25.03.1981
Neðri deild: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3092 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. þm., einkum og sér í lagi Vilmundur Gylfason og Sighvatur Björgvinsson, hafa við þessar umr. ástundað vitnaleiðslur. Aðalvitnið í máli þeirra hefur verið hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, síðasti móhíkaninn í þingflokki Alþb., síðasti fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar í þessum hv. þingflokki sem hann stundum kennir við gáfufólk.

Ég tek það fram, að ég er tregur til að taka þátt í þessum leik. Satt að segja rennur mér þegar til rifja þögn hv. þm. Og ég vil reyndar taka það fram, að kannske væri rétt að nota tækifærið og leiða fram fleiri vitni, því að fleiri þyrftu trúlega að svara til saka.

Fleyg voru þau ummæli þegar hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, á þeim örlagaríku dögum í febr. — maí 1978, spurðist fyrir um það, hver væri reiðubúinn til þess að ferja kóngsins lausamenn yfir Skerjafjörð. Að þessum fleygu ummælum hefur verið vikið, einkanlega vegna þess að hv. þm. hefur sjálfur svo eftirminnilega gerst ferjumaður kóngsins, þ. e. ráðh. Alþb., yfir þann Skerjafjörð kjaraskerðingarinnar sem framkvæmd var með lagaboði til að rifta kjarasamningum 1. mars s. l. Þetta tal um kóngsins ferjumann, sérstaklega í innblásnum særingarþulum hv. þm. Sighvats Björgvinssonar hér á mánudag, minnti mig á harmsögulega goðsögn forngríska, um örlög Orfeusar og Evridísar. Orfeus þessi var sem kunnugt er ákaflega hugfanginn af sinni Evridís, eins og vitað er líka að Alþb. er hugfangið af sinni verkalýðshreyfingu og þó einkum og sér í lagi sínum verkalýðsforingjum. Þau urðu örlög Orfeusar, þegar Evridís varð fyrir ótuktarlegu snáksbiti og hvarf á braut til heljar, — hann var mikill og góður tónlistarmaður, eins og raunar hæstv. forsrh. hefur orð á sér fyrir að vera — og hann fékk leyfi hins fræga ferjumanns á Heljarfljóti að fara yfir það fljót, sem skilur að lifendur og dauða, og freista þess að sækja Evridísi til baka. En eitt skilyrði var sett, og það var að hann mætti aldrei líta til baka á leiðinni. Harmleikurinn var í því fólginn, að Orfeus stóðst ekki freistinguna og leit til baka.

Það má ekki taka þessa harmsögu of bókstaflega þó að vissir hlutir þoli líkinguna. Nú virðist mér sjálfur ferjumaðurinn standa í þeim sporum, að hann megi aldrei líta til baka til ummæla sinna eða athafna frá því í febr. og fram undir maí á árinu 1978 — og sennilega ekki heldur til þeirrar tíðar þegar kemur til atkvgr. hér á hinu háa Alþingi um lagasetninguna sem hann nú stendur að, um að þurrka út afleiðingar þeirra kjarasamninga sem hann sjálfur sat yfir ásamt félögum sínum í 10 mánuði.

Þetta á ekki aðeins við um ferjumanninn sjálfan, heldur líka þá sem sitja á ráðherrastólunum. Vilji þeir gera sér vonir um að viðhalda trúnaði verkalýðshreyfingarinnar, þá ríður þeim á að ekki sé litið til baka til þessara tíma og orð þeirra verði ekki rifjuð upp.

En þess má svo geta að lokum, til þess að ljúka líkingunni, að örlög Orfeusar urðu þau, að þegar hann hafði orðið að sjá á bak sinni Evridísi aftur yfir fljótið mátti hann ekki aðrar konur þýðast, en það rann svo í skap rauðsokkum þeirrar tíðar, að þau urðu endanleg örlög hans að hann var rifinn í sundur af trylltum rauðsokkum þeirra tíma. Mér renna svo mjög til rifja örlög þessara pólitísku ferjumanna Alþb., að ég bið þess lengstra orða, að við þurfum ekki að horfa upp á það í þingsölum, þótt nokkuð beri á pilsaþyt rauðsokka, að þau verði örlög yfirferjumanns.

En það eru, eins og ég vék að í upphafi, ýmsir fleiri sem þurfa að bregða kíkinum fyrir blinda augað, ef þeir eru beðnir um að líta til baka til þeirra fyrirheita, loforða og skuldbindinga sem þeir hafa gefið sínum kjósendum og sínum umbjóðendum í þeim málum sem það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um. Ég er ekki viss um að þeir framsóknarmenn þoli það með glöðu geði, að rifjað væri upp það sem þeir lofuðu kjósendum fyrir síðustu kosningar, ef það er borið saman við hvernig nú er komið í þeim efnum. Úr því sem komið er er nefnilega til ákaflega lítils að orðlengja um efnahagsráðstafanirnar sem hér liggja fyrir og þegar eru orðnar þriggja mánaða gamlar. Það er alveg rétt, sem margsinnis hefur komið fram og nú síðast hjá hæstv. viðskrh., að hér er um að ræða hefðbundnar skammtímaaðgerðir. Þetta er „fyrsta skrefið“, eins og þeir kalla það. En eins og hann komst sjálfur að orði, það mun koma fyrir lítið, verða jafnvel ekki að neinu gagni, nema því verði fylgt eftir með öðrum og markvissari aðgerðum og það fyrr en síðar.

Að vísu er það svo, að aðstandendur hæstv, ríkisstj. eru komnir í hár saman um þetta. Annars vegar eru menn eins og hæstv, viðskrh., sem viðurkenna fúslega að hér hafi verið um að ræða tímabundnar aðgerðir. Enn fremur má vitna til hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar, sem í umræðum á ársfundi Félags ísl. iðnrekenda komst að orði á þá leið, að áhrif þessara aðgerða næðu fram undir 1. maí, en þá mundi stíflan bresta ef ekki kæmu til viðbótaraðgerðir. Formaður Framsfl. hefur einnig tekið undir þetta sjónarmið þannig að það fer ekki á milli mála. Og um þetta er ekki út af fyrir sig, held ég mikið deilt. Markmiðið með lagasetningunni, sem hér liggur fyrir, er yfirlýst að ná verðbólgu niður undir 40% fyrir árslok árið 1981. Það liggur þegar fyrir skjalfest af Þjóðhagsstofnun, og á því hefur engin breyting orðið, enda ekki tilefni gefist til að endurnýja það mat, að þetta markmið næst ekki. Það liggur fyrir, að verðbólgan verður áfram á sama róli, 50% eða rúmlega það, verði ekki gripið til þeirra ráðstafana sem framsóknarmenn telja nauðsynlegar, en hafa hingað til verið ófáanlegir til að lýsa í hverju ættu að vera fólgnar. Ráðstafanir eins og tímabundin vísitöluskerðing kaupgjalds, tímabundin stöðvun gengissigs, sem í eðli sínu getur ekki staðist nema tiltölulega skamma hríð, og tímabundin verðstöðvun, sem einnig á að vera lokið 1. maí, allt eru þetta bráðabirgðaaðgerðir. Vissulega er ekki því að neita, að borið saman við engar aðgerðir hefur þetta borið nokkurn árangur. En allt er þetta þess eðlis, að um leið og áhrif þess fjara út nú á öðru vísitölutímabili mun sækja aftur í sama horfið.

Það er aðeins eitt atriði þessara ráðstafana sem skiptir sköpum um að breyta mælikvarðanum á verðbólguþróunina. Það er að sjálfsögðu afnám kjarasamninganna. En þegar nálgast tekur 1. maí, þá eru áhrif verðstöðvunar einnig farin að fjara út og gengisstöðvunar sömuleiðis. Hvað tekur þá við — það er spurningin. Í sambandi við hækkun framfærsluvísitölu 1. maí n. k. er vitnað til áætlunartölu frá Hagstofunni um að sú hækkun sé áætluð 8.45%. Það liggur að vísu þegar fyrir, að ýmsir kostnaðarþættir, svo sem fram kom í máli hv. 1. þm. Reykv., hafa ekki verið teknir inn í dæmið. Á það má minna, að Hagstofan hafði einnig spáð að hækkun byggingarvísitölu á sama tíma yrði um 8%. En nú liggur fyrir að hún er 1% hærri en fyrirhugað var. Aðspurðir gefa sérfróðir menn þær skýringar, að það hafi einfaldlega komið á daginn, að byggingarvöruverslanir hafi tekið sér sjálfdæmi um hækkun verðlags umfram heimildir og það væri engan veginn einsdæmi. Menn, sem lesa blöð, vita það og þekkja, að verðstöðvunin hefur verið öll í molum. Því fer fjarri, að hægt hafi verið að framfylgja henni í reynd. Og ekki þarf að orðlengja um það, að ekki mun það takast til langs tíma.

Mér sýnist nauðsynlegt að fá um það skýrari svör en hér hafa komið fram frá ráðh. Framsfl., hvernig þeir vilja koma í veg fyrir að aftur sæki í sama horf. Þeir vefengja ekki nauðsyn nýrra aðgerða. Þeir tala hreint út um það, að til þeirra þurfi að grípa. Það verður að beina þeim spurningum til hæstv. viðskrh. og óska eftir því, að hann geri betur grein fyrir því, hvaða vandamál það eru, sem þarf að leysa fyrir 1. maí eða 1. júní, og hvernig framsóknarmenn hugsa sér að fá samstarfsaðila sína í ríkisstj. til að fallast á þau úrræði sem menn almennt vita að framsóknarmenn hafa efst í huga. Það er vafalaust laukrétt hjá hæstv. viðskrh., að menn skrúfa ekki fyrir 50% verðbólgu eins og menn skrúfa fyrir gufuradíóið. Það er líka laukrétt hjá hæstv. viðskrh., að ef menn ætla sér að ná einhverjum árangri í því, þá þarf að beita samræmdum aðgerðum á mjög mörgum sviðum, eins og hann hefur gerst einbeittur talsmaður fyrir.

Þess vegna er dálítið undarlegt að fá þau svör ein, að ríkisstj. sé nú að taka sólarhæðina, það sé verið að ræða málið. Ég get ekki látið hjá líða að minna á að sú var tíð að framsóknarmenn töluðu miklu ákveðnar um þessa hluti. Það er ekki nóg að hælast um yfir því, að enn sem komið er hefur ekki komið til atvinnuleysis vegna óðaverðbólgu á Íslandi. Framsóknarmenn þóttust hér áður fyrr hafa ráð undir rifi hverju og hétu þjóðinni því að vinna bug á verðbólgunni án þess að til atvinnuleysis þyrfti að koma.

Ég held að það sé kominn tími til fyrir forsvarsmenn Framsfl. að blaða nú á ný í þessu græna kveri, sem heitir „Ný framsókn til framfara“ og er hin fræga kosningastefnuskrá framsóknarmanna, boðorðið um niðurtalninguna. Það eru nefnilega fleiri en ferjumaðurinn mikli sem nú eru í þeim sporum að þurfa að fara á upprifjunarnámskeið um það, hverju háttvirtum kjósendum var heitið af hálfu Framsfl. Það skal tekið fram, að sá áróður, sem framsóknarmenn settu fram fyrir kosningar 1979 og leiddi síðan til stjórnarþátttöku þeirra, bar vissulega bærilegan pólitískan árangur. Hann var tekinn trúanlegur af kjósendum. Þess vegna vil ég — með leyfi forseta — leyfa mér að rifja upp fyrir viðskrh. og þeim öðrum forsvarsmönnum Framsfl. hvaða loforð voru gefin. Þá var nefnilega ekki verið að tala um það, að nú stæði til að taka sólarhæðina. Þá var búið að því. Í græna pésanum stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Meginmarkmiðið er að verðbólgan verði undir 30% á árinu 1980 og undir 18% á árinu 1981. Í samráði við hagsmunaaðila verði þessar ráðstafanir gerðar: Lögfest verði hámark verðhækkana á vörum og þjónustu, sem fari stiglækkandi ársfjórðungslega.“

Það vill svo til að í nál. þeirra sjálfstæðismanna er sérstaklega spurst fyrir um það, hvenær vænta megi þess, að þessi lögfestu hámörk verði tilkynnt: þar er birt fylgiskjal, þ. e. bréf hæstv. viðskrh. til fjh.- og viðskn. Ed. þar sem hann segir — með leyfi forseta — um þetta efni:

Ríkisstj. er að fjalla um frekari aðgerðir í efnahagsmálum, en niðurstöður liggja ekki fyrir enn. Verðlagsmálin eru einn þáttur þessara mála. Af þessum ástæðum er ekki unnt að svara spurningu nefndarinnar á þessu stigi málsins.“

Þetta er svarið 19. febr. Svarið var hið sama núna rétt áðan. M. ö. o.: samkomulagið, sem átti að gera í verðlags- og kaupgjaldsmálum og er hornsteinn framsóknarstefnunnar í efnahagsmálum, sjálfur kjarni niðurtalningarinnar sem lofað var í þessari ágætu kosningastefnuskrá, hefur enn ekki verið framkvæmt, rúmu ári eftir að Framsfl. gerðist aðili að ríkisstj., árið 1980 í febrúarmánuði. Við stöndum í þeim sporum, að það er enn ekki farið að byrja á því að framkvæma það sem hér kjarni málsins.

Í þessu ágæta stefnuplaggi segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Leitað verði samkomulags við launþega um óbreytt grunnkaup á árinu 1980 og um lögfest hámark verðbóta í samræmi við leyfðar verðhækkanir. Með þessu verði komið í veg fyrir að einstakir hálaunahópar brjótist út úr launarammanum. Verði verðhækkanir meiri en hámark verðbóta skulu kjör hinna tekjulægstu bætt með fjölskyldubótum og auknum tryggingagreiðslum. Kaupmáttur almennra launa verði varinn og síðan aukinn þegar líður á verðhjöðnunartímabilið. Í því sambandi verði tekið fullt tillit til viðskiptakjara.“

Auk þess segir enn, með leyfi forseta:

„Gætt verði aðhalds í ríkisfjármálum, peningamálum og fjárfestingarmálum“. — Það er kafli um hina almennu efnahagsstjórn.

Framsóknarmenn settu fram þessi hámörk verðhækkana í sinni kosningastefnuskrá fyrir árið 1980. Samkvæmt þeim leyfðu hámörkum átti að takast að ná verðbólgu niður fyrir 30%. Verðbólgan reyndist hins vegar 58.9%. Ástæðan er auðvitað sú m. a., að innan þessarar ríkisstj., sem Framsfl. á aðild að, var aldrei nokkurt samkomulag um að framkvæma stefnu Framsfl. Það hefur orðið hlutverk hæstv. viðskrh. Tómasar Árnasonar að rifja það upp fyrir þm. og fyrir landsmönnum hver þessi stefna var, en það hefur orðið hlutverk Alþb. ráðherranna, samstarfsmanna hans, að þagga niður í honum, að hafa þau ummæli að háði og spotti, að vefengja þau og að tryggja það í framkvæmd, að ekkert verði af framkvæmd stefnunnar.

Hér þykir mér óneitanlega heldur illt í efni. Ég held að hjá því verði ekki komist fyrir framsóknarmenn, þegar þessi kosningaloforð þeirra eru nú rifjuð upp og borin saman við árangur stjórnarstefnunnar og efndirnar á þeirra loforðum, að spyrja: Hverju hefur Framsfl. fengið áorkað í þessu stjórnarsamstarfi? Getur hann unað því að sitja í heila 11 mánuði í ríkisstj., þar sem hann á að heita forustuflokkur, og sætta sig við að samstarfsaðilarnir komi í veg fyrir að kjarnaatriði þeirrar stefnu, sem Framsfl. er skuldbundinn til að framkvæma, komist á dagskrá. Það er hægt að gagnrýna þessa stefnu út af fyrir sig og hafa um það mörg orð. Ég held að sú gagnrýni beinist frekar að ýmsum veikum punktum í stefnuskránni að því er varðar aðhaldsþættina almennt í ríkisfjármálum, peningamálum og í atvinnustefnunni. En stefnan var skýr að því er varðaði verðlagsmálin, verðbólgumálin og samskiptin við launþegahreyfinguna — og afstöðuna til vísitölukerfisins. Þar fer ekkert milli mála.

Hér er sagt fullum fetum að fullt tillit skuli tekið til viðskiptakjara að því er varðar vísitölukerfið. Nú náðist sá takmarkaði árangur í ríkisstjórnartíð hæstv. fyrrv. forsrh., núv. utanrrh., Ólafs Jóhannessonar, varðandi vísitölukerfi það sem við höfum búið við, að því skyldi þannig hagað, að tekið yrði tillit til þess, ef þjóðartekjur á mann fara minnkandi vegna versnandi viðskiptakjara. Þetta er algjört grundvallaratriði að því er varðar stefnu Framsfl. gagnvart vísitölumálum. Nú er það hins vegar svo, að framsóknarmenn fallast á það og undirskrifa það í núverandi efnahagsáætlun, að þessi takmarkaði árangur, sem þó náðist á stjórnartímabili fyrrv. formanns Framsfl., sé afnuminn. (Gripið fram í: Hann kemur aftur.) Er þetta loforð, má treysta því? (Gripið fram í : Það stendur í lögum.) Það er ekki um það að ræða, í lögunum er ekki gert ráð fyrir því á þessu ári. Nú vitum við að vísu ekki hver verður þróun viðskiptakjara, hvort þau fara batnandi eða hvort þau fara versandi, en lögin kveða ekki á um það, að fullt tillit skuli tekið til viðskiptakjara. Þvert á móti er tekið upp nýtt vísitölukerfi eftir 1. júní, á síðari hluta árs. (Gripið fram í: Ólafslög standa eftir áramót.) Það mun vera alvarlegur ágreiningur uppi um þetta mál í stjórnarherbúðunum eins og í flestu öðru og væri þess vegna æskilegt að fulltrúar Alþb. t. d. kæmu hér upp á eftir og gerðu grein fyrir því, hvort þeir staðfesti þennan skilning viðskrh.

Framsóknarmenn höfðu vissulega erindi sem erfiði í seinustu kosningum út á þessa stefnuskrá sem ég hef hér vitnað til. Þeir endurheimtu sitt fyrra fylgi og þeim var falin fyrstum flokka forusta fyrir stjórnarmyndunarviðræðum. Ég minni á það t. d., að í þeim stjórnarmyndunarviðræðum, sem lauk í desembermánuði síðla árið 1979, höfðu farið fram viðræður þriggja flokka, Framsfl., Alþfl. og Alþb. Þá varð það niðurstaða formanns Framsfl., þegar fram höfðu verið lögð stefnuplögg Alþfl.-manna og framsóknarmanna, að tiltölulega lítið bæri á milli þessara tveggja flokka að því er varðaði grundvallarsjónarmið um stjórn efnahagsmála. Hins vegar lýsti hann því yfir, að eitt vélritað blað, sem þá hafði verið fram lagt af Alþb., væri ekki umræðuvert. Sagan endurtók sig í janúarmánuði þegar stjórnarmyndunarviðræður höfðu átt sér stað um hríð milli þessara þriggja flokka undir forustu Alþb. Ég man ekki betur — og verð þá leiðréttur hér á eftir ef ég fer rangt með — en að formaður Framsfl. hafi staðið upp eftir þær viðræður og lýst því yfir, að stefnuplögg Alþb. væru ekki nothæf sem málefnagrundvöllur nýrrar ríkisstj. Þeim mun merkilegra er það, að þegar það gerðist undir forustu Benedikts Gröndals, þegar hann hafði með höndum stjórnarmyndunarviðræður og lagði fram einhverja ítarlegustu efnahagsáætlun sem lögð hefur verið fram við stjórnarmyndunarviðræður á Íslandi frá upphafi vega, þar sem þeir þættir efnahagsstefnunnar, sem fyrri viðræður höfðu leitt í ljós að framsóknarmenn og Alþfl.-menn voru sammála um, voru nákvæmlega útfærðir, þá bregður svo við að framsóknarmenn eru ekki einu sinni tilbúnir til þess að ræða málin. Þeir báru við ágreiningi um landbúnaðarmál sem engan veginn var þá fullreynt hvort unnt væri að leysa. M. ö. o.: framsóknarmenn eru með þeirri áráttu, virðist mér, að þrátt fyrir það að þeir viðurkenni í orði og það sé rækilega skjallega staðfest, að milli þeirra og Alþfl-manna var hvað minnstur ágreiningur um grundvallarsjónarmiðin í þeirri efnahagsstefnu sem hyggilegt væri talið að fylgja, þá hafna þeir samstarfi um að hrinda henni í framkvæmd. Höfðu þeir þó fengið ærna reynslu, trúi ég, í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, núv. hæstv. utanrrh., af samstarfinu við Alþb. Nú hefur allur ferill þeirra staðfest það í þessari ríkisstj., að þeir leika nú sama hlutverk og Alþfl. hafði gert áður í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, þ. e. þeir eru að reyna að berjast fyrir því að fá framkvæmda sína niðurtalningarstefnu sem þeir eru skuldbundnir kjósendum, en tekst það ekki. Nú er það grundvallaratriði og það sem skilur að þessa tvo flokka, að Alþfl. gat ekki sætt sig við að vera hindraður í því af samstarfsaðila eins og Alþb. að koma þýðingarmestu grundvallaratriðum stefnu sinnar fram. Og nú er löngu komið að því að spyrja framsóknarmenn: Ætla þeir að sætta sig við það miklu lengur, misseri eftir misseri, að koma engu fram af sínum stefnumálum og láta sér nægja að fara um þau fögrum orðum á mannfundum án þess að nokkurt mark sé á því tekið í reynd?

Það liggur raunar fyrir, að ósamkomulagið í þessari ríkisstj. snýst ekki aðeins um stefnuna í efnahagsmálum og framkvæmd hennar, og er þó ærið, sbr. gersamlega andstæðar yfirlýsingar annars vegar ráðh. Alþb. og Framsóknar. Ekki er ágreiningurinn minni þegar kemur að utanríkismálum. Það er spurning hversu lengi enn framsóknarmenn geta setið undir linnulausum landráðabrigslum samstarfsaðila sinna í stjórnarsamstarfinu, eins og gerðist í Jan Mayen-málinu, í málefnum varnarliðsins og í utanríkis- og öryggismálum yfirleitt. Ekki hvað síst er það spurning, hversu lengi þeir ætla að umbera árásir Alþb.-manna á hæstv. utanrrh. sem löngum hefur þó verið talinn ókrýndur konungur þeirra framsóknarmanna.

Ekki kveður minna að ágreiningnum að því er varðar orku- og atvinnumál, og þá sérstaklega mótun atvinnustefnu í framtíðinni. Ég minni á að hæstv. viðskrh. tók undir það á fundi á ársþingi iðnrekenda, að grundvallarstefnan í virkjunarmálum ætti að vera sú, að hraða virkjunarframkvæmdum a. m. k. um helming og virkja þrjár virkjanir a. m. k. nú innan tíu ára til þess að skapa svigrúm til að byggja upp orkufrekan útflutningsiðnað, sem væri eina leiðin til þess að bægja frá horfum á atvinnuleysi og landflótta og bæta raunveruleg kjör þjóðarinnar til frambúðar á næsta áratug. Þessi ræða viðskrh. fer mjög í taugarnar á Alþb.-mönnum þannig að það fer ekki á milli mála að ósamkomulag er allsráðandi um þýðingarmestu mál stjórnarsamstarfsins.

Mér virðist einsýnt að hæstv. ríkisstj. sé meira eða minna lömuð af sundurlyndi og ágreiningi. Á því er engin breyting fyrirsjáanleg. Að því er varðar viðnám gegn verðbólgu eða stjórn á henni, þá er niðurstaðan sú, að við hjökkum enn í sama farinu og á undanförnum árum. Að vísu er hægt að ná takmörkuðum árangri, þegar Alþb. er fáanlegt til þess að ganga á bak öllum sínum kosningaloforðum og kokgleypa sínar stærstu yfirlýsingar með því að þurrka út áhrif kjarasamninga. En þetta eru líka aðeins tímabundnar ráðstafanir og endast skammt. Og að því er varðar stjórn efnahagsmála að öðru leyti er ástandið nú þannig, að þeirri stefnu, sem Framsfl. er skuldbundinn til að fylgja og hefur boðað kjósendum sínum, henni hefur verið hafnað hingað til í þessu stjórnarsamstarfi. Spurningin er aðeins sú, hversu lengi framsóknarmenn geti sætt sig við það og eiga þó að heita forustuflokkur stjórnarinnar.

Að því er varðar stefnuna í atvinnumálum — (Gripið fram í.) — ég er að ljúka máli mínu, herra forseti — þá liggur ljóst fyrir að þar eru uppi gersamlega andstæð sjónarmið. Sama er uppi á teningnum varðandi afstöðuna í utanríkismálum. Þessi ríkisstj. er þannig stödd, að það er álitamál hversu sæmilegt það er eða hversu lengi það er þolandi fyrir hæstv. utanrrh. og félaga hans að sitja undir brigslyrðum Alþb.-manna.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu. Ég vitna til þess, að í mjög skemmtilegu blaðaviðtali fyrir skömmu lét formaður þingflokks Framsfl., Páll Pétursson, þau orð falla, að honum líkaði vel í félagsskap þeirra Alþb. manna. Hann lét þess einnig getið, að sér virtist sem Alþb. væri óðum að gerast eins konar Framsfl., einkum og sér í lagi vegna þess að margir forustumenn Alþb., sem nú eru — að komast til áhrifa í auknum mæli, eru fyrrverandi framsóknarmenn. Hann gaf þá skýringu, að sennilega væru framsóknarfjölskyldur betri til undaneldis en fjölskyldur þeirra Alþb.-manna. Nú efar það enginn, að framsóknarkynið er gott og hefur skilað þjóðinni mörgum vöskum syni. En spurningin er hvort það er framtíðarherstjórnarlist Framsfl. að vera einhvers konar pólitísk klakstöð til undaneldis fyrir Alþb. Hvenær hafa þeir fengið nóg? Er ekki kominn tími til þess fyrir þá að endurskoða grundvallarforsendur þessa stjórnarsamstarfs?