04.11.1980
Neðri deild: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr. nema tilefni gæfist til. Hv. frsm. minni hl. og formaður sjútvn., 4. þm. Suðurl., gaf það áðan.

Hv. þm. heldur áfram að stagast á því, að hann hafi lesið í gær. Hann las með miklu hörmungum því hann var með gleraugu sem pössuðu ekki. Það var hálfgerð hryggðarmynd að sjá þennan myndarlega mann reyna upplestur úr þingskjölum. Og hann er einn um það að segja að hann hafi lesið greinilega. Ég hef engan annan heyrt segja þetta, enda hefur engum getað fundist það.

Ég ætla að nefna það einu sinni enn þá fyrir þennan hv. þm., að það var fullt samræmi í afstöðu okkar til olíugjaldsins frá byrjun. Í tíð vinstri stjórnarinnar studdum við olíugjaldið fyrst og fremst vegna þess, að í fyrsta lagi þurfti útgerðin á því að halda, en í öðru lagi samþykktu sjómenn þessa málsmeðferð. Þegar afgreitt var frv. í jan. í vetur var það lagt fram af þáv. sjútvrh. og um það var fullt samkomulag að lækka prósentugjaldið úr 9 í 5%. Við stóðum að þeirri samþykkt. Hins vegar var öðru máli að gegna með afgreiðslu frv. fyrir áramótin. Það var ýmislegt í því gagnrýnisvert, en ekki gott að taka það aftur þegar tímabilið var svo að segja liðið sem þessi brbl. giltu fyrir. Í framkvæmd var útilokað að fella þau frv. eða breyta þeim vegna þess að það hefði ekki verið bægt fyrir fiskvinnsluna að sækja þá peninga aftur til allrar útgerðar í landinu. Það veit ég að þessi hv. þm. skilur og þarf ekki að halda alltaf áfram að tala um þetta sama.

En við stóðum að því og vildum að gjaldið yrði óbreytt út árið 1980, 5%. Fulltrúi sjómanna tók jafnframt fram á fundi sjútvn. í marslok, að hann gerði ekki kröfu um lækkun olíugjalds umfram það sem gert var samkomulag um í janúarmánuði á milli allra aðila. En hvaðan kom svo lækkunin? Tillaga kom frá sjútvrh. um að lækka gjaldið um helming. Það var m.a. trú hans að olían væri að lækka þó allir vissu að það mundi engin breyting verða og síst af öllu til lækkunar á olíu út vetrarvertíðina. Og hann sagði, eins og hv. síðasti ræðumaður var að taka fram, að þetta yrði m.a. til lausnar deilu sjómanna og útvegsmanna vestur á Ísafirði sem þá stóð yfir. En síðan hefur það gerst, að sjómenn hafa verið hlunnfarnir. Og þeir voru hlunnfarnir líka á undan. Það er þetta andrúmsloft, sem hefur skapast, sem ég er hræddur við, sérstaklega í sambandi við fiskverðsákvörðunina um áramótin. Ég vara hæstv. sjútvrh. í fullri vinsemd við að ganga svo langt í þessum efnum að það andrúmsloft skapist á milli sjómanna og stjórnvalda að það verði erfitt að taka fiskverðsákvörðun um næstu áramót. Sú ákvörðun er miklu stærri, hún nær til meira en helmings alls fiskaflans, en ákvörðun mín er um meira en helmingi minna.

Garðar Sigurðsson, hv. 4. þm. Suðurl., sagði um Karvel Pálmason að hann snerist í þessu máli. Karvel er einfær um að svara fyrir sig. En veslings 4. þm. Suðurl. hefur snúist í þessu máli eins og vindhani á hjallburst. Hann sagði í gærkvöld hér, og þá kom það frá hjartanu, að ráðherrastrákarnir sínir hefðu verið búnir — eins og hann orði það — að ákveða þetta og samþykkja það. Þá þurfti hann að snúast eftir ráðherrastrákunum sínum. Honum fer margt betur en að mæla fyrir máli sem hann er algjörlega á móti. Og ég ráðlegg honum, ef hann er svo bundinn af atkvæði sínu gagnvart ráðherrastrákunum, að hafa sig lítið í frammi og taka sér til fyrirmyndar formann Verkamannasambands Íslands sem hefur steinþagað nema rétt þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu áðan.

Hv. þm. sagði að hann gæfi lítið fyrir þetta samráðskjaftæði. Stóð hann ekki að Ólafslögunum? Greiddi hann ekki atkvæði með þeim? Ég held að forsrh., sem greiddi atkvæði á móti þeim og fann þeim allt til foráttu eins og Sjálfstfl. gerði, mundi geta fengið drjúgan liðstyrk annars staðar ef hann vildi afnema þessi lög. Hann fær liðstyrk frá fleiri í þeim efnum en frá sjálfstæðismönnum. Hann fær líka alveg örugglega liðstyrk frá 4. þm. Suðurl., nema einhverjir kippi þar í spotta.

Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. segir um kjaramál, að „ríkisstj. mun leita eftir samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um niðurstöður í kjarasamningum, sem geta samrýmst baráttunni gegn verðbólgu og þeirri stefnu stjórnarinnar að jafna lífskjör og bæta kjör hinna lakast settu í þjóðfélaginu. Ríkisstj. mun hins vegar ekki setja lög um atmenn laun nema allir aðilar að ríkisstj. séu um það sammála, enda sé haft samráð við samtök launafólks.“ — Ég held að hægt sé fyrir ríkisstj. að standa upp og lýsa yfir, ef hún hefur ekki horfið frá þessu, að það verði engar skerðingar gerðar á launum manna nema í samráði við samtök launafólks. Þá á ég ekki við að fulltrúar launþega í landinu séu kallaðir upp í ráðherrabústað og gefið þar kaffi og smákökur og þegar þeir spyrja um ástand í kjaramálum og efnahagsmálum þjóðarinnar svari forsrh. þeirri spurningu með öðrum spurningum á móti og ekkert skýrt komi fram. Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj. og hæstv. forseta deildarinnar, hvort ekki væri leyfilegt, fyrst ráðh. í ríkisstj. eru orðnir svo máttfarnir í fótunum að þeir geta aldrei staðið upp til að gefa Alþ. nein svör við fsp. í sambandi við efnahagsmál og kaup- og kjaramál, að þeir fengju að sitja í sæti sínu og svara sitjandi. Ég hef aldrei séð eða heyrt annan eins aumingjaskap hjá heilli ríkisstj., sem er skipuð af tíu ráðh., — þeir eru sjaldan á landinu nema svona sjö í einu og kannske niður í fjóra fimm, — að enginn þeirra skuli treysta sér að koma upp og svara því, hvort þeir séu eitthvað að gera eða ekki, hvort þeir ætli eitthvað að leggja fyrir þingið.

Myntbreytingin var áðan til umr., og ég gerði hana nokkuð að umræðuefni í gær. Hvernig ætli þessari myntbreytingu verði tekið ef ekkert er gert í efnahagsmálum? Myntin er þegar farin að rýrna heldur betur. Væri ekki tilvalið fyrir ríkisstj. að hætta við myntbreytinguna og setja myntina á útsölu eftir að smjörútsölunni lýkur? Ætli það væri ekki hægt að hafa eitthvað upp úr henni ef hún færi aldrei í umferð? Það eru margir myntsafnarar í veröldinni.