15.10.1980
Efri deild: 3. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

3. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég harma það, að það skuli hafa farist fyrir að láta hv. fjvn. í té þær upplýsingar sem hv. fyrr. formaður hennar sagði að hún hefði tvívegis beðið dómsmrn. um. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að leyna neinu í sambandi við þessi kaup, aðeins skýra satt og rétt frá málinu, eins og það hefur gerst frá upphafi til enda. En ég vil aðeins spyrja hv. þm., sem hér hafa stigið í stólinn, — eða stigið upp í þyrluna, mætti e.t.v. segja, af því hana bar á góma, — um það, hvað fjvn. hefur á undanförnum árum eytt miklum tíma í að fjalla um lánsfjáráætlun. Ég ætla að sá tími hafi ekki verið ýkjalangur, hvorki á síðasta þingi né heldur á liðnum árum eftir að farið var að gera lánsfjáráætlun. Það væri gaman að fá það upplýst, hvað löngum tíma hefur verið varið í að ræða almennt um lánsfjáráætlunina á þeim vettvangi, hvað þá einstaka þætti hennar.