26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (3234)

80. mál, alkalískemmdir á steinsteypu í húsum

Frsm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. um þáltill. varðandi viðgerðarkostnað vegna alkalískemmda á steinsteypu í húsum. Allshn. hefur afgreitt þetta mál frá sér, orðið sammála um afgreiðslu málsins og lagt fram nál. sem er svohljóðandi:

„Nefndin hefur fengið umsagnir frá Húsnæðisstofnun ríkisins og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Jafnframt fór nefndin í kynnisferð á vegum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, þar sem skoðuð voru alkalískemmd hús í Reykjavík og hlýtt á fyrirlestra sérfræðinga stofnunarinnar um þetta mál. Nefndin mælir með samþykkt till. með breytingu og verður brtt. flutt á sérstöku þskj.

Á þskj. 524 er brtt. allshn. vegna þessarar þáltill. Brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta:

Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að sjá til þess, að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins verði gert kleift að framkvæma nauðsynlega könnun á því, hvernig best verði staðið að viðgerðum á alkalískemmdum á steinsteypu í húsum.

Jafnframt skorar Alþingi á ríkisstj. að hún skipi nefnd, sem hafi það verkefni að kanna með hverjum hætti best verði fyrir komið fjárhagsaðstoð við þá húseigendur, sem leggja þurfa í mikinn viðgerðarkostnað vegna alkalískemmda á steinsteypu á húsum sínum.

Nefndin ljúki störfum sem fyrst og skal álit hennar sent Alþingi. Ef nauðsyn ber til sérstakrar lagasetningar í þessu efni skal ríkisstj. undirbúa slíka löggjöf og leggja fyrir Alþingi sem fyrst.“

Eins og fram kemur af þessari brtt. og nál. er n. sammála um að mæla með samþykkt till. svo breyttrar. Í brtt. er sérstaklega lögð áhersla á að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins verði gert kleift að framkvæma rannsóknir á því, með hverjum hætti verði hagkvæmast eða best unnið að viðgerðum á þeim húsum sem skemmd eru orðin. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur gert áætlun um að það muni þurfa að verja um 200 millj. kr. til slíkra rannsókna. Hér er um aldeilis feiknalega mikilvægt mál að ræða, vegna þess að mjög mörg hús, hér á höfuðborgarsvæðinu kannske sérstaklega, eru þegar talsvert skemmd, sum mjög mikið, vegna alkalívirkni. Það liggur alveg beint við, að á næstu árum verður að verja mjög verulegum fjármunum til viðgerða á þessum húsum. Sum eru svo illa komin að það verður ekki dregið öllu lengur að ráðast í viðgerðir.

Miðað við þá gífurlegu fjármuni, sem þarna eru í veði, er nefndin sammála um að nauðsynlegt sé að ráðast í slíkan rannsóknarþátt sem Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins mælir með. Sjálfsagt væri eðlilegt að þessum rannsóknarkostnaði væri skipt á milli nokkurra aðila. Til að mynda væri eðlilegt að Húsnæðisstofnun ríkisins bæri einhvern hluta þess kostnaðar, og eðlilegt gæti verið að Reykjavíkurborg tæki þátt í þessum kostnaði líka vegna þess mikla fjölda húsa með alkalívirkni sem hér er. E. t. v. gætu fleiri aðilar komið þarna til. Hafa t. d. verið nefndir aðilar eins og Sementsverksmiðja ríkisins, jafnvel Landsvirkjun, Vegagerðin og Hafnamálastofnun. Alla vega er mjög mikilvægt að fé verði veitt til þessara rannsókna þannig að sem allra fyrst verði ljóst á hvern hátt verði best að þessum viðgerðum staðið. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur í þessu sambandi nefnt fimm mismunandi aðferðir sem starfsmenn hafa talið koma til greina, en eru a. m. k. við fyrstu sýn nokkuð mismunandi.

Í fyrsta lagi er þar um að ræða loftræsta klæðningu utan á þessi hús. Árangur slíkrar klæðningar er að líkindum varanleg bót á alkalískemmdum, en kostnaður hár. Til greina kemur einnig að múra á einangrun utan á þessum húsum og er líklegt að árangur af slíkri aðgerð væri varanlegur, en kostnaður nokkuð óviss, en þó líklega hár. Í sumum tilvikum kemur til greina nokkurs konar endursteypa eða að mölva skemmdasta lagið utan af húsunum og steypa aftur. Árangur af slíkri aðgerð er reyndar óviss, en kostnaður mjög hár. Efnafræðiaðgerðir ýmsar gætu komið til greina, en árangur þeirra er óviss og kostnaður óviss. Yfirborðsmeðhöndlun hafa menn dálítið rætt um, sem væri nokkurs konar húðun flatarins til að halda vatni frá. Árangur á þessu stigi málsins er álitinn vafasamur, en kostnaður hóflegur.

Eins og menn sjá af þessari upptalningu koma nokkrar leiðir til greina. Það er mjög mikið mál fyrir þjóðfélagið og hina einstöku aðila, sem í þessu máli eiga, á hvern hátt í þessar viðgerðir er ráðist. Í fyrsta lagi, að viðgerðaraðferðin, sem valin er, sé varanleg bót á þeim skemmdum sem um er að ræða, og í öðru lagi, að viðgerðarkostnaður verði ekki hærri en nauðsyn er á. Því er sérstök ástæða til að ítreka það álit nefndarinnar að nauðsynlegt sé að ríkisstj. sjái til þess, að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins verði gert kleift að framkvæma þessa nauðsynlegu könnun.