25.03.1981
Efri deild: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3073 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

5. mál, barnalög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Mér skilst að þetta sé í fimmta sinn sem frv. um barnalög er lagt fyrir hv. Alþingi, og nú loksins virðist sjá fyrir endann á því að það nái fram að ganga. Það hefur komið fram, að menn eru ekki sannfærðir um að allt, sem í þessu frv. felst, sé gott, og einmitt það, að breytingar eru gerðar á frv., einnig í allshn. Ed. eftir að það hefur fengið umfjöllun í allshn. Nd., staðfestir það, að menn eru hikandi í þessum efnum.

Enn mætti nefna, eins og fram kom áðan hjá frsm., að þegar málið var hér til afgreiðslu við 2. umr. kom ábending frá hæstv. félmrh. um atriði sem lagfæra þyrfti í 50. gr. Nefndin skoðaði þetta og telur til bóta þá brtt. sem gerð er á þeim atriðum. Þannig eiga eflaust fleiri gallar eftir að koma fram. En hitt hefði verið til vansa fyrir hv. Alþingi, ef þetta frv. hefði ekki fengið afgreiðslu á þessu þingi. Ég held að við getum fagnað því, að frv. er á leið í höfn, hafandi í huga að möguleikar gefast þá síðar til að lagfæra einstök atriði ef reynslan sýnir að þess gerist þörf.