25.03.1981
Neðri deild: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3090 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Nú þegar þetta frv. til laga um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu er að koma til atkvæða í seinni deild á hv. Alþingi er liðinn nærfellt mánuður síðan áþreifanlegustu efnisatriði þessa frv., þ. e. 5. gr. frv. um skerðingu vísitölubóta á laun, eru komin til framkvæmda.

Almennt um þessi efni er það auðvitað kjarni málsins, að þrátt fyrir þessi brbl. standa spár til þeirrar áttar, að verðbólgan muni nema á þessu ári 50–60% ef ekki verður frekar að gert. Hæstv. viðskrh, segir hér áðan, sem hann hefur raunar oft sagt áður, að þessar aðgerðir skili engum árangri nema — svo að vísað sé beint til orða hans — þeim sé fylgt eftir með öðrum aðgerðum. Þetta er auðvitað bæði satt og rétt. En spurningin stendur þá um það, hverjar þessar aðrar aðgerðir eru sem hæstv. ráðh. segir að nauðsynlegar séu, með hverjum hætti að því er stefnt og með hverjum hætti fylgt verður eftir.

Um þessi efni hafa auðvitað farið fram ítarlegar umr. í samfélaginu öllu, en eitt vantar þó. Það er auðvitað ljóst, að þegar boðskapur ríkisstj. gekk út á gamlársdag var eitt öðru fremur æpandi staðreynd. Og það var sú einfalda staðreynd, að verðbætur á laun skyldu skertar um 7 prósentustig frá og með 1. mars 1981.

Í nál., sem hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, dreifði hér með tillögum Alþfl., reifar hann og rifjar upp ummæli eins af hv. stjórnarsinnum, Guðmundar J. Guðmundssonar, sem hann lét falla um sams konar aðgerðir á árinu 1978, og ég vil raunar einnig, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði í sinni ræðu, rifja þessi ummæli upp gagngert í því skyni að kalla eftir greinargerð frá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni. Hann sagði 1978 þessar setningar, með leyfi hæstv. forseta:

„Í annan stað vil ég benda á að heiðarlegasta fólk þessa lands er hinn venjulegi alþýðumaður, og það hefur fram til þessa litið svo á, að samningar, sem það gerir, séu löglegir og heiðarlegir samningar.“

Þetta birtist í Þjóðviljanum 28. febr. 1978. Og í annan stað sagði hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson í ræðu, sem hann flutti 1. maí 1978, með leyfi hæstv. forseta:

„Í hugum alþýðufólks eru samningar skuldbindandi. Almennt alþýðufólk lítur á samning þannig, að honum megi ekki rifta eða hlaupast frá.“

Tilvitnanir í þessa veru eru auðvitað miklu fleiri, en ég læt þennan upplestur nægja. Mig langar til að mælast til þess og kalla eftir því við hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson, að áður en þessi mál koma til atkvgr. nú eftir 2, umr. hér í Nd. geri hann í örstuttu máli grein fyrir því héðan úr ræðustól, hvað það er sem hefur breyst, hver eðlismunurinn er og hvort það hafi breyst á milli áranna 1978 og 1981, að alþýðufólk þessa lands liti á samninga, sem gerðir eru, sem löglega og heiðarlega samninga. Ég hygg að það sé út af fyrir sig rétt, að fólk vill geta litið svo á, að samningar, sem gerðir eru, séu bæði löglegir og heiðarlegir samningar. En ég hygg einnig að fólk vilji líta svo á, að stjórnmálamenn og alþm., sem svona orð viðhafa, skipti ekki um skoðanir í þessum efnum svo auðveldlega sem hér hefur augljóslega átt sér stað. Ég minni á það í sambandi við þau brbl. sem út voru gefin á gamlársdag, að það er að vísu rétt, að Alþýðusambandið, nýkjörin forusta þess, var ærið veikgerð í sinni umsögn um þetta mál, en á hinn bóginn mótmælti Bandalag starfsmanna ríkis og bæja mjög kröftuglega og með nákvæmlega sömu rökum og fyrrnefndur hv. þm. og raunar fleiri hv. þm., eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir, gerðu fyrir örfáum árum.

En af hverju skiptir það máli, að til að mynda hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson geri grein fyrir því og leyfi þingheimi og þjóðinni einnig að heyra hverjar eru röksemdir fyrir því að það sé leyfilegt nú sem var óleyfilegt þá'? Það er vegna þess að því er marglýst yfir, að þessar aðgerðir séu ekki nein efnahagsleg endastöð. Því er marglýst yfir og m. a. af þeim hæstv. ráðh. sem hér var í ræðustól næstur á undan mér, að þessar aðgerðir séu nærfellt lítils virði, nær því einskis virði nema þeim sé fylgt eftir. Og getur það verið að þessi eftirfylgja eigi eftir að felast í því, að til enn verulegri kjaraskerðingar, enn verulegri skerðingar á vísitölubótum á laun eigi eftir að koma'á næstu vikum eða mánuðum? Getur verið að þessar aðgerðir séu einasta byrjunin á þeim leik?

Ég er þeirrar skoðunar, að fólk í þessu landi, kjósendur, allur almenningur eigi kröfu á því, að nokkurt samhengi sé á milli orða og gerða, hann eigi kröfu á því, að menn gangi ekki svo blygðunarlaust á bak orða sinna að menn skipti ekki svo blygðunarlaust um skoðun eins og hér hefur átt sér stað. Og af þeirri ástæðu kalla ég áður en þetta frv. kemur nú til atkv. — eftir þó ekki væri nema örstuttri grg. frá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni um það, hvað hefur breyst, hvort orð og lýsingar frá vormánuðum 1978 eigi ekki lengur við, hvað það raunverulega sé sem hafi breyst í þjóðfélaginu, hvað það er sem hafi breyst í þeim efnum, að alþýða þessa lands, sem hann þá sagði að liti svo á að gerðir samningar væru löglegir og heiðarlegir og á þá mætti ekki ganga, hvers vegna það, sem óleyfilegt var þá, er orðið leyfilegt nú, og af hverju er með þessum hætti verið að höggva aftur og aftur í sama knérunn. Og ég endurtek ástæðurnar fyrir því, að ég beini orðum til þessa hv. þm. Það er vegna þess að margir ráðh. í hæstv. ríkisstj., og þ. á m. sá sem hér talaði síðast, endurtaka aftur og aftur að þetta séu einasta fyrstu aðgerðir. Og það er auðvitað alveg ljóst, því að þrátt fyrir að gengið hafi verið á samninga með þeim hætti sem hér hefur verið rakið, þá stefnir samkv. spám allt í það, að hér verði áfram 50–60% verðbólga. Og þar sem hvorki hæstv. ráðh. né sá sem hér stendur og sennilega ekki hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson heldur telur það viðunandi árangur, þá er spurningin með hverjum hætti verði haldið áfram. Verður haldið áfram að höggva í knérunn launanna? Mun hv. þm. Guðrún Helgadóttir, munu hv. þm. Alþb. sætta sig enn við það og semja um skerðingu á vísitölubótum launa til þess að halda lífinu í núv. ríkisstj. með sama hætti og verið hefur?

Ég endurtek enn: Ég óska eftir því að áður en þessi mál komi til atkvgr. geri hv. þm. hér grein fyrir því, af hverju hann hyggst greiða frv. atkv. — sem ég hygg að hann muni gera — og ég vænti þess að þau orð, sem hann þá lætur falla, geti orðið álíka söguleg og álíka til þess fallin að í þau sé vitnað eins og þau orð sem hann lét falla um svipuð efni, en væntanlega í aðra átt, á árinu 1978.