26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3099 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

254. mál, alþjóðasamningur um varnir gegn töku gísla

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að staðfesta alþjóðasamning um varnir gegn töku gísla.

Sá alþjóðasamningur eða samþykkt, sem hér er leitað eftir heimild ríkisstj. til að staðfesta, var gerður á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 17. des. 1979 og lagður fram til undirritunar í New York 18. des. 1979. Samningur þessi skuldbindur aðildarríkin til þess annaðhvort að framselja eða höfða refsimál gegn manni sem grunaður er um að hafa tekið gísl. Samningurinn fylgir þessari þáltill. sem fskj., bæði á ensku og í íslenskri þýðingu.

Það er svo, að á síðustu árum hefur verið leitað eftir alþjóðasamstarfi til varnar gegn hryðjuverkaöld sem hefur gengið yfir heiminn og birst hefur í ýmsum myndum. Ísland hefur gerst aðili að fjórum viðlíka samningum sem eiga að stuðla að því að koma í veg fyrir eða hefta þessa hryðjuverkastarfsemi sem átt hefur sér stað. Eitt alvarlegasta atriðið í því sambandi er taka gísla, ekki aðeins taka gísla í sendiráðum, heldur og taka gísla annars staðar.

Auðvitað hafa menn reynt að hugsa um hvernig hægt væri að snúast við þessum vanda. Ekki hafa allir verið þar á einu máli og telja jafnvel að undir sumum kringumstæðum sé taka gísla forsvaranleg. Á slíkt er ekki hægt að fallast að mínu mati. En hvað sem um það er varð að lokum samkomulag um að gera þá alþjóðasamþykkt sem hér er um að tefla. Þá hafði átt sér stað allmikill undirbúningur og aðdragandi að aðild og er gerð grein fyrir því í aths. með þáltill. þessari.

Eins og segir í þessum samningi skuldbinda aðildarríkin sig annaðhvort til þess að framselja viðkomandi aðila, sem gerist sekur um brot á samningnum, eða refsa honum. Er gert ráð fyrir að aðildarríkin hafi með sér samvinnu um þessi efni.

Talið er að í íslenskum lögum séu nægilegar refsiheimildir fyrir hendi í XXIV. kafla almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að refsiheimildin geti náð til manna sem fremja verknað utan íslenskrar lögsögu. Þess vegna er talið að það þurfi að gera breytingu á 6. gr. almennra hegningarlaga sem færir út svið íslenskrar lögsögu að því leyti. Um það atriði mun hæstv. dómsmrh. flytja frv. innan tíðar.

Eins og ég sagði áðan var þessi samningur lagður fram til undirritunar í desembermánuði 1979 og hafa nú 40 ríki undirritað samninginn. 6 ríki aðeins hafa fullgilt hann og eru þau talin upp í aths., en til þess að samningurinn öðlist gildi þurfa 22 ríki að samþykkja hann.

Herra forseti. Ég held að samningurinn skýri sig nokkuð að öðru leyti sjálfur og ég vísa til hans. Ég leyfi mér að óska eftir því, að þessari till. verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.