24.03.1981
Sameinað þing: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3069 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

246. mál, samræming á mati og skráningu fasteigna

Flm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Okkur Íslendingum hættir gjarnan til að vera tregir til að taka upp nýja og oft nauðsynlega þjónustu. Við viljum ekki auka við báknið. Á hinn bóginn erum við einnig mjög tregir til að leggja niður eða draga úr þjónustu sem upphaflega hefur verið nauðsynleg, en vegna breyttra aðstæðna er það e. t. v. ekki lengur, a. m. k. ekki í sama mæli og upphaflega. Stundum tökum við upp þjónustu sem á að yfirtaka störf annarrar sem fyrir er, e. t. v. í nokkuð annarri mynd. Sú nýja tekur til starfa, sú gamla heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Af þessum og mörgum öðrum ástæðum á sér stað mikill tvíverknaður í þjóðfélaginu með tilheyrandi aukakostnaði.

Dæmi um tvíverknað er mat fasteigna, annars vegar brunabótamatið, hins vegar fasteignamatið. Öll nýbyggð hús eru metin brunabótamati strax og þau eru tilbúin til notkunar. Kostnaðinn við það greiða húsbyggjendur. Þau tryggingafélög, sem annast brunatryggingar fasteigna, láta svo gjarnan á 5–8 ára fresti endurskoða brunabótamat í hinum ýmsu byggðarlögum eftir því sem tilefni er talið til. Kostnað við það greiða tryggingafélög. Auk þess getur svo hver og einn hvenær sem er óskað eftir endurmati á húseignum sínum. Að öðru leyti fylgir brunabótamatið ársfjórðungslegum breytingum á byggingarvísitölu. Ekki er vitað nákvæmlega um heildarkostnað við brunabótamat á landinu öllu, en áætla má að hann sé á bilinu 300–400 millj. gkr. á ári miðað við áætlað verðlag ársins 1981. Samkv. fjárl. fyrir árið 1981 er áætlaður kostnaður við Fasteignamat ríkisins 491 millj. gkr. og er þá miðað við verðlag og kaupgjald eins og það var í des. s. l. og á því auðvitað eftir að hækka. Auk þess leggja sveitarfélögin fram talsverða vinnu við undirbúning fasteignamatsins.

Hér er að mestu leyti um óþarfan tvíverknað að ræða og miðar þáltill. að því að draga mjög verulega þar úr. Brunabótamat hvers húss er miðað við endurbyggingarkostnað sams konar húsnæðis. Fasteignamatið gengur í stórum dráttum út frá því sama, en matsupphæðin er lækkuð með fyrningarstuðli. Auk þess er tekið tillit til áætlaðs markaðsverðs í hverju byggðarlagi. Þar við bætist svo mat lóða og lendna sem ekki er innifalið í brunabótamatinu.

Einn höfuðtilgangur fasteignamatsins er að meta eignir sem grundvöll skattlagningar (eignarskattur til ríkissjóðs, fasteignaskattur til sveitarfélaga, vatnsskattur o. fl.) Spurningin er því einfaldlega sú, hvort og þá hvernig nota megi grundvöll brunabótamatsins í sama tilgangi. Í fyrsta lagi er auðvelt að nota fyrningarstuðul við ákvörðun skatta, ef það er á annað borð talið æskilegt. Í öðru lagi er auðvelt að setja inn ákveðinn verðbreytingarstuðul fyrir hvert byggðarlag. Með þessu tvennu er svo til búið að ná grunni fasteignamatsins út úr brunabótamatinu. Í þriðja lagi þarf svo að meta nýjar lóðir og lendur og endurskoða eldra mat á nokkurra ára fresti. Að öðru leyti fylgir það breytingum á byggingarvísitölu eins og annað mat. Þar eð hér er fyrst og fremst um að ræða mat til skattlagningar er eðlilegt að ríkisskattstjóri annist það og endurskoðun þess á nokkurra ára fresti í samráði við viðkomandi sveitarfélög eða samtök þeirra og með aðstoð Þjóðhagsstofnunar sem m. a. hefur yfir að ráða öllum nauðsynlegum upplýsingum sem varðalandbúnað.

Því hefur verið haldið fram, að þetta muni leiða til mikillar hækkunar fasteignagjalda, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Það er engan veginn rétt. Sumir mundu segja að það væri mikill misskilningur. Ég hef bent á að auðvelt er að nota sérstakan fyrningarstuðul og auðvelt að nota sérstakan verðfyrningarstuðul fyrir hvert byggðarlag og ná þannig núverandi fasteignamatsgrunni út úr brunabótamatinu. Auk þess hafa sveitarfélögin nokkuð frjálsar hendur um álagningu fasteignagjalda. Það þarf því engan veginn að verða breyting á fasteignagjöldum þótt sá háttur verði upp tekinn sem þáltill, gerir ráð fyrir. Svo til allir útreikningar og upplýsingar, bæði hjá Fasteignamati ríkisins og viðkomandi tryggingafélögum, eru unnar og geymdar í tölvum og því auðvelt að samræma þær og sameina.

Það mætti hugsa sér að ná svipuðum árangri til sparnaðar með því að fela Fasteignamati ríkisins að annast brunabótamat húseigna og er rétt að athuga þann möguleika einnig. Fasteignamat ríkisins hefur í sínum tölvum svo til sömu upplýsingar og þær sem liggja til grundvallar brunabótamati. Einfaldara virðist þó að fara þá leið sem þáltill. gerir ráð fyrir, m. a. vegna þess að það eru beinir hagsmunir húseigenda að brunabótamatið sé ávallt sem réttast. Tilkynningar um endurbætur húseigna og viðbætur koma því miklu fyrr til tryggingafélaganna en til Fasteignamats ríkisins og dómkvaddir matsmenn tilnefndir af viðkomandi sveitarfélagi eru ávallt til staðar til að framkvæma brunabótamatið. Þar við bætist svo að ríkisfyrirtækjum hættir meira en öðrum til að hlaða utan á sig, til að verða að báknum. Með þáltill. er ekki verið að gagnrýna störf Fasteignamats ríkisins. Tilgangurinn er eingöngu sá að draga stórlega úr óþarfa tvíverknaði og óþarfa tilkostnaði. Þáltill. er þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa breytingu á lógum um fasteignamat og fasteignaskráningu með það fyrir augum að leggja Fasteignamat ríkisins niður í núverandi mynd.“

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.