að það voru 12 ár frá því að upphaflega hófst barátta fyrir þessu máli og þar til hv. þm. Matthías Á. Mathiesen varð ráðh., en samt sem áður entust honum ekki fjögur ár til annars en að láta eina nefnd skila af sér mánuði áður en umboð hans rann út.