24.03.1981
Sameinað þing: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3063 í B-deild Alþingistíðinda. (3196)

257. mál, húsakostur Alþingis

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 510 flytjum við forsetar Alþingis Helgi Seljan, Sverrir Hermannsson ásamt mér, og Benedikt Gröndal, hv. 4. þm. Reykv., till. til þál. um framtíðarhúsakost Alþingis.

Hinn 1. júlí n. k. eru 100 ár liðin síðan Alþingi kom fyrst saman til fundar í þessu húsi. Það segir sína sögu um það, sem öllum hv. alþm. er best kunnugt, hvað starfsemi Alþingis hefur aukist og margfaldast frá því Alþingishúsið var reist. Það ber sannarlega vitni stórhug forfeðra okkar við undirbúning að og ákvörðun um byggingu þessa húss að enn þá skuli þing vera haldið í þessu húsi og í þessu sal, a. m. k. lítið breyttum. Það er hins vegar ekki að undra þótt nokkuð sé umliðið síðan farið var að ræða um endurbætur á húsakosti Alþingis og byggingu á nýju alþingishúsi.

Í þeim umr., sem farið hafa fram, var m. a. minnst á þann möguleika að reisa alþingishús á nýjum stað og bent á ýmsa staði hér í Reykjavík og jafnvel utan hennar sem kæmu þar til greina. En ekki náðist samstaða um slíkan stað eða framkvæmdir að öðru leyti svo að úr þeim hefur ekkert orðið fram að þessu. Hins vegar hafa brýnustu þarfir Alþingis í húsnæðismálum verið leystar á þann hátt að keypt hafa verið gömul hús hér í grenndinni og þau tekin til notkunar fyrir margvíslega starfsemi sem fram fer á vegum Alþingis. Á þann hátt hefur fengist húsaskjól fyrir þessa starfsemi, en að öðru leyti held ég að óhætt sé að fullyrða að það hafi ekki skapað æskilega starfsaðstöðu. En með þessum húsum hefur Alþingi jafnframt fengið lóðir svo að nú á Alþingi að mestu orðið svæðið sem afmarkast af Templarasundi, Kirkjustræti, Tjarnargötu og Vonarstræti, nema húsið Vonarstræti 10 og þá lóð sem því fylgir. Þar með hefur Alþingi fengið umráð yfir svo stóru svæði hér í kring að það á að vera auðvelt að koma þar fyrir byggingum sem nægja munu Alþingi um ófyrirsjáanlega framtíð. Það virðist því ekki vera lengur nein ástæða til að flytja Alþingi frá þeim stað þar sem það hefur nú verið háð um einnar aldar skeið, og reyndar má segja hér á þessu svæði allt frá því að það var endurreist, því að fram að þeim tíma að þetta hús var byggt var það haldið í Menntaskólanum í Reykjavík hér örskammt frá.

Það er af þessum ástæðum sem við flytjum nú till. um það, að nú þegar verði efnt til samkeppni á meðal arkitekta um byggingu sem hæfa og henta muni Alþingi í náinni framtíð hér á þessum stað. Við teljum að jafnframt því sem þörfin knýr á að þetta verði gert, þá sé það viðeigandi nú á 100 ára afmæli þessa húss, og við væntum þess, að samstaða náist um að gera það af sömu reisn og stórhug og einkenndi byggingu þessa húss á þeim tíma sem það var reist.

Ég vil vænta þess, að þessi till. fái greiða afgreiðslu og góðan stuðning hér á Alþingi, og óska þess, að henni verði nú, þegar þessari umr. er frestað, vísað til hv. fjvn.