04.11.1980
Neðri deild: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. kom upp áðan og sagði það ósannindi, sem ég hafði eftir Ingólfi Ingólfssyni, að ekkert samráð hafi verið haft við fulltrúa sjómanna í sambandi við ákvörðun um fiskverð og hækkun olíugjalds. Ég vil bera það undir hv. þm., meðnefndarmenn mína úr stjórnarliðinu, formann n., hv. þm. Garðar Sigurðsson, formann þingflokks framsóknarmanna, Pál Pétursson, og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, hvort ekki er rétt haft eftir þeim fulltrúa sem hér er um að ræða. Ég vísa því alfarið á bug að ekki séu rétt hafðar eftir Ingólfi Ingólfssyni þær upplýsingar sem hann gaf á áðurnefndum fundi. (Sjútvrh.: Ég sagði aldrei að þm. væri að segja ósatt.) þú sagðir það ósannindi sem hér væri verið að flytja inn í þingið. Ég tók það svo, að því hefði verið beint til mín. Ég var að segja þetta. Ef svo er ekki bið ég hæstv. ráðh. afsökunar, en þó er staðfest að hér er ég að fara með rétt mál. Það er svo augljóst sem vera má. Enn stendur að í þetta skiptið, hið eina af þeim tilvikum sem olíugjald og fiskverð hefur verið ákvarðað, hefur ekkert samráð verið haft við fulltrúa sjómanna um ákvörðunina. Það skýtur skökku við í ljósi þess, að hæstv. sjútvrh. hefur ekki mótmælt því hér, sem ég hef haldið fram, að hann hafi gefið vestfirskum sjómönnum fyrirheit um að olíugjaldið skyldi hverfa. Ég vek athygli hv. þm. á því, að hann hefur ekki mótmælt þessari fullyrðingu minni. Ég veit raunar að þetta er rétt. Þessi fyrirheit voru gefin af hæstv. ráðh. En þau eru enn aðeins fyrirheit.

Það er svo kapítuli út af fyrir sig, að mér sýnist ætla að koma í ljós að hv. þm. Garðar Sigurðsson og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson eiga ýmislegt meira sameiginlegt en ég og margur annar hafði ætlað, þó ótrúlegt sé, því það er álíka og að nefna snöru í hengds manns húsi þegar hv. þm. Garðar Sigurðsson brigslar öðrum um að þeir fari ekki eftir eigin sannfæringu og breyti um skoðanir eftir hentugleikum. Strax við 1. umr. þessa máls var vitnað til ummæla hv. þm. Garðars Sigurðssonar, sem hann viðhafði við dagblaðið Vísi, þar sem hann fordæmdi í öllum atriðum þessa meðferð á olíugjaldinu og hækkunina. Og meira en það, — meira að segja við atkvgr. um málið áðan fordæmdi hann frv., en samþykkti það samt. Hver tekur mark á slíkum málflutningi, þegar eins stutt er milli umskipta í skoðunum og hér er um að ræða?

Ég vil segja það við hv. þm. Garðar Sigurðsson, — ég vil honum vel, hef alltaf gert og mun áfram, — að haldi hann áfram á sömu braut má hann fara að vara sig fyrir þeim flokksbróður sem fyrst og fremst vill ýta honum burt úr þingsætinu. Ég mæli af fullum heilindum, hv. þm. Garðar Sigurðsson: Gættu þín betur ef ekki á illa að fara.