25.03.1981
Efri deild: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3078 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Hér kemur til umr. frá sjútvn. Ed. frv. til l. um breyt. á lögum nr. 2 1. febr 1980, um breyt. á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum, nr. 5 13. febr. 1976. Meginefni frv. er að lækka útflutningsgjald af frystum sjávarafurðum úr 5.5% í 4.5% af fob-verði afurðanna, en hækka útflutningsgjald af skreið í 10% þannig að heildarfjárhæð útflutningsgjalda sé sem næst óbreytt.

Í umr. um þetta mál hafa menn gjarnan kallað þetta styrkja- eða millifærsluleið og talið hana ófæra með öllu, þrátt fyrir það að þetta gjald sé aðeins tímabundið og eigi að falla úr gildi 31. des. 1981. Frv. var sett fram í beinu framhaldi af síðustu fiskverðsákvörðun og er megintilgangurinn að bæta hag frystingarinnar, sem ekki hefur staðið eins vel að undanförnu og aðrar greinar gera nú um sinn. Nauðsyn þess að tryggja svo sem kostur er að frystingin geti gengið sem best helgast m. a. af því, að sú grein framleiðslunnar er um 40% af útflutningi okkar og veitir auk þess mjög mikla atvinnu eins og við vitum. Vissulega hefði getað komið til álita við ákvörðun fiskverðs að hækka enn frekar en gert var annan og þriðja verðflokk vegna þess að þær greinar fiskvinnslunnar hafa haft betri afkomu nú um sinn, eins og ég vék að áðan. Að mati þeirra, er um þessi mál fjölluðu, var ekki talið skynsamlegt að ganga lengra en gert var til að minnka þann verðmun sem verið hefur á milli 1. gæðaflokks og lakari fisks.

Sjútvn. afgreiddi frv. um útflutningsgjaldið á fundi sínum 19. mars s. l. eftir að hafa leitað umsagna um málið. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl., þeir Guðmundur Bjarnason, Geir Gunnarsson, Gunnar Thoroddsen og Stefán Guðmundsson, leggja til að frv. verði samþ, eins og það liggur fyrir á þskj. 436, en hv. nm. Guðmundur Karlsson, Egill Jónsson og Kjartan Jóhannsson skila séráliti.