04.11.1980
Neðri deild: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég átti kost á því að fá að tala um þetta í klukkutíma í gærkvöld horfandi sífellt til vinstri, eins og minn er háttur, og í það skipti á auðan stól hv. forsetaframbjóðanda til Alþýðusambands Íslands. Ég skal viðurkenna að þá leit stóllinn hans miklu betur út en nú.

Herra forseti. Þeim Alþfl.-mönnum hefur hingað til, allar götur frá því fyrst var lagt á olíugjald í mars 1979 og fram að þessu sinni, sem er í sjöunda skipti sem þetta mál kemur hér til umr., sjöunda skipti sem þessum lögum er breytt ævinlega fundist gjaldið eðlilegt. Til sönnunar því var tesið upp úr þingtíðindum og þskj. í gærkvöld stafrétt og orðrétt eftir þeim. Það var hv. þm. Kjartan Jóhannsson, þáv. hæstv. sjútvrh., sem gekkst fyrir olíugjaldinu margsinnis: 2.5%, 5%, 7%, 9%,15=3%. (MB: Hvað er það mikið?) Ævinlega lýstu þessir menn yfir, að þeir væru fylgjandi olíugjaldinu, með mismunandi áherslum. — 15=3% = 12%. Þannig var að olíugjaldið var 15%, en 3% af því komu til skipta. Þetta veit hv. þm. Matthías Bjarnason fullvel.

Það er merkilegt að jafnágætur maður og Matthías Bjarnason, hv. þm., skuli leyfa sér það í árásarhneigð sinni á ríkisstj. að mæla gegn eigin skoðunum með því að setja á svið merkilegar leiksýningar í sölum Alþingis. En það, sem er athyglisverðast við orð hv. þm. Karvels Pálmasonar, er að vísu ekki hávaðinn. Það er hins vegar það, að hann lætur utanaðkomandi aðila breyta skoðun sinni. Raunar hefur maðurinn enga skoðun. Hann fær hana senda utan úr bæ hverju sinni. (Gripið fram í: Frá Bolungarvík.) Allt samráðskjaftæðið og hræsnin í munni þessa manns er hreint bull og ósæmilegt að bera það á borð. Hræsnin kemur víðar fram og af fleiri hv. þm. hálfu í þessu máli, — hjá mönnum sem börðust gegn því, að olíugjaldið yrði lækkað. Þeir hamast nú eins og óðir væru gegn því, að það sé hækkað.

Það er líka dálítið athyglisvert að hv. þm. Karvel Pálmason og aðrir Alþfl.-menn skuli núna með málflutningi sínum og atkvgr. ganga á móti því sem formaður þeirra er búinn að gera margsinnis.